20.12.1983
Efri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Sjútvn. Ed. hefur verið að störfum frá því að fundi lauk í þessari hv. deild í gær eftir því sem hún hefur getað við komið og er búin að fara ítarlega í gegnum frv. eins og hægt hefur verið að koma við á þessum tíma og hefur fengið til viðræðna við sig hæstv. sjútvrh. og fiskimálastjóra sem hafa þar svarað ýmsum spurningum sem nm. lögðu fyrir þá. Leitast var við eins og hægt var að ná samkomulagi í n. svo að hægt væri að skila sameiginlegu áliti en því miður tókst það ekki. Frá nefndinni berast því tvö álit.

Lítið er um þetta að segja frekar en sagt var við þá umr. sem hér var höfð í morgun. Nál. les ég ekki hér upp, það er á borðum hv. dm. og er ekki langt. En eins og ég sagði var leitast við eftir því sem mögulegt var að finna samstöðu í þessu máli og ber þar ekki mikið á milli. Allir eru sammála um að eitthvað þurfi að gera. Menn greinir aðeins á um aðferðir og hvað vald ráðh. skuli ná langt í þessum efnum.

Eins og fram hefur komið í ræðum um þetta frv. fer ekki á milli mála að hér erum við að ræða eitt stærsta mál sem komið hefur fyrir þetta þing um langan tíma. Það gera sér allir ljóst. Við erum að leggja til hvernig fara skuli með þá fiskistofna sem hafa verið okkar lifibrauð um aldaraðir. Í umr. manna á meðal kemur fram að flestir ef ekki allir eru mjög óánægðir með að þurfa að setja á svokallað kvótakerfi eða taka upp frekari leyfisveitingar til veiða en verið hafa. En ekki hefur verið bent á aðra heppilegri leið til að takast á við vandann.

Einnig hefur komið fram hér í umr. að sjávarútvegsnefndir beggja deilda hafa átt allmarga sameiginlega fundi með hagsmunaaðilum um þessi efni. Þar kom ljóslega fram að aðilar sáu ekki aðra leið en þessa til að takast á við stjórnunina þó engum væri það ljúft. Það var sem sagt samdóma álit þeirra allra nema fulltrúa frá einum aðilanum, Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda sem eru á móti slíkri skipan, að þetta væri helsta leiðin. Síðan þekkjum við málin, að nefnd var skipuð 15. nóv. af sjútvrh. til að útfæra hugsanlegar reglur betur. Við höfum þegar séð fyrsta árangur af starfi hennar með tillögum um hvað menn skuli veiða mikið úr þessum fiskistofnum okkar á næsta ári. Þar eru staðfestar þær tölur sem því miður komu út úr mælingum fiskifræðinganna, að þar er um að ræða öllu dekkri mynd en við vorum að vona.

Nú er aðeins að vona það besta, að þessum ágætu nefndum takist að undirbúa þetta á sem bestan veg. Ég mæli eindregið með, ásamt þeim meiri hl. sem undir þetta nál. ritar, að ráðh. verði heimiluð þau völd sem þar um ræðir til að geta undirbúið og skipulagt þau mál eins og þau geta best orðið til tilrauna í eitt ár, 1984, með þessari fiskveiðistefnu. Að sinni ætta ég ekki að hafa fleiri orð hér um.