19.12.1983
Sameinað þing: 34. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

1. mál, fjárlög 1984

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það var sannarlega mál til komið að við fengjum að sjá framan í hæstv. heilbrrh. Matthías Bjarnason hérna loksins í essinu sínu á þessu þingi. Það hefur ekki gerst, svo ég muni, síðan þessi hæstv. ráðh. settist í stól sinn og kom til þings í haust að hann færi á slíkum kostum sem við þekktum hér áður fyrr. Það var sannarlega mál til komið að hinir tveir nýju þingflokkar sem hann vék svo kurteislega að í máli sínu áðan fengju aðeins að sjá framan í hæstv. ráðh. eins og hann á að sér að vera og eins og við þekktum hann á árum áður á síðustu þingum þegar hann viðhafði sinn Þingeyrarstíl í ræðustól á Alþingi. Það er sannarlega tilbreyting fyrir menn eftir að hann hefur legið í eins konar dvala að hann komi út úr híði sínu, þessu híði sem hann hefur legið í núna alveg fram undir svartasta skammdegið. Það er vissulega fagnaðarefni.

En tóku menn eftir því hvenær það var í ræðu hæstv. ráðh. sem hann æstist? Það var rétt áður en hann ætlaði að fara að svara til um sjúklingaskattinn. Þá einhvern veginn fór hæstv. ráðh. út úr því sálarjafnvægi sem hann hefur reynt að halda hér í ræðustól undanfarið og á hann rann hamurinn sem við urðum vitni að áðan. Ég fagna því sérstaklega að þessi hæstv. ráðh. skuli kominn út úr sínu skammdegishíði. Hann ætlar að verja þennan nýja skattstofn með því að segja að hann og Svavar Gestsson séu ekkert of góðir til að greiða 300–600 kr. á dag fyrir að fá að liggja inni á sjúkrahúsi. Svo ætlar hann að sleppa börnunum líka, hugsið ykkur hvað þetta er nú mildur maður, hæstv. heilbrrh. Hann ætlar ekki að leggja þennan skatt á börnin. Það má nú segja að mildin sé mikil á þessu heimili þar sem himins opnast hlið senn, svo vitnað sé í orð sem flugu hér um daginn.

En það var raunar annar reyfari sem ég ættaði að víkja að hér og við urðum vitni að í dag þegar hæstv. iðnrh. flutti tölu og gleðiboðskap. Ég mun koma að því mjög fljótlega. Ég vil hins vegar segja varðandi fjárlagafrv. milli 2. og 3. umr. að þar hafa orðið á nokkrar breytingar sem ástæða er til að lýsa ánægju yfir. Þokast hefur í rétta átt í nokkrum málum þar sem við stjórnarandstæðingar höfum ýtt á eftir með tillögu- og málflutningi í sambandi við fjárlögin. Ég nefni þar t.d. Iðnrekstrarsjóð eða lánasjóð iðnaðarins þar sem þau ánægjulegu tíðindi hafa gerst að framlagið hefur þrefaldast milli umr., úr 5 millj. kr. í 15 millj.

Vissulega var tími til kominn að hæstv. iðnrh. og hans lið sýndu einhver iðrunarmerki í sambandi við þessa aðför að aðalþróunarsjóði iðnaðarins. Þau hafa nú komið fram, að vísu ekki nægjanleg, í sambandi við þetta því að hæstv. ráðh. viðhafði þau orð við 2. umr. að hann mundi gera mun betur en fyrrv. ríkisstj. í þessum efnum.

Hvernig leit fjárlagafrv. út í sambandi við Iðnrekstrarsjóð, fjárlög gildandi árs? Jú, það var framlag sem nam 16.6 millj. kr. Ef það ætti að framreiknast og halda óbreyttu verðgildi er það ekki fjarri 25 millj. kr. sem þarna ættu að vera, en upphæðin sem fjvn. nú gerir till. um nær ekki því krónutölugildi sem núverandi fjárlög hafa að geyma. Munurinn er þar 1.6 millj. kr. Hér vantar því stórlega á að haldið sé sama raungildi og var á þessu ári. Minna má á að þarfir þessa aðalþróunarsjóðs iðnaðarins eru metnar af stjórn hans 35 millj. kr., upphæð þess ríkisframlags sem þörf væri á. En þetta er í áttina frá þeim ósköpum sem fyrir lágu þegar fjárlagafrv. var fram lagt.

Það gerðist líka að dregin var til baka till. um að fella niður framlög til iðnfræðsluráðs frá miðju næsta ári og leggja þá stofnun af eins og boðað var við 2. umr. Þeirri brtt. var stungið undir stól og hún dregin til baka. Það er ánægjulegt að ekki á að afleggja þá starfsemi sem hvergi var séð fyrir fjármunum til skv. till. meiri hl. fjvn. og ekki hefur mikið farið fyrir afsökunum í því efni frá þessum hv. talsmönnum.

Það gleður okkur að sjá að aðeins er lyft framlagi til Þjóðarbókhlöðu úr 2 millj. kr. í 7 millj. Það er þó óverulegt og ekki mikið til framkvæmda sem þar er um að ræða, en iðrunarmerki er það sem ástæða er til að fagna svo langt sem það nær. Þetta er varðandi nokkra þætti sem ég vék að við 2. umr. fjárlaganna.

