20.12.1983
Efri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2241 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að vera ekki langorður. Ég hafði eiginlega ekki búið mig undir að taka þátt í umr. en sé þó til þess ákveðna ástæðu vegna þess nál. sem liggur fyrir frá meiri hl. sjútvn. Ég vil undirstrika til að byrja með ákveðin atriði í mínum mátflutningi við 1. umr. og þá aðallega það atriði að við erum hér ekki að tala um fiskveiðistefnu enn þá. Enn þá hefur hún í raun og veru aðeins verið rædd meira og minna utan þings en ekki innan. Við erum einfaldlega að tala hér um beint valdaafsal frá einum aðila til annars og vita þá allir við hvað er átt.

Þess vegna sló mig líka dálítið 2. mgr. meirihlutaálits sjútvn. og ég veit reyndar ekki hvernig hana skyldi skoða. Ég þekki alla þessa menn og þeir eru mætir. Ég veit nokkurn veginn hvað þeim gengur til og vil ekki gera þeim upp neinar sakir í þessu máli. En vegna þess að farið hefur verið fram á að Alþingi fái að lýsa áliti sínu á framkvæmd fiskveiðistefnu þó ekki væri nema í þál., en það tel ég mjög hógværa kröfu, tel ég mjög óheppilegt hjá meiri hl. sjútvn. að taka undir mjög ákveðna eina aðferð til stjórnunar og takmörkunar fiskveiða. Enda þótt ég geri mér grein fyrir að nál. ber ekki að skilja sem lög felst þó í því ákveðinn stuðningur og yfirlýsing sem menn geta byggt réttlætingu sinna gerða á.

Í raun og veru hefur ekki endanlega verið gefið neitt út um það hvort kvótakerfi verði beitt. Svo mikil umr. hefur farið fram í landinu á síðustu vikum að menn gera sér orðið ljósa grein þess að mjög margir aðrir hlutir eru mögulegir. Sjútvrh. minntist á í sinni fyrstu framsögu fyrir málinu að Háskólinn — að því er ég tel mig muna rétt — vinni að ákveðnu reiknilíkani á þessu sviði. Ef þetta reiknilíkan lægi fyrir gefur það náttúrlega möguleika á margs kyns öðrum aðferðum til stjórnunar og takmörkunar fiskveiða en endilega kvótakerfi.

Ég hef á tilfinningunni og ég held að svo sé um fleiri sem hér ganga um sali að kvótakerfi eigi eftir að skapa mjög mikla úlfúð milli manna, milli byggða og milli landshluta. Ég vildi beina því til þeirra aðila sem undirrita meirihlutaálit sjútvn. hvort ekki væri réttara að fella einfaldlega út þessa 2. mgr. Álitið stendur alveg eftir sem áður sem stuðningur við frv. sem slíkt án þess að þessir einstaklingar og þeir sem síðan greiða atkv. og styðja þetta meirihlutaálit verði skuldbundnir af kvótakerfinu sem hinni einu sönnu lausn. Jafnvel þó að hér sé ekki talað um nema eitt ár skulum við vera minnugir þess sem hv. 4. þm. Vestf. sagði okkur hér í upphafi að lögspakur maður hefði sagt: Þau lög vara hvað lengst sem aðeins voru sett til bráðabirgða.