24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

137. mál, heildarstefna í áfengismálum

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 175 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

„Hvað líður störfum nefndar um heildarstefnumótun í áfengismálum?

Hefur nefndin skilað áfangaskýrslu, og ef svo er, hvernig hyggst rn. fara með tillögur nefndarinnar?“ Hæstv. fyrrv. ríkisstj. setti á laggirnar nefnd sem átti að vinna að stefnumörkun af opinberri hálfu í áfengismálum og gera þar um ákveðnar tillögur. Ástand þessara mála kallar vissulega á það að eitthvað sé aðhafst, að stjórnvöld marki heildarstefnu og gefi ákveðinn tón sem hægt sé að taka mark á og mið af.

Nefnd sú sem hér um ræðir hefur starfað vel að þessu verkefni, að ég hygg. Mörg mismunandi sjónarmið eru þar á ferðinni um markmið og ekki síður leiðir alveg sérstaklega, en mér er tjáð að nefndin hafi skilað — nú á haustdögum trúlega — áfangaskýrslu um málið til hæstv. ráðh. og þar séu tillögur um mörg veigamikil atriði í væntanlegri stefnumörkun. Ef svo er þykir mér vissulega ástæða til þess að hæstv. ráðh. upplýsi þingheim um hvernig þessu starfi miðar, hvaða tillögur eru helstar uppi og hvaða viðhorf og viðbrögð séu í rn. og hjá hæstv. ráðh. við þessum tillögum. Ég geri mér fulla grein fyrir vandamálinu við að framkvæma ýmislegt af því sem helst mætti til varnar verða, en á það verður þó að reyna.

Ég vil í framhaldi af þessari fsp. segja örfá orð til viðbótar, en hún skýrir sig að öðru leyti sjálf.

Ég vara við því núna í hinni miklu og að mörgu leyti gagnlegu umræðu, held ég, um vímuefni og neyslu þeirra að láta umræðurnar snúast eingöngu um önnur vímuefni en áfengið. Þeir læknar sem gleggst þekkja hér til og þessi eldur brennur hvað heitast á greina frá órofa sambandi hér á milli og þeir leggja þessi efni svo að jöfnu að við skyldum varast að skella skollaeyrum þar við. Það er líka verið að stinga fólki visst svefnþorn gagnvart áfenginu með því að beina umræðum eingöngu að öðrum eiturefnum. Allt þarf þetta því að skoðast í samhengi. Ég hygg að nefndin hafi tekið málið þeim tökum og því er þarft að heyra það sem þegar er komið og hvað helst muni svo á döfinni í framhaldinu.