24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2271 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

409. mál, kvartanir vegna lögreglu

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 175 fsp. til hæstv. dómsmrh. um ákveðin atriði er varða samskipti lögreglu og almennings.

Kveikja þessa máls er öllum kunn og ætla ég ekki að ræða hana hér. En af sömu orsökum hefur orðið mikil umræða um samskiptamál lögreglu og almennings á opinberum vettvangi og sýnist sitt hverjum. Viðbrögð manna hafa verið allharkaleg á báða bóga, en það fer ekki fram hjá þeim sem með fylgjast að lögreglan á sér ekki marga málsvara utan sinna eigin raða. Þessi umræða er þó gagnleg og nauðsynleg. Trúnaðartraust verður að ríkja milli lögreglu og almennings. Almenningur verður að geta borið virðingu fyrir lögreglunni. Það þýðir að það má ekki fara milli mála hvað leyfilegt er og hvað ekki, og það á bæði við um almenning og lögreglu.

Þessari fsp. minni er fyrst og fremst ætlað að opna nú og kynna mönnum mál sem örugglega þarfnast umfangsmeiri umfjöllunar en fsp.-tími gefur ráðrúm til. Ég tel mjög mikilvægt að fá hér að heyra mat hæstv. dómsmrh. á því máli sem hér er um fjallað og ég á von á að þetta verði ekki það síðasta sem við heyrum af þessu máli á þessu þingi.