20.12.1983
Efri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

143. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Niðurstaðan í þessu máli er farin að skýrast og leiðir hefur skilið við afgreiðslu þess í Ed. Það sem kannske er athyglisverðast við það er að þar ræður, að því er ég hygg, mest sá ágreiningur sem var kominn í málið áður en það kom til Ed. og hefði betur verið byrjað að vinna þetta mál hér.

Það hlýtur að setja nokkurn kvíða að mönnum, eins hæpið og þetta mál allt saman er, að ekki skyldi hafa náðst um það samkomulag á Alþingi. Má þó enginn skilja orð mín svo að málaundirbúningur hæstv. sjútvrh. hafi verið þess valdandi. Það er athyglisvert í sambandi við þetta mál hvað ákaflega erfitt er að fá upplýsingar og raunar líka hvað nm. í sjútvn. Ed. og reyndar alþm. sem sæti eiga í þessari virðulegu deild virðist í rauninni varða lítið um þetta mál þegar um það er fjallað hér. Það er valdaafsalið sem menn kalla hér eftir, en við einföldum óskum, m.a. sem ég hef borið fram, er ekki hægt að fá svör og m.a.s. finnst mönnum þær jafnvel vera óeðlilegar. Þetta breytir hins vegar ekki því að þetta frv. styð ég, m.a. vegna þess að það hefur ekki lagagildi nema eitt ár. Þó hljóta raunar að búa með mönnum nokkrar efasemdir, miðað við hvernig umr.

hafa fallið, um að það nái verulegum árangri í skipulagningu veiða á næsta ári. En best er að sleppa allri svartsýni í þeim efnum. Þótt maður sé að sjálfsögðu með nokkrar efasemdir er eðlilegt á þessu stigi málsins að vona það skásta.