Ég er hér með brtt. sem dregin var til baka við 2. umr. varðandi fjárveitingu til lækkunar húshitunarkostnaðar. Ég endurflyt till. um að framlag hækki um 190 millj. kr. eða samtals í 420 millj. til að lækka húshitunarkostnað með innlendum orkugjöfum. En þar fyrir utan er framlag vegna niðurgreiðslu á olíu sem hæstv. iðnrh. vék einnig að í ræðu sinni í dag.

Ég ætla aðeins að víkja að þessu máli en áður nefni ég till. sem við flytjum fjórir þm. Alþb. með Svavar Gestsson sem 1. flm. um landgræðslu- og landverndaráætlun. Við endurflytjum þar till. sem dregin var til baka við 2. umr. um fyrirhleðslur vegna hamfarahættu á Skeiðarársandi gegn mótframlagi allt að 50% frá Viðlagatryggingu Íslands. Við 2. umr. var till. okkar um 8.7 millj. kr. framlag en nú flytjum við till. um 3.9 millj. og höfum lækkað þessa upphæð um meira en helming. Að athuguðu máli í samráði við Vegagerð ríkisins hefur þetta verið gert. Hún hefur tjáð okkur og fleiri aðilar að hægt sé að ná skynsamlegum áfanga í sambandi við varnir á Skeiðarársandi til að forða því með fyrirhleðslu við Skaftafellsbrekku að Skeiðará í hlaupi — sem nú getur hvenær sem er, ekki síst vegna eldvirkni sem nú er uppi í Grímsvötnum og menn urðu varir við s.l. sumar — brjótist þar í gegn og grandi eða eyðileggi þá aðstöðu sem byggð hefur verið upp í þjóðgarðinum í Skaftafelli. Það er hún sem er sérstaklega í hættu í sambandi við Skeiðarárhlaup og þar fyrir utan stórar spildur af landi sem eru að gróa upp í Öræfasveif þar sem Skeiðará flæddi yfir áður en varnargarðar komu.

Mér þykir mjög leitt að hv. fjvn. skuli ekki hafa orðið við erindi almannavarnanefndar Austur-Skaftafellssýslu um framlag í þessu skyni því að hjá þessu verður ekki komist. Það er hið mesta óráð að ætla að draga það að grípa þarna til nauðsynlegra aðgerða í ljósi þess að hlaup getur komið hvenær sem er og æskilegt er að vinna þetta verk með skynsamlegum fyrirvara áður en til þess dregur. Ég vona því að þessi till. nái fram að ganga. Þetta er auðvitað ekki flokksmál sem slíkt en till. er fram borin vegna þess að ég er málum gerkunnugur þarna og hef verið beðinn um að fylgjast með þessu máli. Ég hef reynt að ýta á eftir því við hv. fjvn. Þegar hún tók ekki málið upp fékk ég liðsinni eins minna flokksmanna til að standa að brtt. um þetta efni og ég vek enn athygli á að upphæðin hefur verið lækkuð um meira en helming.

En þá kem ég að svolitlum reyfara, með leyfi hæstv. forseta, og hefði kosið að auk hæstv. iðnrh. sem hér er væri einnig hv. þm. Egill Jónsson hér nærri umr. því ég þarf aðeins að víkja að honum orði. Hann er nákominn hæstv. iðnrh. og mér þætti vænt um ef hann væri viðstaddur og einnig hv. þm. Guðmundur Bjarnason því ég kemst ekki hjá því að rifja aðeins upp þátt hans í reyfara nokkrum. Fyrri hluti hans átti sér stað fyrir kosningar en hefur síðan orðið framhald á nú eftir kosningar. Ég vil byrja á að vitna í svofelld ummæli sem birtust í fjórðungsblaðinu Þingmúla þann 4. júní 1983, með leyfi hæstv. forseta:

„Það verður gaman að fylgjast með störfum Sverris Hermannssonar í hans nýja vandasama embætti. Áhugi hans varðandi þann mikla málaflokk er löngu kunnur. Má þar til nefna flutning þingmála um virkjun í Fljótsdal og byggingu stóriðjuvers við Reyðarfjörð í tengslum við þá virkjun. Þá eru ekki síður kunn viðhorf Sverris varðandi málefni dreifbýlisins í þessu landi, bæði er varðar samgöngur, atvinnumál og lífskjör. Má í því sambandi minna á baráttu hans fyrir jöfnuði á orkuverði. Það er því mikið ánægjuefni að Sverrir Hermannsson skuli nú fá tækifæri til að takast á við þau stóru viðfangsefni sem honum eru jafnhugleikin og hann hefur nú forsjá fyrir í ríkisstj.

Höfundur þessara orða er hv. 11. landsk. þm. Egill Jónsson. Hann hefur orðið landskunnur ekki síst fyrir það ótrúlega afrek að skjótast inn á Alþingi flestum á óvart í tvennum kosningum, a.m.k. var svo í hinum fyrri þegar hann kom fyrst inn á þing 3. des. 1979. Jafnvel fór svo að hæstv. núv. iðnrh. sem greint var frá því snemma morguns að Egill væri kominn á þing — og ég hef 4. þm. Austurl. fyrir þeirri sögu — að hv. þm. á að hafa sagt, mér skilst jafnvel í Ríkisútvarpinu: Hvaða andskotans Egill? Svo undrandi var hæstv. núv. iðnrh. á að fá þessa samfylgd inn á hv. Alþingi. En síðar hafa þeir verið hér saman og að sjálfsögðu í ákveðnu samspili, þessir ágætu flokksbræður, hæstv. iðnrh. og hv. 11. landsk. þm. Finnst ekki hv. þm.? (Forseti: Ég hef gert ráðstafanir til þess að 11. landsk. þm. verði kallaður í salinn en ég held að heldur erfiðara sé að ná í hv. þm. Guðmund Bjarnason.) Já. Þetta voru þær vonir sem hann batt við hæstv. nýjan ráðh. í embætti og vegna þess að hann kom óvænt inn á þing í síðustu kosningum einnig og munaði þar aðeins fáum atkvæðum, ef ég man rétt, á því að varaformaður Alþfl. sæti hér á þingi, hv. fyrrv. þm. Magnús Magnússon og núv. hv. 11. landsk.

