19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2192 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

1. mál, fjárlög 1984

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Fjárlögin, sem nú eru til umr., svo og lánsfjárlög, marka ramma efnahagslífsins á Íslandi. Á þessari stundu er þess vegna ástæða til að staldra við og líta á stöðuna eins og hún blasir við þegar við afgreiðum þessi fjárlög.

Ég held að ljóst sé að fátt hafi meiri áhrif á afkomu okkar í bráð og lengd í þessu landi en hvernig til tekst í atvinnumálum og fjárfestingarmálum. Hvernig til tekst um stefnumörkun í þessum málaflokkum af hálfu ríkisstj. og Alþingis ræður í raun miklu um efnahagsþróun. Við höfum í rauninni fyrir augunum hvernig til hefur tekist og það er ekki fagur vitnisburður. Það eru ekki aðeins Kröflumálin sem hafa mistekist, eins og hv. formaður fjvn. gerði hér sérstaklega að umræðuefni áðan. Þær eru margar Kröflurnar. Þetta hefur líka átt sér stað í ýmsum atvinnugreinum. Ég minni á þá fjárfestingu sem hefur átt sér stað í landbúnaði og í fiskiskipastólnum á undanförnum árum, en nú sjáum við þess líka stað í versluninni sérstaklega.

En það er ekki eingöngu í þessum atvinnugreinum sem við horfum upp á að ekki sé rétt tekið á fjárfestingarmálum. Það á líka við í hinum opinbera geira. Það á líka við í opinberri fjárfestingu.

Við höfum haft ríka tilhneigingu til að fjárfesta of stórt miðað við þarfir, byggja of stórt miðað við þarfir. Við kunnum dæmi af heilsugæslustöðvum sem eru svo stórar að menn standa ekki undir því að reka þær. Við kunnum dæmi af fallegum sundtaugum, sem hafa verið reistar, en menn geta ekki haldið þeim opnum af því að það er svo dýrt að reka þær. Og við munum líka dæmi af sjúkrahúsum sem eru óþarflega stór miðað við þarfir. Það gengur illa að reka þau þess vegna ellegar þá að þau eru árum saman, jafnvel áratugum saman, í byggingu. Það hlýtur að vera sérstakt áhyggjuefni á þessari stundu hvernig til hafi tekist í þessum efnum og hvernig fram undan er í atvinnu- og fjárfestingarmálum, þegar við horfum upp á þá miklu kjaraskerðingu sem þjóðin hefur orðið að þola og nú hefur verið boðað að hún verði að þola í enn auknum mæli á næsta ári miðað við forsendur fjárlagafrv.

Fyrir fjórum árum varaði ég sérstaklega við því að ráðist yrði í of mikla fjárfestingu í skipastólnum. Þessi aðvörunarorð voru endurtekin af hálfu Alþfl. á öllum undangengnum þingum. Nú, í rauninni a.m.k. fjórum árum of seint, liggur fyrir að allir viðurkenna að skipastóllinn sé orðinn of stór. Þó var það svo að ekki gat Alþingi fengið sig til þess að taka á þessum málum meðan það var ekki of seint. Ég trúi því að margir hv. þm. hafi séð fyrir hvert við vorum að fara í þessum efnum, en Alþingi tók ekki af skarið, Alþingi markaði ekki stefnu sem var raunhæf og skynsamleg af sjónarhóli Íslendinga. Ég rifja þetta upp nú vegna þess að ég held að enn sé ástæða til þess að líta á þennan málaflokk, fjárfestingarmálin, í heild.

Það stendur óbreytt að fjárfestingin í fiskiskipastólnum verður að dragast saman. Það stendur líka óbreytt, sem við Alþfl.-menn höfðum oft ítrekað á undanförnum árum, að við getum ekki leyft okkur mikla fjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði þegar við verðum á sama tíma að greiða afurðirnar niður. Þá gildir það líka að ekki er ástæða til að greiða niður fjárfestingu í þessum greinum og stuðla þannig að aukinni fjárfestingu, eins og enn er gert eftir algerlega úreltri löggjöf. En við skulum líta á aðra þætti.

