24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

386. mál, útreikningur verðbóta

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir svar hans. Það svar sem hann vitnaði til að komið hefði frá bankastjórn Seðlabankans varðandi þetta mál kom mér ekki í sjálfu sér á óvart. Það er í fullu samræmi við það sem áður hefur gerst í málinu að Seðlabankinn hefur vísað þessu máli frá sér. Ég hygg að viðskrh. sé kannske í nokkrum vanda staddur með að gefa út reglugerð á grundvelli laganna frá 1979 ef ágreiningur er uppi um hvort þau veita þann grundvöll til reglugerðarútgáfu sem til þarf. Ég ætla ekki að hætta mér út í að rökræða frekar hvort þau veita heimild til útgáfu reglugerðar til þess að leysa þennan vanda, enda held ég að ekki eigi að flækja málið um of með því að staðnæmast við það atriði.

Ef það er skoðun viðskrn. að þörf sé á lagasetningu í þessu skyni til að taka af öll tvímæli ber að setja lög af því tagi. Ég fagna því að hæstv. ráðh. var ekki neikvæður í afstöðu sinni til þess máls. Hann sagði einungis að ekki hefði verið tekin ákvörðun um að rn. beitti sér fyrir lagasetningu í þessu skyni og gaf jafnvel í skyn að til greina gæti komið að frv. um annað efni mundi einnig ná yfir þetta atriði þegar það yrði lagt fram síðar í vetur.

Ég vil hins vegar ítreka það sem ég hef þegar sagt að hér er um veruleg vandamál að ræða vegna þess að menn hafa gert samninga um verk í stórum stíl og af þeim hefur í mörgum tilvikum hlotist mikill ágreiningur milli verkkaupanda og verkseljanda vegna ósanngjarnra ákvæða af því tagi sem ég vitnaði til áðan. Með hliðsjón af því að opinberum aðilum ber að reyna að tryggja að deilur séu settar niður í þjóðfélaginu og í öðru lagi að reyna að vernda almenning gegn ósanngjörnum samningsákvæðum ber ríkisstj. hverju sinni að hafa frumkvæði að því að komið sé í veg fyrir vanda af þessu tagi. Þess vegna vil ég eindregið hvetja hæstv. ráðh. til að láta ekki dragast um of að frv. af þessu tagi verði flutt í þinginu.