Hann ritaði í það merka blað Þingmúla fyrr á árinu en tilvitnuð ummæli, þann 19. apríl, fjórum dögum fyrir kosningar, eru í grein sem ber yfirskriftina. „Lengur verður ekki beðið“. Ég má til með að vitna í þetta því að það er alveg ljóst að hv. þm. er ekki síst kominn inn á Alþingi út á þessa grein og málflutning af svipuðu tagi sem hann ásamt hæstv. núv. iðnrh. flutti af miklum krafti í austfirskum blöðum á öllum framboðsfundum fyrir austan. Hvað hafði hv. 11. landsk. þm. að segja í blaði sínu fjórum dögum fyrir kosningar, þm. sem skaust inn á Alþingi á 11 atkv. ef ég man rétt, eða eitthvað þar um bil? Hann skrifar þar um orkujöfnunargjaldið sem svo mjög hefur verið til umræðu og voru fá umræðuefni hjartfólgnari stjórnarandstæðingum síðustu ríkisstj., einkum eftir að fór að líða á vetur. Hann segir þar:

„Þegar orkujöfnunargjald var ákveðið á Alþingi og frv. um ráðstöfun þess lögfest var ekki um neinn umtalsverðan ágreining að ræða. Að vísu voru till. okkar sjálfstæðismanna um víðtækari heimildir til niðurgreiðslu á orkuverði, svo sem um heilsugæslustöðvar og iðnaðarhúsnæði, felldar en það breytti engu um stuðning okkar við málið, það er skatt sem nam 1.5% á allan söluskattsstofn. Hér náðist því mikilvægt samkomulag milli stjórnmálaflokkanna. En skemmst er frá því að segja að þetta samkomulag hefur verið svikið. Í þeim efnum væri margt hægt að rifja upp, m.a. þá afstöðu Alþingis frá því í maí 1982 sem byggðist á yfirlýsingu ríkisstj. um að endurmetnar yrðu greiðslur vegna húshitunar til samræmis við frv. okkar Þorv. Garðar Kristjánssonar og Eiðs Guðnasonar og að sú skipan mála kæmi til framkvæmda í ágústmánuði 1982. En hér sem endranær tala tölurnar skýrustu máli og verða með engum hætti vefengdar. Orkujöfnunargjald, þ.e. 1.5% á söluskattsstofn, nam á árinu 1982 190 millj. kr. Samkvæmt fjárlögum þessa árs er sama gjald áættað 316 millj. kr. Greiðslur vegna jöfnunar á orkukostnaði námu árið 1982 30 millj. kr. og á þessu ári eru fjárlagaheimildir 67 millj. kr. Fyrir liggur að væri þessu fjármagni ráðstafað eins og lög þar um gera ráð fyrir kæmi í hlut hvers heimilis sem býr við óhóflegan hitunarkostnað upphæð er nemur 20 þús. sem vissulega væri umtalsverð úrbót. Augljóst er að þessi mál verður að taka til nákvæmrar endurskoðunar við fyrsta tækifæri með það að markmiði að nauðsynlegs jafnaðar verði gætt í kjörum fólks í þessu landi varðandi kostnað við hitun á húsnæði, en eftir slíkum ákvörðunum er ekki unnt að bíða, enda engin þörf. Lög til að vinna eftir eru til staðar, skattur vegna þessa brýna verkefnis hefur verið lagður á og innheimtur. Fénu þarf að skila til fólksins sem þess á að njóta. Það verða menn að gera þegar í stað, annars verður það of seint.“

Menn hafa heyrt tóninn, menn heyra orðin: 20 þús. kr. strax að kosningum loknum ef þið kjósið mig, hv. austfirskir kjósendur, eru orð hv. 11. landsk. þm. Og nú stendur hann hér með sínum orkuráðherra hæstv. sem hann batt eðlilega miklar vonir við þegar hann kæmi í stólinn. Og þessi hæstv. ráðh. sagði í sama virðulegu málgagni, Þingmúla, að að sjálfsögðu væri jöfnun húshitunarkostnaðar eitt brýnasta verkefnið. Nýskipaður iðnrh. Sverrir Hermannsson byrjar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. hefur þegar ákveðið að verja 150 millj. kr. umfram fjárveitingar á fjárlögum fyrir árið 1983 til jöfnunar og lækkunar hitunarkostnaðar íbúðarhúsnæðis það sem eftir er þessa árs. Þetta er afskaplega mikilvægt fyrir afkomu heimilanna, einkum víðast hvar á landsbyggðinni þar sem húshitunarkostnaðurinn hefur verið að sliga heimilin.“

Nú erum við staddir hér við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1984 og hvar er nú komið loforðum þeirra félaga, hv. 11. landsk. þm. og hæstv. iðnrh., í sambandi við þetta mál þar sem ekki orkaði tvímælis um hvaða lög væru í landinu að þeirra dómi? Hvernig standa nú mál? Jú, m.a. má fræðast um það í Morgunblaðinu í gær, með leyfi hæstv. forseta. Ég held að fróðlegt sé í þessu sambandi að líta á fjöllesnasta eða stærsta blað landsins sem svo er kallað. Þar stendur í gær:

„Iðnrh. gefi yfirlýsingu við afgreiðslu fjárlaga. Samkomulag stjórnarliðsins eftir harðar deildur um fé til jöfnunar húshitunarkostnaðar.

