25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

452. mál, jafnréttislög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þegar þetta mál bar á góma í umr. utan dagskrár 7. mars í fyrra sagði þáv. samgrh., núv. hæstv. forsrh.: „Það verður allt gert til að komast yfir annað skip.“ Og hann sagði líka orðrétt, með leyfi forseta: „Þessi verkefni eru þar að auki takmörkuð að umfangi og ekki þörf fyrir nema eitt slíkt tæki í landinu. Við aðstæður sem þessar er ekki grundvöllur til heilbrigðs útboðs og því er að mínu mati eðlilegt, að ríkið eigi svona sérhæft tæki. Ég held að varla sé hægt að gera ráð fyrir því að verktakar, sem gjarnan þyrftu að vera fleiri en einn til að sem sanngjörnust tilboð fengjust, fái sér svona tæki og reyndar alls ekki æskilegt. Ég hygg að þetta sé eitt af þeim verkefnum sem eðlilegt er að Vita- og hafnamálaskrifstofan sjálf annist.“

Nú hefur komið í ljós í þessum umr.hæstv. núv. samgrh. er allt annarrar skoðunar. Hann telur að hér eigi að bjóða út og verktakar geti hugsanlega tekið þetta að sér. Á þingi Hafnamálasambandsins vestur í Stykkishólmi núna fyrir fáeinum dögum tjáði hæstv. félmrh. sig um þetta mál. Hann var sömu skoðunar og núv. hæstv. forsrh. Það er því ljóst að í þessu máli hefur ríkisstj. tvær skoðanir. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þingheimur fái að heyra hvaða skoðun það er sem á að ráða, hvaða stefna það er í þessu máli. Það er ljóst að skoðanir hæstv. samgrh. og hæstv. forsrh. og félmrh. stangast þarna á í meginatriðum. Þetta verður að fá hér á hreint.