Það vekur athygli að nú er verið að fjárfesta í seðlabankahúsi, í útvarpshúsi, í stórri mjólkurstöð í Reykjavík, í kjötvinnslu, sem á að fara að rísa, og miklar fjárfestingar eru fram undan í verslun. Á sama hátt og við Alþfl.-menn vöruðum við þróuninni í fjárfestingu í skipastólnum fyrir fjórum árum og á undangengnum þingum hljótum við nú að vara við því, sem virðist vera að gerast, að það sé verið að fjárfesta að óþörfu langt umfram þarfir í verslunarrekstri og hins vegar að það sé verið að fjárfesta langt umfram þarfir í vinnslustöðvum landbúnaðarins — fjárfestingu sem ekki er líkleg til að skila arði. En ég vil líka benda á — og raunar gaf ræða hæstv. iðnrh. sérstakt tilefni til þess — hversu illa er komið í orkumálunum. Þetta er þó auðlind sem við verðum að byggja framtíðaratvinnurekstur á Íslandi á.

Hv. formaður fjvn. gerði sérstaklega að umtalsefni hversu mikið ríkið greiddi með byggðalínunum og hann rakti hversu mikið ríkið greiddi nú með Kröflu. En við erum að leyfa okkur ýmislegt fleira í þessum efnum. 300 millj. eða svo telja menn að þeir hafi efni á að leggja í umframkostnað við Blönduvirkjun. Þetta gerðist á sama tíma og hæstv. iðnrh. sér ástæðu til að gera grein fyrir því sérstaklega hér hversu illa við séum staddir í þessum málaflokki. Þetta hlýtur líka að vera okkur sérstakt umhugsunarefni.

Við hljótum að þurfa að taka til endurskoðunar yfirstjórn orkumálanna og hvernig við höldum á fjárfestingunni í orkusektornum, þannig að þeir fjármunir sem þangað fara nýtist vei. Það er nefnilega grundvallaratriði fyrir okkur, jafnvel þótt menn deili um eignaraðildina að stóriðjufyrirtækjum, að við séum samkeppnisfærir um sölu á orku til stóriðnaðarframleiðslu. Mér er stórlega til efs að við séum það í raun og sannleika um þessar mundir. En þetta verður að breytast ef menn ætla að halda hér uppi góðri atvinnuþróun.

Þessi orð, sem ég hef flutt hingað til varðandi fjárfestinguna, eru aðvaranir um hvernig menn eigi að hafa hemil á til þess að fjárfestingin fari ekki úr hófi fram og þannig að hún sé arðbær og gagnist þjóðinni. Við þurfum nefnilega á fé að halda í aðra hluti sem geta orðið til þess að bæta afkomu okkar. Við þurfum á fé að halda í fjárfestingu í tæknibúnaði í fiskvinnslu. Við þurfum á fé að halda í fjárfestingu í nýiðnaði og tæknibúnaði í iðnaði yfirleitt. Og við verðum að hafa nægilegt svigrúm til að geta fjárfest í nýjum íbúðum fyrir sífellt stækkandi hóp Íslendinga, þ.e. fyrir allan þann fjölda ungs fólks sem er að koma á vinnumarkaðinn, sem er að stofna til fjölskyldna. Þetta svigrúm verðum við að skapa með aðhaldi á öðrum sviðum.

Um atvinnumálin verð ég að segja það, að við verðum eins og ég sagði áður að haga stjórn orkumálanna þannig að við séum samkeppnisfær um sölu á orku til stóriðju þannig að uppbygging geti átt sér stað þar. En við verðum líka að nýta þá möguleika til útflutnings á almennum iðnaðarvörum sem eiga að geta verið fyrir hendi. Þetta á að geta gerst hjá ýmsum smærri iðnfyrirtækjum á Íslandi. Til þess þarf annars vegar hugvit og hins vegar aðgang að fjármagni. En stærst er þó í huga mínum sú viðhorfsbreyting að menn líti á sölumennsku á erlendum markaði sem raunverulega atvinnugrein og henni verði sinnt.

Sölumennska á erlendum markaði hefur orðið út undan í íslensku atvinnulífi. Það á við ekki bara í hinum hefðbundnu greinum eins og landbúnaði og sjávarútvegi, heldur líka í iðnaðinum. Í þessum efnum þarf að verða viðhorfsbreyting. Ég er sannfærður um að með slíkri viðhorfsbreytingu getum við fundið markað fyrir ýmsar af okkur landbúnaðarafurðum, ef hugvitið fær að njóta sín og það er ekki hneppt í einokunarfjötra. Ég er líka sannfærður um að við getum fundið útflutningsmöguleika fyrir margvíslegan iðnað ef hugvitið fær að njóta sín þar í framleiðslu og í sölumennsku. En til þess þarf ekki aðeins fjármagn, það þarf líka viðhorfsbreytingu. Í mínum huga er þetta eitthvert stærsta viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir í atvinnumálum eins og nú árar.