Harðar deilur hafa staðið yfir innan stjórnarliðsins vegna áætlaðra fjárveitinga á árinu 1984 til jöfnunar húshitunarkostnaðar, sem upphafsmenn deilnanna telja ekki nægilegar, ef framfylgja á lögum frá 1980. Þm. sem harðast gengu fram í málinu hafa m.a. hótað að leita stuðnings stjórnarandstöðunnar við flutning brtt. við 3. umr. fjárlaga eftir helgi, og töldu þeir sig hafa meiri hl. á Alþingi með slíkum brtt. Á fimmtudag tókst iðnrh. að ná samkomulagi við þm., og samþykkti ríkisstj. í framhaldi af því á fundi sínum árdegis á föstudag að heimila ráðh. að gefa út sérstaka yfirlýsingu við 3. umr. fjárl., en í henni á að felast trygging sem umræddir þm. geti sætt sig við.

Skv. heimildum Morgunblaðsins verður yfirlýsing iðnrh. þess efnis að hann muni leggja fram frv. um orkumál strax að loknu jólaleyfi þm., en frv. á m.a. að fela í sér víðtækar aðgerðir á næsta ári til aukins orkusparnaðar.

Deilur þessar hófust innan þingflokks Sjálfstfl., og hafa 4 þm., þeir Egill lónsson, Eggert Haukdal, Þorv. Garðar Kristjánsson og Halldór Blöndal, komið þar mest við sögu. Fengu þeir síðan stuðning úr þingflokki Framsóknar, þannig að þeir töldu sig geta náð þingmeirihluta með liðsinni stjórnarandstöðu.

Með lögum frá 1980 var ákveðið að bæta 1.5% ofan á söluskattsstofn, sem ganga skyldi til jöfnunar húshitunarkostnaðar. Þessari upphæð hefur þó aldrei verið skilað að fullu til upprunalegs ætlunarverks síns og barðist þingflokkur sjálfstæðismanna harðri baráttu í tíð síðustu ríkisstj. til að fá þessa upphæð í heild á fjárlög og flutti m.a. um það sérstaka till. á Alþingi. Þá gerði Sjálfstfl. máli þessu sérstök skil í kosningastefnuskrá sinni í þá veru að framfylgja ætti lögunum frá 1980. Nú munu samtals áættaðar um 290 millj. kr. á tveimur liðum til þessa í fjárlagafrv., en þm. hafa látið reikna út, að 1.5% söluskattsstig samsvari 420–470 millj. kr.

Samkomulag iðnrh. við samherja sína felst eins og áður segir í því að hann gefi út fyrrnefnda yfirlýsingu við 3. umr. fjárlaga. Fjárveitingar á fjárl. verða því ekki hækkaðar, en loforð gefið um að húshitunarkostnaður verði jafnaður eftir öðrum leiðum.“

Þetta má lesa í Morgunblaðinu í gær og virðist nú sem samviskan rumski einhvers staðar og menn hafi ekki allir í stjórnarliðinu gleymt því hvernig þeir stóðu að því að safna atkvæðum fyrir 23. apríl s.l. þegar þeir veifuðu framan í fólk úti á landsbyggðinni: 20 þús. kr. strax í kassann hjá ykkur eða í tóma budduna hjá ykkur eftir atvikum ef þið kjósið Sjálfstfl. Það er von að samviskan sé ekki alveg í lagi hjá þessum hv. þm. En hún kostar ekki mikið. Hún kostar þá yfirlýsingu frá hæstv. iðnrh. sem hér var gefin fyrr í dag um að hann ætli að flytja hér frv., efni ótiltekið, a.m.k. óskilgreint hvað í því eigi að standa. Þetta á að nægja til að tryggja hér atkvæði hv. þm. stjórnarliðsins sem belgdu sig út fyrir kosningar með þeim hætti sem ég hef vitnað til.

En hæstv. iðnrh. sagði m.a. í sinni ræðu í dag: „Ólíkt hafast menn að“, og var að bera saman við störf fyrri ríkisstj. og sín eigin ótrúlegu afrek í þessu máli. Hann er ekki allur þar sem hann er séður, hæstv. iðnrh., og hann veit af því að hann hefur hv. 11. landsk. þm. á hælunum þó, hann er ekki atveg öruggur um sig. Því fann hann upp það snjallræði strax eftir kosningar að setja hv. 11. landsk. þm. í nefnd sem kölluð er orkuverðsnefnd og sem nýverið skilaði áliti til hæstv. iðnrh. Því miður fengum við lítið að heyra um tillögurnar hennar. En hér er hv. 11. landsk. þm., höfundur þessara till., viðstaddur og hæstv. ráðh. sem hefur fengið þær í hendur svo að við ættum að geta upplýst þingheim nokkurn veginn um hvað stendur í þessum tillögum.

