19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

1. mál, fjárlög 1984

Frsm. samvn. samgm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Samvinnunefnd samgöngumála hefur að venju fjallað um erindi þau sem Alþingi hafa borist um fjárframlög til stuðnings við rekstur flóabáta vegna vöru- og fólksflutninga á hinum einstöku svæðum, svo sem á Faxaflóa, á Breiðafirði, Ísafjarðardjúpi og til Vestmannaeyja, um Eyjafjörð allt til Grímseyjar og svo vegna samgangna milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar. Enn fremur hefur n. fjallað um erindi sem borist hafa vegna flutninga á landi, svo sem til reksturs snjóbifreiða eða vegna mikils snjómoksturs þar sem erfitt reynist viðkomandi byggðarlögum að standa straum af þeim kostnaði sem þau verða að bera samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðarinnar. Þrátt fyrir að snjómokstursreglurnar hafi verið rýmkaðar á síðustu árum hafa íbúar í snjóþungum héruðum orðið fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins við að halda uppi nauðsynlegum samgöngum, enda má segja að þjónusta Vegagerðarinnar sé minnst þar sem snjóalögin eru mest. Til að minnka þennan aðstöðumun hafa verið veitt á fjárlögum hvers árs fjárframlög til þeirra aðila sem að dómi n. eru verst settir að þessu leyti.

N. bárust nú umsóknir frá 62 aðilum. Halldór S. Kristjánsson skrifstofustjóri í samgrn. og Guðmundur Einarsson forstjóri Skipaútgerðar ríkisins mættu á fundum n. og veittu henni margvíslegar upplýsingar sem komu n. verulega að gagni. Fyrir hönd n. færi ég þeim sérstakar þakkir fyrir þeirra störf.

N. fékk glögga grg. og endurskoðaða reikninga yfir rekstur flóabátanna. Til þeirra gengur langmestur hluti þess fjármagns sem n. úthlutar. Ýmsir aðrir aðilar, er styrk til landflutninga njóta, hafa einnig sent n. greinargóðar upplýsingar og reikninga um rekstur og annað er umsóknina varðar og er það mikil breyting til bóta. Enn fremur hafa einstakir nm. haft samband við flesta þá aðila sem styrk hafa fengið að undanförnu eða umsóknir sendu nú í fyrsta skipti, en það eru sex aðilar. Í mörgum þessum umsóknum kemur glöggt fram að aðstöðumunurinn er mikill hvað kostnað við allar samgöngur varðar og er n. fullkomlega ljóst að full ástæða væri til að hafa þessa styrki verulega hærri til að minnka þennan aðstöðumun. En á hitt ber einnig að líta, að margir munu þeir vera lítið betur settir sem enga umsókn hafa sent.

Í nál. samvn. samgm., sem er á þskj. 263, er gerð grein fyrir rekstri flóabátanna og vísa ég til þess sem þar stendur, en sé ekki ástæðu til að fara út í það frekar nema þess sé sérstaklega óskað.

Miklar umr. fóru fram í n. um rekstur sumra flóabáta. Sem kunnugt er hefur fjmrn. auglýst til sölu hlutabréf ríkisins í nokkrum fyrirtækjum, þ. á m. í þeim fyrirtækjum sem gera út flóabáta. Ef hlutabréf þessara báta verða seld og þar sem svo stendur á að aðrir en ríkið eiga að mestu eða öllu leyti þá báta sem stofnstyrks njóta úr ríkissjóði telur n. nauðsynlegt að gengið sé þannig frá málum að sett verði með einhverjum hætti sú kvöð á stofnstyrkina, að ef slík skip hætta rekstri á þeirri flutningaleið sem stofnstyrkurinn er veittur til áður en eðlilegur endingartími skipsins er liðinn verði eigendur að endurgreiða styrkinn miðað við söluverð eða matsverð skipsins þegar rekstri er hætt. Enn fremur telur n. nauðsynlegt að það verði tryggt á öruggan hátt, t.d. með samkomulagi rekstraraðila flóabátanna og samgrn., að þeir skuldbindi sig til að halda að öllu leyti við ferðaáætlun á þjónustusvæði sínu og að ferðaáætlanir flóabáta verði samþ. af samgrn. Um gerð samkomulags og framkvæmd þess verði haft samráð við formenn samgöngunefnda Alþingis.

Mjög ítarlega var fjallað um hverja umsókn og náðist full samstaða um hverja fjárveitingu í nefndinni. Samkvæmt grg. þeirri, er nál. fylgir, leggur samvn. samgm. til að í fjárlögum 1984 verði veitt samtals 44 millj. 252 þús., sem skiptist sem ég mun hér gera grein fyrir, en það er 42.9% hækkun miðað við fjárlög yfirstandandi árs.