Þetta vildi ég segja í upphafi, herra forseti, vegna þess að ég tel að þessi atriði, grundvallarþættir atvinnumálanna, séu aldrei nægilega rædd og síst af öllu hér á Alþingi. Þess sér ekki stað að þessum málum sé sérstakur gaumur gefinn hér á þinginu né í þeirri fjárlagaafgreiðslu sem hér á sér stað. En þetta varðar þó grundvöllinn að afkomu okkar. Grundvallaratriðið verður að vera að létta byrði rangrar fjárfestingar af heimilunum og skapa svigrúm til betri lífskjara, ekki bara með því að létta af þessari byrði, heldur líka með því að stuðla að nýsköpun í atvinnulífi með þeim hætti sem ég gerði hér grein fyrir áður, skapa þannig svigrúm til kjarabóta. Í huga mínum er þetta svo mikilvægt atriði að í hvert einasta skipti sem fjallað er um efnahagsmál, hvort heldur það er vegna þess að fjallað er um fjárlög eða lánsfjáráætlun, fel ég ástæðu til að ítreka þetta. Og þróunin hefur í rauninni sannað að yfirleitt hafa Íslendingar verið of seinir að átta sig. Það er reynslan sem við höfum staðið frammi fyrir núna þessa dagana þegar við höfum rætt sjávarútvegsmálin. Það er reynslan í landbúnaðarmálunum og það virðist ætla að verða reynslan í orkumálunum og í iðnaðarmálunum. Sú saga má ekki halda áfram að endurtaka sig út í það óendanlega, að Íslendingar grípi of seint á sínum vandamálum og horfi ekki fram á veginn.

Að þessu sögðu vil ég víkja sérstaklega að því fjárlagafrv. sem hér er til umr.

Ég vil minna á í fyrsta lagi að það voru tvö loforð sem stóðu hæst af hálfu ríkisstj. þegar hún var mynduð. Það var loforðið um hallalaus fjárlög eða jafnvægi í ríkisfjármálum og það var loforðið um að ekki yrðu auknar erlendar skuldir. Nú liggur fyrir að hvorugt af þessu verður efnt. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um hallann á fjárl. Hv. formaður fjvn. gerði sjálfur að umtalsefni hér að það yrði halli á fjárl. hvað sem liði loforðum ríkisstj., hvað sem liði loforðum ríkisstjórnarflokkanna.

En það er líka svo, ef menn líta á lánsfjáráætlun ríkisstj., að ekki verður samdráttur í erlendum skuldum á næsta ári. Það verður ekki einu sinni svo að erlendar skuldir standi í stað. Þær munu aukast. samkvæmt þeim áformum sem liggja fyrir í lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir að til endurgreiðslu á erlendum löngum lánum þurfi 3160 millj. kr., en á sama tíma er fyrirhugað að taka ný erlend lán sem nema 5 þús. millj. kr. og er þá ekki farið að hugsa fyrir því sem er afleiðing af meðferð fjárlaganna hér á Alþingi. Samkv. þessu munu erlend lán Íslendinga á árinu 1984 aukast um a.m.k. 2000 millj. kr. Þetta tel ég rétt að komi fram á þessari stundu.

Þar fyrir utan er að sjálfsögðu ástæða til að minna á það sérstaka loforð Sjálfstfl. og heitstrengingar formanns fjvn. að bensíngjaldið yrði tekið, þegar Sjálfstfl. kæmist í valdaaðstöðu, til vegamálanna í landinu. Ég þarf ekki að fara öllu fleiri orðum um það. Það var gert svo rækilega af frsm. minni hl. fjvn. hér áður, alþm. Geir Gunnarssyni.