Það er áreiðanlega ekki tilviljun að hæstv. ráðh. hefur valið dyggan fylginaut til verka í sambandi við þetta efni. Ég kemst ekki hjá því að rifja upp ummæli sem hv. 11. landsk. þm. viðhafði í viðtali við Dagblaðið 13. ágúst s.l. í ágætri grein sem ber heitið: „Ég var fæddur undir sjálfstæðisstjörnu.“ (Gripið fram í: Alveg rétt.) Menn geta nú aðeins spáð betur í spilin þegar þeir lesa hvað þar stendur eftir hv. 11. landsk. þm. og áttað sig á hvernig hæstv. iðnrh. fer að því að beisla hann og þá orku sem í honum er fólgin. Hann er spurður um úrslitin í síðustu kosningum, hvort þau hafi ekki komið honum á óvart. Og hv. þm. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég fékk heldur betri útkomu en ég bjóst við að gæti orðið það besta. Það skildi mikið á milli okkar Sverris Hermannssonar, hann hafði yfirburði í fyrsta sætið en þegar upp var staðið fengum við flestöll atkv. báðir“ hvernig svo sem á að skilja það. (Gripið fram í: Þetta er í sambandi við prófkjörið.) Nú, það var prófkjörið. Þá fengu þeir flest atkv. báðir, já, já. En ekki mátti á milli sjá svo að hæstv. ráðh. þarf nú að gæta sín. „Svo gengu kosningarnar yfir og enn voru margir, kannske enn þá fleiri, sem voru vissir um að ég næði kjöri. Úrslitin 1979 hljóta að teljast hending en útkoman í ár er það ekki. Við bættum okkur meira en Sjálfstfl. gerði í nokkru öðru kjördæmi og fengum hærra hlutfall og miklu fleiri atkv. en flokkurinn hefur fengið nokkru sinni áður eða 400 atkv. fleira.“

Menn muna eftir greininni sem var skrifuð fjórum dögum fyrir kosningar. 20 þús. kr. til hvers heimilis, hið stolna orkujöfnunargjald sem skila Skal strax að kosningum loknum. Og áfram segir hv. þm.:

„Þetta gerir það að verkum að við erum tveir, Sverrir er ráðherra og Austfirðingar hafa nú með vissum hætti áhugaverðasta embættið í þessari ríkisstj., orku- og iðnaðarmál. Auðvitað verður eftir því litið að drengurinn standi sig. Svo verð ég væntanlega áfram í fjvn. og við skulum vona að völdin minnki ekki við að komast í stjórnaraðstöðu. Og þið skulið ekki láta líða yfir ykkur þó ég komist á þing næst.“

Þetta hafði hv. 11. landsk. þm. að segja landsmönnum. Hann er ekki enn þá ráðh. í þessari grein „Undir sjálfstæðisstjörnu“.

En hv. eftirlitsmaður, 11. landsk. þm., þyrfti nú að fara aðeins að athuga málin, að rækja hlutverk sitt, að hafa eftirlit með því að drengurinn standi sig, því að hvernig hefur þetta gengið upp með orkujöfnunargjaldið sem átti að skila með lækkun húshitunarkostnaðar? Niðurstaðan að þessu ári senn loknu er sú að lækkunin sem lofað var fyrir kosningar hefur orðið hækkun á orkukostnaði sem nemur um mánaðarlaunum lágtekjumanns, þess sem tekjutryggingu hefur, helmingurinn þar af vegna hækkaðs húshitunarkostnaðar.

Hæstv. ráðh. var í ræðu sinni við umr. áðan að reyna með galdratali eða tali sem honum er nokkuð lagið miðað við það að menn fari ekki of djúpt ofan í saumana á því sem verið er að segja að draga fjöður yfir hvað hefði gerst í þessum efnum síðan hann tók við völdum. 150 millj. voru tryggðar til að auka niðurgreiðslur á orku. En hvert lentu þær 150 millj., skattpeningur landsmanna? Þær nægðu ekki til að vega upp gjaldskrárhækkanirnar sem hæstv. ráðh. hefur heimilað Landsvirkjun og orkuveitum í landinu að taka til baka af landsmönnum. Hækkunin hefur orðið 17.4% að meðaltali þrátt fyrir niðurgreiðslur og þá ekki tekið tillit til þeirrar nærri 30% kauplækkunar sem hæstv. ráðh. og hans ríkisstj. hefur staðið fyrir á sama tíma.

Í leiðinni býsnast hæstv. ráðh. yfir því að ríkisstj. fyrrv. tók sér alræðisvald í orkuverðsmálum með mikilli hneykslan yfir þeim brbl. sem sett voru í apríl til að hið opinbera, ráðh. orkumála, gæti haft eitthvert eftirlit með gjaldskrám veitufyrirtækja. Hann vill ekkert slíkt vald hafa. Hann vill vera stikkfrí. Þetta á bara að ganga yfir. Nei, þetta er ólíkindatal svo ekki sé meira sagt.

