25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

459. mál, ráðstöfun gengismunar og bætt meðferð sjávarafla

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er hreyft af hv. 4. þm. Vesturl. verður vafalaust rætt miklu meira í umr. í vetur á hinu háa Alþingi því það er eitt af stærri hagsmunamálum okkar þjóðar að vöruvöndun í sjávarútvegi sé öll eins og best verður á kosið, að þar sé jafnan staðið þannig að verkum að menn séu sannfærðir um að þeir hafi lagt sig fram.

Ég kvaddi mér hér hljóðs fyrst og fremst vegna þess að það hefur vakið athygli mína, eins og vafalaust fleiri manna, að hér virðist hafa verið staðið að málum með býsna sérkennilegum hætti. Þrátt fyrir ákvarðanir á s.l. ári um verulega fjármuni í þessu skyni hafa þau tíðindi sem gerst hafa á þessu sviði ekki verið með þeim hætti að menn hafi tilfinningu fyrir því að þarna séu mál að þokast verulega í rétta átt.

Það er a.m.k. ekki sannfæring mín að það sé rétt byrjun í þessu máli að leggja lagafrv. fyrir blaðamannafundi. En það var það sem fyrrv. hæstv. sjútvrh. gerði fyrir síðustu kosningar. Það skýtur einnig skökku við á þessum tímum aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstri að ráðnir skuli vera tveir forstöðumenn að Framleiðslueftirliti sjávarafurða í stað eins sem starfað hefur þar um skeið. Engin rök hafa komið fram um það opinberlega hverju það ráðslag sætir.

Þá hefur það einnig vakið athygli að í einu dagblaðanna, Þjóðviljanum, hefur verið greint frá því að sjútvrh. og rn. hans hafi ráðið til starfa mann til að sinna þessum málum. Hann hafi hins vegar á sínum vegum, enda þótt hann sé opinber starfsmaður um þessar mundir, starfandi tvö einkafyrirtæki, ráðgjafarþjónustu svokallaða og Myndbæ, sem annist þau verkefni sem séu sérstaklega unnin í þeirri herferð sem hér er um að ræða. Hér er greinilega grautað saman hlutum með býsna sérkennilegum hætti. Niðurstaðan er svo sú sem hv. þm. Skúli Alexandersson gat um hér áðan, rammgölluð mynd að mati þess ágæta manns, Jóhanns J. E. Kúld, sem hefur um áratugaskeið skrifað um fiskimál í Þjóðviljann og fleiri rit og þekkir þau mjög vel að allra mati. (Forseti hringir.)

Niðurstaðan í þessu máli er þess vegna sú að hér hafi verið unnið meira með þumalfingrunum en góðu hófi gegnir. Ég vænti þess að þegar frv. um ríkismat sjávarafurða loksins verður sýnt Alþingi gefist tækifæri til að ræða við hæstv. ráðh. og ríkisstj. um það háttalag sem hér hefur verið lýst.