Það liggur fyrir að ekkert þessara þriggja heita, tvö ríkisstjórnarheit og eitt sérstakt heit sjálfstæðismanna sem fara nú með fjármálin, verður efnt með þeim afleiðingum fyrir efnahagslífið sem við ættum öll að geta gert okkur grein fyrir, þeirri hættu sem í því felst á vaxandi verðbólgu og enn þá meiri erfiðleikum á komandi árum.

Um önnur einkenni fjárl. get ég verið fáorður að því er megindrættina varðar.

Í fyrsta lagi er það svo, að ofan á þá tekju- og kjaraskerðingu sem launafólk í landinu hefur orðið fyrir á árinu 1983 á nú að bæta aukinni kjaraskerðingu á árinu 1984 samkv. forsendum og stefnu fjárlaganna, eins og þau voru kynnt hér af hv. formanni fjvn., og ofan á tvöföldun á hitunarkostnaði, sem menn hafa búið við á árinu 1983 og mun halda áfram, og ofan á það að yfirleitt allar gjaldskrár hafa verið hækkaðar um 60–100% og meiri hækkanir eru á leiðinni. Þessi áframhaldandi kjaraskerðing er að verða óviðunandi fyrir heimilin í landinu. Ég vara við því að haldið verði áfram á þeirri braut og sá árangur, sem menn þó þykjast sjá að hugsanlega muni nást, verði að engu gerður með því að spenna bogann of hátt og ætla fólkinu allar þessar byrðar þannig að það kikni undan því.

Þá er þriðja einkenni fjárlaganna, en það er tilflutningur á sköttum frá fyrirtækjunum til einstaklinganna. Þetta varðar tekjuskattana í landinu. Það er lækkun á tekjusköttum á fyrirtækjum á sama tíma og verið er að hækka tekjuskattsbyrði einstaklinganna, launafólksins í landinu.

Auðvitað hefði kannske verið ástæða til þess fyrir stjórnarandstöðuna eða sérstaklega fyrir okkur þm. Alþfl. að flytja margvíslegar brtt. við þau fjárlög sem hér á að fara að afgreiða. En við höfum ekki gert það vegna þess að óvissan um útkomu þessara fjárlaga er slík að það er erfitt á að taka og vegna þess líka að menn hafa ekki fengið að vita forsendur fjárlaganna fyrr en í dag. Til þess að geta undirbúið brtt. þurfa menn að vita hverjar hinar raunverulegu forsendur fjárlaganna eru samkv. till. ríkisstj. En í fjh.- og viðskn. þessarar deildar varð samstaða um að flytja brtt., sem er hér á sérstöku þskj. og fjallar einmitt um skattbyrðina og leið til að lina nokkuð þá skattbyrði sem lögð er á fólkið í landinu.

Þessar till. fluttu í fjh.- og viðskn. fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem eru í stjórnarandstöðu. En þær koma að sjálfsögðu ekki til afgreiðslu við afgreiðslu fjárlaga. Þess vegna sáum við þm. Alþfl. sérstaka ástæðu til að taka efnisatriðin upp í till. sem kemur hér til umfjöllunar og er á þskj. 266. Þar er gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga lækki frá því sem liggur fyrir í fjárlagafrv. eftir 2. umr. um 295 millj. kr., þar er gert ráð fyrir leiðréttingu á sjúkratryggingagjaldinu með sama hætti og fjvn. gerir ráð fyrir, en þar er gert ráð fyrir að tekjuskattur félaga hækki um 60 millj. kr. og niðurgreiðslur á vöruverði lækki um 220 millj. kr.

Þessar tillögur fela í sér í megindráttum annars vegar að komið er til móts við þá sem alverst standa í þjóðfélaginu, komið til móts við þá sem ekki njóta þó þeirrar hækkunar á persónuafslætti sem hefur verið boðaður, þá sem hafa svo lágar tekjur að þeir njóta þess ekki til að lækka á þeim skattana, og í annan stað á að draga úr skattbyrðinni á obba launafólks á miðtekjufólkinu í landinu. Þessir eru megindrættir þessarar till. um breytingar á fjárl. sem ég hef ástæðu til að mæla hér sérstaklega fyrir. En ég sé það, herra forseti, að klukkan er orðin eilítið meira en fimm og ég á því miður a.m.k. fimm mínútur eftir af ræðu minni. Ég býðst til að gera hlé á henni á þessari stundu. (Forseti: Já, því er tekið með þökkum og við höldum ræðunni áfram síðar.)