19.12.1983
Neðri deild: 36. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2233 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

161. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Gerð er breyting á tveimur ákvæðum gildandi laga. Önnur breytingin er sú, að markaður tekjustofn hækki úr 300 kr. í 460 kr. og í stað 60 þús. kr. í 3. málslið komi 92 400 kr. Hér er um að ræða 54% hækkun frá gildandi lögum.

Hin breytingin er sú að styrkja byggingu sveitarfélaga á hjúkrunar- og sjúkradeildum fyrir aldraða með jafnháu framlagi og veitt er til sjóðsins á fjárlögum til þessara verkefna. Og jafnframt að styrkur þessi skuli teljast hluti af 85% framlagi ríkissjóðs samkv. 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Hér er um það að ræða að til viðbótar mörkuðum tekjustofni sjóðsins greiðir ríkissjóður samkv. till. fjvn. 15 millj. kr. Breytingin felst í því að 15 millj. af hinum markaða tekjustofni koma á móti til sjúkradeilda fyrir aldraða, þannig að hér sé um ákveðið ákvæði að ræða. Á þessu ári verði veittar 30 millj. til sjúkradeildanna, en að öðru leyti fari hinn markaði tekjustofn til öldrunarstofnana.

Ég lýsti því yfir í Ed. að ég væri ákveðinn í því að endurskoða þessi lög á næsta ári svo að þessi ákvæði komi ekki til með að gilda nema á árinu 1984. Jafnframt lýsti ég því yfir, að ég mundi hafa samstarf við stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra og fjvn. Alþingis áður en gengið væri frá skiptingu á þessu fjármagni og menn beiti sér fyrir því við stjórn Framkvæmdasjóðsins að ekki verði gengið frá fjárveitingum eða tillögum nema að höfðu samráði við fjvn. eða þá fulltrúa sem fjvn. kýs til þessa verkefnis.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.