Hæstv. ráðh. sem er orðhagur maður eins og þekkt er talaði um rasshandarrekstur ef ég hef náð því rétt niður sem hann sagði hér í dag. Þekkja hv. þm. þetta snilliyrði, rasshandarrekstur, sem mér skilst að hafi verið á orkufyrirtækjunum í landinu þegar hann tók við að hans dómi? Ekki hefur verið neinn rasshandarrekstur í sambandi við húshitunarmátin ef marka má stýringu og stjórn hæstv. ráðh. á þeim málum síðan hann tók við. Nei, það á ekki að vera neinn horbúskapur, sagði hæstv. ráðh., hjá orkufyrirtækjunum. Þar má ekki vera neinn horbúskapur en heimilin í landinu mega leggja á sig, þau mega taka á sig byrðarnar til þess að standa undir skattinum til stóriðjunnar í landinu til þess að Landsvirkjun geti borið sig á pappírnum og skilað sléttum reikningum. Hæstv. ráðh. segist ætla að skila þar 53 millj. kr. í hagnað á þessu ári. Það verður nú búskapur í lagi. En heimilin í landinu? Það kemur eitthvert frv. eftir áramótin og svo sjáum við til, segir hæstv. ráðh.

Já, það er margt athyglisvert, sem hæstv. ráðh. segir. Ég vil nú ekki tjá mig um heildarskipulag orkumála að svo komnu en þó er hann inni á einföldun. Hann er á því að Landsvirkjun verði sem mest ein í orkuvinnslu og sölu. Það eru hans hugmyndir. Hvaða lög voru sett hér með atkv. hæstv. ráðh. þann 12. mars s.l.? Voru þau ekki þess efnis að Landsvirkjun yrði að mestu ein í orkuvinnslu og sölu? Um hvað er hæstv. ráðh. hér að tala? En þetta fyrirtæki sem við höfum tryggt nokkurn veginn einokun í raforkuframleiðslu í landinu má ekki hafa eftirlit af hálfu hins opinbera. Það á bara að vera frjálst í sinni verðlagningu, það má taka sem því þóknast. Þetta er boðskapurinn, þetta er samhengið.

Svo er að því ýjað í Morgunblaðinu í gær að nokkrir framsóknarmenn ætli að mynda sig til að veita hv. þm. Sjálfstfl. sem eitthvað eru með órólega samvisku —kannske hv. 11. landsk. þm. — einhvern stuðning til að bæta þar úr. Mál var til komið að maddaman færi aðeins að rumska. Því að svo sérkennilegur sem loddaraleikur Sjálfstfl. var fyrir kosningar í þessu máli verður þó að segjast svo að öllu sé til haga haldið að enn dæmalausari var málafylgja Framsfl. á þeim vikum og mánuðum því að sá flokkur átti þó að heita í stjórnaraðstöðu, í stjórnarsamstarfi við Alþb. Við gátum séð í gegnum fingur með eitt og annað við stjórnarandstöðuna á þeim tíma þó hún reyndi að fleyta sér billega og veifa 20 þús. kr. inn á hvert heimili dagana fyrir kosningar bara ef þeir fengju völdin. En Framsfl. stóð að því með Alþb., Sjálfstfl. og Alþfl. að skila tillögum um tekjuöflun til niðurgreiðslu raforku með sameiginlegu nál. 28. jan. s.l. En hvað gerði þingflokkur Framsfl. þegar hann fékk þetta samróma nál. í hendur? Nauðsynlegt er að rifja það aðeins upp, það er stutt lesning varðandi afgreiðslu á þessu nál. Þar segir:

„Þingflokkur Framsfl. gerði hins vegar svofellda samþykkt 15. febr. 1983 sem viðskrh. kynnti í ríkisstj.“ Svo kemur ályktunin:

„Þar sem ekki hefur enn tekist að ná fram hækkun á orkuverði til stóriðju sem nýta mætti til niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar samþykkir þingflokkur Framsfl. að ríkissjóður greiði niður til bráðabirgða verð á rafmagni til húshitunar af orkujöfnunargjaldi skv. lögum nr. 12/1980 í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. frá 5. maí 1982.“

Þannig fór um það nál. Stærsti stjórnaraðilinn neitaði með þessari samþykkt að standa að tekjuöflun sem tekin var ákvörðun um í efnahagsráðstöfunum ríkisstj. 21. ágúst 1982. Hann smeygði sér undan með þessum hætti að vísa til tekna sem allir þm. hans höfðu staðið að að skipta upp við gerð fjárlaga ársins 1983, tekjum af svokölluðu orkujöfnunargjaldi. Og ekki nóg með það. Hefði nú Framsfl. bara viljað fresta þessu fram yfir kosningar, en þetta var bara eitt af aðalkosningamálum framsóknarmanna í baráttunni við Alþb., a.m.k. út um dreifbýlið. Ég veit að hv. þm. Stefán Valgeirsson sem er sá eini framsóknarmaður sem hefur haldið út að hlusta á þessa umr. getur staðfest þetta því að hann þarf ekki langt að leita. T.d. má þann 12. apríl 1983 lesa í flokksmálgagninu:

„Orkujöfnunargjaldið ekki notað í niðurgreiðslur. Hægt væri að lækka orkuverð til heimila verulega, segir Guðmundur Bjarnason.“

Nauðsynlegt er að halda til haga hvernig Framsfl. fór þó að því að halda þessum atkvæðum úti um landið, hvaða aðferðum var beitt til þess þó að þeim fækkaði nú um 7 þús. svona á heildina litið. Það var ekki síst með málflutningi af þessu tagi, heiðarlegum eða hitt þó heldur. Í þessu sama tölublaði Tímans segir:

