24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

130. mál, endurgreiðsla söluskatts af snjómokstri

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil nú fyrst þakka fyrirspyrjendum. Þó að fyrirspyrjandi sá sem lagði fsp. fram í upphafi sé því miður ekki viðstaddur tel ég að hér sé hreyft mjög nauðsynlegu máli. Mér er kunnugt um að sveitarstjórnir víða um land hafa af því hinar mestu áhyggjur að þetta atriði skuli ekki hafa enn komist til framkvæmda, sem ég tel að sé mjög brýnt og nauðsynlegt. Ég verð því að segja að ég harma þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh. er hann telur að vandkvæði á framkvæmd þessa ákvæðis geti orðið til að koma í veg fyrir að því verði framfylgt og að svar hans skuli nánast vera afdráttarlaust nei við spurningunni um það hvenær eða hvort þetta eigi að gera. Þetta tel ég að við getum varla sætt okkur við.

Ég hef nýlega fengið í hendur samþykkt bæjarstjórnar á Ólafsfirði, þar sem hún skorar á stjórnvöld að verða nú við þessu og láta þetta lagaákvæði koma til framkvæmda.

Ég tel að ef lögin eins og þau eru nú með heimildarákvæði eru ekki nægjanlega skýr, þá verði að taka þetta mál upp aftur, það verði þá að flytja brtt. við lögin svo það komi alveg fram hvernig á þessu máli verði tekið. Ég tel að það sé nú þegar fyrirliggjandi afdráttarlaus vilji þingsins, eins og kom fram fyrrv. hæstv. fjmrh., hv. þm. Ragnari Arnalds. Það var skýlaus yfirlýsing þingsins að þetta verði gert og ég tel að við verðum að hrinda því í framkvæmd.

Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að hann feldi í raun að hér væri um sanngirnismál að ræða. Við erum sjálfsagt öll sammála um það. Við megum þess vegna ekki láta einhver vandkvæði við að koma þessu máli í framkvæmd koma í veg fyrir að lögum verði framfylgt. Hæstv. ráðh. benti að vísu á að það kynni að vera eða að það yrði þá hreinlega að létta söluskatti af greiðslum fyrir verk vinnuvéla. Ég vil ekki á þessu stigi taka undir að það sé nauðsynlegt, að við getum ekki fundið einhverja leið til að koma málinu fram án þess að fella söluskatt niður með öllu. En þó hef ég heyrt því fleygt líka að það gæti mjög mikils misræmis í t.d. greiðslum annars vegar fyrir vörubifreiðaakstur og hins vegar greiðslum fyrir vinnu sem framkvæmd er með vinnuvélum og það sé jafnvel til að þeir menn sem eru í vinnu með hvoru tveggja þessi tæki geti nú fært greiðslur þannig á milli annars vegar vörubifreiðanna og hins vegar vinnuvélanna að söluskattsuppgjör sé ekki rétt og þess vegna þurfi að skoða málið í víðara samhengi en bara hvað varðar snjómoksturinn. En það er þó það sem hefur komið fram í þinginu og það er yfirlýsing þingsins að fyrst og fremst verði þessum söluskattsgreiðslum aflétt hvað varðar kostnað sveitarfélaga við snjómoksturinn og ég get ekki sætt mig við að við reynum ekki að finna leið til að framfylgja þessu ákvæði og þá jafnvel með lagabreytingu ef það tekst ekki öðruvísi.