25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

459. mál, ráðstöfun gengismunar og bætt meðferð sjávarafla

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekkert ofsagt um það í fyrri ræðu minni, að þegar verið er að tala um stöðuna í íslenskum sjávarútvegi sé það fyrsti punkturinn sem bent sé á hvort ekki sé hægt að bæta meðferð sjávarafla og þetta sé allt að því eini vaxtarbroddurinn sem hægt sé að eygja. Mér finnst ekki að svar hæstv. sjútvrh. bendi til þess að svo sé, því að þær upplýsingar sem ráðh. gefur um hvað gert hafi verið eða verið sé að gera í rn. finnst mér vera frekar veigalitlar.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni hefur umræða um þetta mál staðið yfir síðustu ár og ekki aðeins hefur núv. sjútvrh. bent á þessi vandamál, heldur einnig fyrrv. sjútvrh., sem næstum því í hverri ræðu sinni á hv. Atþingi undirstrikaði að þarna þyrfti mikið að gera. En þegar svar kemur við spurningu um hvað gert hafi verið í sjútvrn., þá kemur í fyrsta lagi fram að lagt hafi verið fram frv. um skiputagsbreytingar á mati á sjávarafurðum. Það frv. hefur reyndar ekki verið lagt fyrir hv. Alþingi. Það var lagt fyrir blaðamannafund í vor fyrir kosningar, en er væntanlegt, eftir upplýsingum hæstv. ráðh. að dæma, hingað inn á þing bráðlega. Það er sjálfsagt að fagna því og má vel búast við að í því sé ýmislegt sem til bóta megi vera, en ég hef ekki mikla trú á að það skipti sköpum, enda eru um það frv. ansi miklar deilur meðal þeirra manna sem um þessi mál fjalla. Jafnvel telja þeir sem þarna hafa mesta reynslu, t.d. eins og fiskmatsnefnd, að þær tillögur sem í því frv. séu og þær brtt. séu ekki til þess fallnar að bæta meðferð eða búast megi við því að fiskmatið skili betri árangri eftir samþykkt þess frv. en nú er.

Í öðru lagi hafa verið ráðnir tveir forstjórar til starfa í Framleiðslueftirliti sjávarafurða. Það má vel vera að þarna sé um framfaraspor að ræða, en ekki aðeins hafa verið ráðnir tveir forstjórar, heldur er þriðji forstjórinn enn til staðar, eftir því sem ég veit best, og er núna að kynna sér meðferð fiskjar í nágrannalöndum. Ég vil ekki gera mikið úr því að störf þessara tveggja forstjóra, sem komnir eru í Framleiðslueftirlitið, skipti sköpum eða þar breytist mikið við að tveir forstjórar komi í stað eins.

Í þriðja lagi fer fram víðtæk úttekt á Framleiðslueftirlitinu í beinu framhaldi af að ráðnir eru tveir forstjórar og var jafnvel byrjað á því fyrir fram. Ég undirstrika líka að það má vera að fara þurfi að gera úttekt á þessu fyrirtæki, en ég geri mjög lítið úr að það skipti sköpum í sambandi við meðferð sjávarafla.

Í fjórða lagi er verið að athuga fjárfestingarstefnu og fiskveiðistefnu í sambandi við þessi mál. Það má vel vera að það sé stór þáttur í þessum málum, en ég hef ekki orðið var við að þar séu neinar nýjar leiðir enn boðaðar. Mér er kunnugt um að aðili í sjávarútvegi á Vesturlandi hafði hug á því að fara í ákveðnar fjárfestingar til að bæta meðferð á sjávarafla. Hann ætlaði að endurvæða skip sitt, þannig að hann gæti sett afla í stóra kassa. Þetta væri vinnuhagræðing bæði um borð í skipi og þegar aflinn bærist á land. Mér skilst að hann hafi farið hring eftir hring, frá sjútvrn. upp í Framleiðslueftirlit, úr Framleiðslueftirliti niður í sjútvrn. og upp í Framleiðslueftirlit aftur. Ég vil ekki nefna þá menn sem hann þurfti að mæta, en þar hafði hvergi verið nein ákvörðun tekin um að liðka til um framkvæmd sem þessa. Í fjárfestingarstefnunni virðist því ekki vera búið að skapa neina markvissa stefnu.

Svo var einnig nefnt að til starfa í rn. hefði verið ráðinn Jóhann Briem til að vinna að þessum málum í samstarfi við aðila í sjávarútvegi. Vitaskuld er það af hinu góða og slík vinnubrögð eru upphafið að því að laga mál sem þessi. En í sambandi við þetta mál langar mig til að ítreka fsp. sem Jóhann J. E. Kúld, ritari Fiskmatsmannafélags Íslands, bar fram fyrir nokkrum dögum í Þjóðviljanum í sambandi við verk þess starfshóps sem mér skilst að Jóhann Briem stjórni. Það varðar þá kvikmynd sem flestir alþm. hafa vafalaust séð og var í sjónvarpi fyrir nokkrum vikum og er að dómi Jóhanns mjög mislukkuð og að dómi allra þeirra sjómanna sem ég hef talað við hálfgerð skrípamynd, ég ætla ekki að segja meira. Að mínu mati sýnir hún frekar hvernig vinnubrögð voru til sjós fyrir 20 árum en að hún sýni hvernig vinnubrögð eiga að vera til sjós í dag. En fsp. Jóhanns Kúlds er þannig, með leyfi hæstv. forseta, og óska ég eftir því að hæstv. ráðh. svari nú fsp. Jóhanns. (Forseti hringir. ) — Herra forseti. Ég var rétt að byrja á þessu, en þetta er mjög stutt hjá mér. (Forseti: Það er komið allnokkuð fram yfir.) — Þetta er þannig:

„Ég vil koma á framfæri fyrirspurn til sjútvrh. vegna fræðslukvikmyndar sem sjútvrn. lét gera um vinnubrögð við aðgerð um borð í fiskiskipum og sýnd var í sjónvarpi 30. sept. s.l. Í myndinni áttu sér stað forkastanleg mistök. Blóðgun og slæging eru þar sýnd samtímis, þ.e. fiskurinn er slægður lifandi.

Í gildandi reglugerð, sem útgefin er af sjútvrn., segir í 46. gr.: „Fisk skal ekki slægja fyrr en honum hefur blætt út.“ Þetta mikilvæga atriði reglugerðarinnar, sem er undirstaða allrar góðrar fiskverkunar, er í kvikmyndinni brotið af þeim mönnum sem myndina gerðu. Hins vegar verður sjútvrh., sem er æðsti maður sjávarútvegsmála í landinu, að standa vörð um það, að lög og gildandi reglugerðir um meðferð sjávarafla séu haldnar en ekki brotnar. Því spyr ég Halldór Ásgrímsson sjútvrh. eftirfarandi spurningar, sem ég óska eftir að hann svari opinberlega:

Hefur ráðh. gert ráðstafanir til þess að áðurnefnd fræðslukvikmynd, sem er brot á gildandi reglugerð um eftirlit og mat á ferskum fiski o.fl., verði tekin úr umferð og ekki sýnd?“

Ég geri þessa fsp. Jóhanns Kúlds að minni og bæti því við, að mér finnst það hálfsorglegt að eftir öll stóru orðin úr sjútvrn. skuli það sem hægt er að festa hendur á og sjá vera eins úr garði gert og kvikmyndin sem ég hef hér nefnt.