19.12.1983
Neðri deild: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2237 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

155. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis. Frv. þetta er flutt af formönnum fjögurra flokka, Sjálfstfl., Framsfl., Alþb. og Alþfl.

Það hefur orðið að samkomulagi að mælt yrði fyrir þessu frv. nú en umr. yrði síðan haldið áfram á nýju ári að loknu jólahléi Alþingis.

Mál þetta er framhald af samkomulagi sem varð á síðasta þingi á milli þeirra flokka sem standa að flutningi málsins nú. Þá var flutt frv. um breytingu á stjórnskipunarlögum. Með því frv. fylgdu í grg. fskj. sem fólu í sér drög að nýjum kosningalögum og drög um breytingar á lögum um sveitarstjórnarkosningar. Þessi drög sem fylgdu stjórnarskrárfrv. á síðasta þingi voru hluti af því samkomulagi sem þá var gert og orðið hefur að samkomulagi að endurflytja þessi mál nú á þessu þingi. Þegar hefur verið lagt fram frv. til stjórnarskipunarlaga til staðfestingar á þeirri breytingu á stjórnarskránni sem samþykkt var á síðasta þingi og felur í sér fjölgun þm. úr 60 í 63. Og nú er flutt frumvarp til breytinga á kosningalögum í samræmi við þá breytingu. Rétt er að taka fram þegar í upphafi að óhjákvæmilegt er að mál þessi fylgist að því að þau eru hvort öðru háð og verða ekki samþykkt frá Alþingi sundurskilin.

Allmörg ár eru síðan umr. hófust um nauðsyn breytinga á kosningalöggjöf og kjördæmaskipan. Það var eitt af þeim verkefnum sem stjórnarskrárnefnd, sem skipuð var 1978, fékk til umfjöllunar, en hún hefur ekki skilað tillögum um þessi atriði. Fyrir því tóku þingflokkarnir þau mál í sínar hendur á síðasta þingi og eftir allmikla umfjöllun náðist það samkomulag sem fram hefur komið í breytingu á stjórnarskránni og því frv. sem hér liggur fyrir.

Allt frá endurreisn Alþingis hafa orðið allmiklar breytingar á kjördæmaskipan og kosningareglum eðli máls skv. í hátt við breytingar í þjóðlífi. Nú er svo komið að liðinn er allnokkur tími síðan síðustu breytingar voru gerðar á stjórnarskrá og kjördæmaskipan. Frá því að núverandi flokkaskipan festist í sessi hafa þrjár breytingar verið gerðar í þessum efnum, 1934, 1942 og 1959. Meginbreytingin var gerð 1959 þegar þm. var fjölgað í 60 og tekin upp hlutfallskosning í 8 kjördæmum. Sú breyting miðaði eins og hinar fyrri breytingar fyrst og fremst að jöfnun milli stjórnmálaflokka þannig að þeir fengju þingstyrk í eðlilegu samhengi við kjörfylgi sitt meðal þjóðarinnar. Nú er svo komið að ekki hefur fyrr liðið jafnlangur tími milli breytinga á kjördæmaskipan og kosningalögum eða hartnær aldarfjórðungur. Frá 1959 hafa orðið ýmsar breytingar sem gera nauðsynlegt að breyta þeirri skipan sem verið hefur í gildi á þessu tímabili.

Í fyrsta lagi hefur misvægi atkvæða eftir búsetu aukist frá því sem ákveðið var með löggjöfinni frá 1959 og í öðru lagi skortir á að jöfnuður ríki á milti flokka í samræmi við kjörfylgi þeirra. Af þessum ástæðum hefur þótt nauðsynlegt að breyta þeim reglum sem um þessi efni gilda. Það frv. sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir veigamiklum breytingum. Höfuðmarkmið þeirra er að tryggja að þingstyrkur þeirra flokka og framboðsaðila sem fá kjörna fulltrúa á Alþingi verði í samræmi við kjörfylgi þeirra. Allt frá 1959 hefur nokkuð skort á að samræmi væri á í þessum efnum. Þannig hefur vantað 2–6 uppbótarsæti til að jöfnuður næðist milli flokka.

En þetta frv. miðar svo sem verða má að því að bæta úr skák í þessu efni.

Í annan stað er það markmið með þessu frv. að jafna vægi atkv. eftir búsetu. Ekki hefur farið hjá neinum að verið hefur verulegur ágreiningur innan allra flokka um jafnan atkvæðisrétt. Eigi að síður er það svo að nú er fyrir hendi almenn viðurkenning á því að leiðréttinga sé þörf í þessum efnum þó að menn greini á um það hversu langt eigi að ganga. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að dregið verði úr misvæginu og það verði heldur minna eftir þessa breytingu en það var árið 1959.

Í þriðja lagi er það markmið með þessu frv. að auka áhrif kjósenda á val frambjóðenda. Frá því að núverandi kjördæmaskipan og kosningareglur tóku gildi hafa þróast í stjórnmálaflokkunum nýjar reglur sem miða að því að auka áhrifavald kjósenda um val frambjóðenda. Flokkarnir hafa tekið upp prófkosningar í ýmsu formi, en ekki hefur náðst samstaða um samræmdar reglur eða framkvæmd á vali frambjóðenda með þessum hætti og því hefur þótt nauðsynlegt að auka áhrifavald kjósenda í þessum efnum. Frv. gerir ráð fyrir að ákvörðunarvald kjósenda um röð frambjóðenda vegi jafnt á við ákvörðunarvald framboðsaðila, en fram að þessu hefur hlutur kjósenda aðeins verið þriðjungur á móti valdi framboðsaðila.

Það hafa alltaf orðið mjög harðvítug átök þegar breytingar á kosningalöggjöf og kjördæmaskipan hafa átt sér stað. Alþingi hefur klofnað í fylkingar og miklar deilur hafa staðið með þjóðinni um þessi mikilvægu efni sem skipta lýðréttindi í landinu miklu máli. Það heyrir því til mikilla tíðinda þegar samkomulag hefur orðið um það meðal stærstu flokka þingsins að leggja fram frv. sem þetta til breytinga á kosningalöggjöf. Það er mikilvægur áfangi og markar óneitanlega þáttaskil í störfum Alþingis.

Auðvitað kunna að vera skiptar skoðanir um ágæti þessa frv. Það ber auðvitað þess merki að um er að ræða málamiðlun milli ólíkra skoðana. En engar sættir eru í þjóðfélaginu um áframhaldandi skipan mála eins og verið hefur vegna þess misgengis sem orðið hefur í vægi atkvæða og vegna hins að núverandi skipan hefur ekki tryggt þingstyrk í fullu samræmi við kjörfylgi. Breytingar eru af þessum sökum óhjákvæmilegar og því er þetta mál nú lagt fyrir Alþingi í frv. á nýjan leik eftir að það hafði á fyrra þingi verið kynnt með þeirri stjórnarskrárbreytingu sem þá var ákveðin.

Herra forseti. Ég geri það að tillögu minni að sérstök sjö manna nefnd verði kosin í þessari hv. deild til að fjalla um þetta frv. Svo og geri ég ráð fyrir að sú nefnd fjalli einnig um það frv. sem lagt hefur verið fram til staðfestingar á stjórnarskrárbreytingu þeirri sem gerð var á síðasta þingi.

Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til þessarar sérstöku nefndar og 2. umr. Ég vænti þess einnig að samsvarandi till. um nefndarskipun verði flutt og samþykkt í hv. Ed. og að nefndir beggja deildanna vinni sameiginlega að málinu.