„Greinilegt er að ekki er notaður nema hluti af orkujöfnunargjaldi til að greiða niður raforku. Gjaldið nemur um 300 millj. kr. og auk þess eru á fjári. veittar 70 millj. kr. til verðjöfnunar á orku. Rúmar 100 millj. kr. eru notaðar til niðurgreiðslu. Ályktanir þingflokks framsóknarmanna um að orkujöfnunargjaldið gangi til að jafna orkuverð hafa verið virtar að vettugi af iðnrh. og fjmrh. Þeir sýna engan vilja til verðjöfnunar og gjaldið fer til annarra hluta að miklu leyti.“

Og síðan segir í sama blaði:

„Fjölmörg heimili og byggðarlög sem þannig eru í sveit sett að njóta ekki ódýrrar hitaorku greiða óheyrilegar fjárhæðir í hitunarkostnað á meðan orkujöfnunargjaldið rennur greiðlega í ríkissjóð en treglega úr honum.“

Og síðar í sömu forsíðugrein:

„Með því að nota allt orkujöfnunargjaldið til niðurgreiðslna á orku til þeirra sem mest greiða væri hægt að lækka rafmagnsreikninga heimilanna verulega en iðnrh. og fjmrh. þverskallast við og eyða peningunum í annað.“

Vitnað er í viðtal við hv. þm. Guðmund Bjarnason sem ekki hefur séð sér fært að.vera á þingfundi í kvöld eða koma til þessarar umr. þó að ég hafi sérstaklega eftir því óskað og hann hafi fengið þau boð. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason, einn af þessum ungu efnilegu þm. Framsfl. sem komu inn 1978 og enn lafir inni á þingi — (Gripið fram í: 1979.) 1979, já, það er rétt. Ég þakka hv. 11. landsk. þm. fyrir, hann kom inn um svipað leyti, þeir voru félagarnir samferða inn á þing. Þessi hv. þm. sem gjörla má vita er í hálfsíðugrein í Tímanum þann 12. apríl m.a. spurður af blaðamanni:

„Ætluðust þm. ekki til að þetta fé færi til orkujöfnunar þegar lögin voru samþykkt?“ Og hv. þm. svarar: „Það var meiningin, en illa hefur gengið að jafna orkureikningana. Í vetur gerði þingflokkur framsóknarmanna samþykkt um að aukin yrði niðurgreiðsla á rafmagni af orkujöfnunargjaldinu, og sýndi það ótvíræðan vilja okkar í þessu efni. Eðlilega átti ríkissjóður að bera þann kostnað sem yrði vegna niðurgreiðslu. Þessu hefur lítt verið sinnt. Að vísu er búið að greiða smáræði niður í þremur áföngum ...“ o.s.frv.

Og síðar svolítið:

„Hvað væri hægt að lækka orkureikninginn mikið ef 1.5% af söluskatti færi til niðurgreiðslna? Það væri mikið, ég þori ekki að nefna það nákvæmlega. Það er talið að til þess að ná því marki sem við settum okkur í haust, sem er sambærilegt við nýjar hagkvæmar hitaveitur, þyrfti að leggja fram um 100 millj. kr. á verðtagi í desember.“

Og áfram heldur þm. og er spurður:

„Hverjir standa í veginum fyrir að orkujöfnunargjaldið er ekki notað nema að hluta til niðurgreiðslna? Það er auðvitað iðnrh. sem fer með þessi mál og fjmrh. heldur utan um ríkissjóð og komu þeir í veg fyrir að tillaga okkar um greiðslur úr Orkujöfnunarsjóði næðist fram. Hins vegar virðist ekki ávallt skorta fé, eins og þegar t.d. heilbrrh. lét sér detta í hug skömmu fyrir kosningar að greiða niður tannlæknakostnað úr ríkissjóði, þótt ekki væri hægt að finna fjármagn í sama sjóði til þess að jafna orkuverðið meira en þegar er gert.“ Og í lokin segir hann í þessu viðtali:

„Á meðan ekki er hægt að sýna vilja og getu til að ná fram stórhækkuðu orkuverði frá ÍSAL er í rauninni ófært að leyfa sér að nota ekki allt orkujöfnunargjaldið

til að greiða niður orkuverðið til þeirra heimila sem eru að kikna undan kostnaðinum.“

Og ekki má gleyma garminum honum Starkaði sem daginn eftir vitnaði svo með einkar smekklegum hætti feitletrað í Tímanum í orkujöfnunargjaldið og Hjörleif og Ragnar sem stela þessu gjaldi þrátt fyrir hatramma baráttu Framsfl. um annað, verja sem sagt meira en 2/3 hlutum fjármagnsins í önnur útgjöld á vegum rn. sinna, segir Starkaður og annað af þeim toga. Ég vísa mönnum á að lesa þessi fræði, lesa rekstur kosningabaráttu Sjálfstfl. og Framsfl. úti um landið fyrir síðustu kosningar. Það var ekki síst með málflutningi af þessu tagi: 20 þús. kr. innan fárra daga ef þið kjósið mig. Það eru þeir vondu menn, Alþb.- menn, sem stela þessu frá ykkur fram hjá lögum. — Þetta var innihaldið og hverjar eru svo efndirnar? Hvar standa þessir menn nú? Hvar eru þessir menn sem þannig mæltu fyrir kosningar og ætla að láta hæstv. iðnrh. stinga upp í sig með loforðum um eitthvert frv. eftir áramót? Hér er slíkur leikur í gangi að óhjákvæmilegt var að víkja að þessu máli í tengslum við þessa fjárlagaafgreiðslu til að sýna fram á þennan svívirðilega loddaraleik því að ekki er hægt að kalla það öðru nafni sem hér er viðhaft.

