24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

405. mál, verðlagning á sjávarafurðum á Bandaríkjamarkaði

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Sú stefna hefur verið ríkjandi varðandi útflutning á íslenskum sjávarafurðum að koma í veg fyrir verðstríð milli aðila á erlendum mörkuðum. Segja má að reynslan í heimskreppunni, þegar saltfiskmarkaður Íslendinga hrundi, hafi e.t.v. orðið til að móta þessa stefnu og allt til þessa hefur hún verið ráðandi.

Það er svo allt annað mál hvort stefnan sem slík er rétt eða hvort það beri að breyta um. Má í því sambandi benda á að t.d. Danir, sú mikla matvælaútflutningsþjóð, hafa algert frelsi með það hvaða aðilar selja matvæli til annarra ríkja og leyfa þeim að keppa þar um verð og gæði eins og þeim sýnist. Engu að síður höfum við viðhaldið því kerfi sem miðar að því að koma í veg fyrir verðstríð um útflutningsvörur landsmanna. Það hlýtur því að hafa vakið athygli manna almennt þegar á s.l. sumri hófst visst verðstríð á milli þeirra aðila sem sjá um sölu á frosnum fiski til Bandaríkjanna. Og eitt er víst: að forsendurnar fyrir því að veita tveimur aðilum þann einkarétt sem þeir hafa hljóta að vera þær að slíkt gerist ekki, ella er þá sanngjarnt að fleiri aðilar fái að spreyta sig á því að selja fisk úr landi.

Í ljósi þessa leyfi ég mér að bera fram fsp. til viðskrh. um hugsanleg afskipti stjórnvalda af verðlagningu á frystum sjávarafurðum frá Íslandi á Bandaríkjamarkaði:

„Hefur viðskrn. beitt sér fyrir aðgerðum til að samræma verðstefnu íslensku fisksölufyrirtækjanna tveggja í Bandaríkjunum?

Hefur rn. gert könnun á birgðum fyrirtækjanna nú á haustmánuðum, bæði hér heima og erlendis, miðað við sama tíma í fyrra?

Hvað hefur könnunin, ef gerð hefur verið, leitt í ljós? Telur rn. eðlilegt að verðmunur hjá þessum fyrirtækjum nemi allt að 10 centum á hvert pund af samsvarandi vöru?“

Það skal fram tekið að fsp. þessi er frá Magnúsi Reyni Guðmundssyni og borin fram fyrir jól, en síðan hefur, eins og menn vita, orðið viss breyting varðandi verðlagningu þeirrar vöru sem hér er um spurt.