25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

20. mál, hjartaskurðlækningar á Landspítalanum

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það vekur athygli þegar þetta mál er athugað hversu tíðni hjartaaðgerða hefur aukist mjög hratt á undanförnum árum. samkvæmt þeim tölum sem við þm. höfum fengið í hendur þá munu 29 Íslendingar hafa farið í slíkar aðgerðir 1973, en nú 10 árum síðar er reiknað með að 130 sjúklingar fari í slíka aðgerð og að fjöldi þeirra muni vaxa enn í 150–160 á næsta ári. Svo ör fjölgun hlýtur að vekja til umhugsunar um, hvort þeim mörkum sé ekki náð að það sé fjárhagslega orðið hagkvæmt að flytja slíkar aðgerðir inn í landið. Að auki koma önnur rök til sem hér hafa verið tilgreind, bæði hin mannlegu rök svo og að þekking íslenskra lækna og fólks, sem starfar að heilbrigðismálum, er þannig að slík deild gæti vafalaust verið rekin hér með miklum sóma eins og við höfum dæmi um á öðrum sviðum læknisfræðinnar.

Ég vil fagna yfirlýsingum hæstv. heilbrrh. í þessu máli og mér fannst stefna hans í þessu vera mjög skýr og ákveðin, þ.e. að tryggja það á næsta ári að rannsóknarþættinum verði komið í lag, er hann hefur dregist aftur úr eins og fram hefur komið. Rannsakað verði til hlítar það sem auðvitað hefði átt að vera búið að rannsaka fyrr, eins og hv. síðasti ræðumaður vakti athygli á, hversu mikill kostnaður er hér raunverulega á ferðinni og að stefnt verði að því að árið 1985 verði slík starfsemi tekin upp hér á landi. Mér finnst mikilvægt að fá slíka yfirlýsingu frá hæstv. heilbrrh. Það er ekki síst mikilvægt fyrir þá sem búa sig undir það að taka þessi störf að sér og ég þykist vita og finna af undirtektum hv. þm. sem hér hafa talað að hæstv. heilbrrh. fær Alþingi á bak við sig við framkvæmd þeirrar stefnu sem hann hér hefur boðað.