24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (1998)

406. mál, þyrlukaup

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen):

Herra forseti. Brýna nauðsyn ber til að kaupa hið fyrsta nýjar þyrlur til björgunar- og gæslustarfa fyrir Landhelgisgæslu Íslands. Helstu rök til stuðnings því máli eru að sinna þarf öryggisþjónustu við landsmenn og þá einkum sjómenn, sem segja má að hafi um of langan tíma verið sinnt of lítið í þeim efnum miðað við aðra landsmenn, ekki síst ef tekið er tillit til þess að þyrla er oftast eini kosturinn sem völ er á ef um bráðatilfelli er að ræða á hafi úti. Í langflestum útköllum varðandi sjóslys og aðra slíka skaða hefur öðrum tækjum ekki verið komið við, eða þá að þyrluaðstoð hefur augljóslega verið besti kosturinn.

Varðandi möguleika á þyrlu á stærð við TF Rán, sem Landhelgisgæslan missti, til að sinna þeim verkefnum sem um getur í lögum um landhelgisgæslu, öðrum en björgunarstörfum, má leiða að því sterk rök að þyrla á borð við TF Rán hafi verið fjölhæfasta tækið í eigu Landhelgisgæslunnar. Af þeim átta ólíku verksviðum sem Landhelgisgæslu er ætlað að sinna er þyrla á stærð við Rán mjög hæf til að annast sjö þeirra a.m.k. Þyrluútköllum í slysum á Íslandi fjölgaði áberandi s.l. vetur þegar frönsku Puma-þyrlurnar komu til landsins. Mætti halda að þá fyrst hafi augu landsmanna opnast fyrir því hvílíkt afburða björgunartæki öflug þyrla er. En Puma-þyrlurnar eru þannig gerðar að þær geta farið í nær hvaða veðri sem er stystu leið á þann áfangastað sem þeim er ætlað, á sama tíma og minni þyrlur þurfa oft að sveigja af leið undan veðri og vindum.

Þegar litið er á neyðarútköll þar sem þyrlur koma við sögu þá liggur fyrir að á árinu 1981 er TF Rán kölluð út 14 sinnum, 13 sinnum 1982, en 27 sinnum 1983. Árið 1981 er varnarliðið kallað út 10 sinnum, 1982 7 sinnum og 14 sinnum 1983. Samtals eru þyrluútköll vegna sjóslysa og slysa á landi árið 1981 alls 24, árið 1984 alls 20, en 1983 45 og tengist það komu frönsku þyrlanna sem ég gat um áðan. Það liggur því í augum uppi að hér er um slíkt tæki að ræða í þágu landsmanna að bregðast verður skjótt við þeim skorti sem nú ríkir hjá Landhelgisgæslu í þeim efnum.

Þá kemur að einum þætti sem einnig verður að taka tillit til. Það er varðandi viðhaldsaðstöðu. Það verður að segjast eins og er að líklega fyrirfinnst hvergi í víðri veröld jafnléleg aðstaða til viðhalds á flugvélum og í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Skýlið er óeinangrað, óupphitað og hvorki vind- né vatnshelt. Það segir sig sjálft að þar sem ekki er betur búið að mönnum en svo að þeir þurfa oft krókloppnir á höndum að framkvæma erfiðar og flóknar viðgerðir á tækjum, sem verða að vera í fullkomnu lagi og sem oftast til taks, þar er verið að ganga verulega á öryggið.

Loftferðaeftirlit ríkisins hefur sett fram lágmarkskröfur til þyrlurekenda um viðhaldsaðstöðu. Flugskýli Landhelgisgæslunnar fullnægir ekki þeim kröfum. Samfara því að Landhelgisgæslan eignaðist nýjar björgunarþyrlur yrðu að fara fram gagngerðar endurbætur á þeirri aðstöðu sem um er að ræða, til þess að reka þessi tæki með fullkomið öryggi í huga. Það er mikilvægt að tekin sé skjótt ákvörðun um kaup á slíku björgunartæki og því hef ég borið fram fsp. til hæstv. ráðh. varðandi þetta mál.