Orkukostnaður heimilanna lækkar lítið þó að 11. landsk. þm. komi með tillögur og smeygi á borðið til hæstv. iðnrh. á meðan ekki er gert fleira. Hvenær á að koma að þessari lækkun hv. 11. landsk. þm.? Hvenær á að lækka húshitunarkostnaðinn? Það þarf þó nokkuð til að ná því stigi til baka sem hæstv. iðnrh. hefur hækkað orkukostnaðinn síðan fyrir kosningar. Það kostar nú skildinginn. Gaman væri að fara að sjá framan í eitthvað af efndunum í þessu máli. Hv. 11. landsk. þm. hlýtur að átta sig á því að eitthvað af þessum 11 atkv. sem fleyttu honum inn á þing kunni að hafa fallið til út á málflutninginn, út á greinarnar, út á ræðurnar sem hann flutti fyrir síðustu kosningar.

En Landsvirkjun skal ekki rekin með halla, segir hæstv. iðnrh. Það er meginmálið. Megi það kosta hvað sem er og ég ætla að skila henni hagnaði á næsta ári. 53 millj. hækkun á orkuverði til stóriðju. Jú, gott ef Alusuisse þóknast að greiða eitthvað til okkar. En það er nú sýnd veiði en ekki gefin og hæstv. iðnrh. er nú farinn að átta sig á því. Ég hef tekið eftir því hvernig hann hefur hagað orðum sínum um þetta mál hér að undanförnu.

Á það er lögð áhersla af hv. stjórnarsinnum og fyrr af hv. stjórnarandstæðingum að ég hefði gegnið fram með offorsi að þessu fyrirtæki, ég hafi alltaf klifað á því að þar væri lykillinn til þess að fá inn eðlilegar tekjur af orkusölu í landinu. Af þeirri braut verði nú að hverfa og hvergi með siðuðum þjóðum hagi menn sér með svipuðum hætti. Hæstv. iðnrh. hefur látið segja sér það og fengið um það greinargerðir og skýrslur og hv. 4. þm. Reykv. sem stendur í því að afla upplýsinga um þessi efni fyrir hæstv. ráðh., m.a. í stóriðjunefnd.

Hv. 4. þm. Reykv. hefur væntanlega greint hæstv. iðnrh. frá hvað Grikkir hafa gert núna nýlega. Hefur hann ekki komið því til skila? (BÍG: Ekki má maður koma inn í salinn, þá er byrjað að punda á mann.) Hefur hv. 4. þm. Reykv. ekki komið því á framfæri við hæstv. iðnrh. hvað Grikkir gerðu í þessum efnum í samskiptum við álverið í Grikklandi sem er erlent fjölþjóðafyrirtæki að 60% í eigu franska fyrirtækisins Pechiney? Sjálfsagt hefur hv. 4. þm. Reykv. þegar sagt iðnrh. frá því en hæstv. iðnrh. hefur ekki greint okkur frá því hér á Alþingi. En um það má lesa í Metal Bulletin þann 29. nóv. Hvað gerðu grísk stjórnvöld? Jú, þann 2. nóv. s.l. hækkuðu þau orkuverðið til álvers þar í landi, dótturfyrirtækis sem ber nafnið Aluminium de Grec upp á frönsku, úr 15 millum sem þeir greiddu í 21 millj. Og þeir boðuðu meiri hækkun úr 21 milli í 25 mill fljótlega fullverðtryggt. Ráða má af grein Metal Bulletin að álverið greiði þessi 21 mill en hafi vísað viðbótarhækkunarkröfunni til gerðardóms. Þannig er gengið fram í Grikklandi.

Verðið sem þarna er um að ræða er rétt rúmlega það sem metið er framleiðslukostnaðarverð hér á Íslandi núna, það verð sem við þurfum að fá, það verð sem vantar hér til þess að geta lækkað orkuna til heimilanna í landinu, en sem þessir hv. stjórnarsinnar telja að verði að sækja á hnjánum til hins erlenda auðfélags.

Herra forseti. Sú sérkennilega ræða, sú reyksprengja sem hæstv. iðnrh. kastaði hingað inn í dag við 3. umr. fjárlaga, yfirlýsingin sem Morgunblaðið greindi frá í gær, var til þess fallin að stinga upp í það lið í Framsfl. og Sjálfstfl. sem var eitthvað órólegt vegna frammistöðunnar í sambandi við húshitunarkostnaðinn í landinu, var með svolítið slæma samvisku vegna skrifanna og ræðnanna sem haldnar voru fyrir síðustu kosningar, forsíðufyrirsagnanna í Tímanum, Þingmúla og Morgunblaðinu: „Orkujöfnunargjaldið ekki notað í niðurgreiðslur“. Og það skyldi nú ekki vera að Starkaður heyrði orð mín hér. Hann hafði sitthvað mjög skemmtilegt um þetta að segja sem ég hef þegar vitnað til.

Ég held að almenningur í landinu þurfi aðeins að líta til þessara orða og þeirra efnda sem eru við afgreiðslu þessara fjárl. í þessu máli, hvernig þar er staðið að. Ekki er alveg víst að langlundargeð þess fólks sé hið sama og sofandi samviska þeirra þm. sem reyndu að afla sér atkvæða vikurnar fyrir síðustu kosningar með þeirri túlkun sem ég hef hér viðhaft í sambandi við húshitunarkostnaðinn. Það væri efni í heila bók, en hér skal ekki meira sagt að sinni.