Þeir sem eiga eftir till. n. að njóta styrkja að þessu sinni eru: Til vetrarflutninga í Breiðavíkurhreppi og Neshreppi utan Ennis 45 þúsund, til vetrarflutninga á norðanverðu Snæfellsnesi 45 þúsund, til vetrarflutninga í Dalahéraði 90 þúsund, til snjóbifreiðar í Austur-Barðastrandarsýslu 25 þúsund, til mjólkurflutninga í Vestur-Barðastrandarsýslu 100 þúsund, til vetrarsamgangna í Rauðasandshreppi 45 þúsund, til vetrarsamgangna í Ketildalahreppi 35 þúsund, til vetrarflutninga í Bíldudal 35 þús., til vetrarsamgangna í Auðkúluhreppi, Vestur-Ísafjarðarsýslu 40 þús., til vetrarsamgangna við Ingjaldssand 70 þús., snjóbifreið í Önundarfirði 75 þús., snjóbifreið um Botnsheiði 40 þús., stofnstyrkur 70 þús., til mjólkurflutninga í Önundarfirði, Dýrafirði, Súgandafirði og Djúpi 235 þús., til vetrarflutninga í Álftafirði, Norður-Ísafjarðarsýslu 40 þús., til vetrarflutninga í Ögurhreppi 25 þús., til vetrarsamgangna í Reykjafjarðarhreppi 25 þús., til vetrarsamgangna í Nauteyrarhreppi 25 þús., til vetrarsamgangna í Snæfjallahreppi 25 þús., til vöruflutninga í Árneshreppi 160 þús., til vetrarsamgangna í Árneshreppi 60 þús., til vetrarsamgangna í Kaldrananeshreppi 25 þús., snjóbifreið á Hólmavík 30 þús., snjóbifreið í Austur-Húnavatnssýslu 15 þús., vegna vetrarsamgangna í Skefilsstaðahreppi 25 þús., snjóbifreið í Skagafirði 27 þús., til vetrarflutninga í Haganes- og Holtshreppum 40 þús., Grímsey vegna flugs 250 þús., til vetrarflutninga í Ólafsfirði 35 þús., stofnstyrkur 30 þús., snjóbifreið í Dalvíkurhéraði 15 þús., til vetrarsamgangna í Svarfaðardal 45 þús., til snjóbifreiðar á Akureyri 30 þús., snjóbifreiðar í Grýtubakkahreppi 25 þús., snjóbifreiðar í Hálshreppi, Suður-Þingeyjarsýslu 27 þús., til vetrarsamgangna í Fjallahreppi 60 þús., til snjóbifreiðar á Kópaskeri fyrir Öxarfjörð og nágrenni 40 þús., snjóbifreiðar á Þórshöfn 35 þús. og stofnstyrkur 75 þús., til vetrarflutninga á Bakkafjörð 70 þús., til vetrarflutninga á Vopnafirði 70 þús., til vetrarflutninga í Borgarfjörð eystra 80 þús., til vetrarsamgangna í Hjaltastaðahreppi 26 þús., til pósts og vöruflutninga á Jökuldal 25 þús.. til vetrarflutninga á Jökuldal 40 þús., stofnstyrkur 130 þús., til vetrarflutninga í Möðrudal 25 þús., snjóbifreið á Fljótsdalshéraði 27 þús., snjóbifreið á Fjarðarheiði 280 þús., snjóbifreið á Oddsskarði 270 þús., stofnstyrkur 100 þús., snjóbifreið á Fagradal 45 þús., snjóbifreið, Stöðvarfjörður — Egilsstaðaflugvöllur 50 þús., til vetrarflutninga á Breiðdalsvík 60 þús., til vetrarflutninga Djúpivogur-Hornafjörður 100 þús., stofnstyrkur 60 þús., styrkur til Svínafells í Nesjum 27 þús. og til vöruflutninga á Suðurlandi 245 þús. Þessir minni styrkir gera 3 millj. 869 þús.

Þá eru það flóabátarnir. Það er til Akraborgar 6 millj., til Breiðafjarðarbátsins Baldurs 5 millj. 200 þús., til Langeyjarnesbáts 35 þús., til Mýrabáts 3 þús., til Fagraness 4 millj. og 900 þús. og stofnstyrkur 400 þús., Dýrafjarðarbátur 40 þús. og stofnstyrkur 35 þús., til Hríseyjarferju 1 millj. og 50 þús., stofnstyrkur 1 millj. 475 þús., Drangur 2 millj. 400 þús., stofnstyrkur 8 millj. og 100 þús., Mjóafjarðarbátur 880 þús. og Herjólfur 9 millj. 900 þús. Til bátanna leggur n. til að fari í heildarupphæð 40 millj. 383 þús.

Samtals eru þetta 44 millj. 252 þús.