24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

138. mál, útgáfa sérkennslugagna

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa þörfu fsp. sem vekur athygli á þessu mikla vandamáli sem ég kannast mætavel við frá mínum kennaraferli áður. Einhver erfiðustu atriði sem þar komu upp voru tengd þeim sem á einhvern hátt áttu erfiðara með nám en aðrir, þurftu stuðningskennslu eða hjálparkennslu. Við ekkert, hreinlega ekkert var að styðjast til þess að létta þeim róðurinn nema eigið hyggjuvit svo langt sem það náði.

Á þessu öllu hefur orðið býsna mikil framför. Velunnarar og aðstandendur þeirra sem hér er um að ræða sérstaklega hafa unnið mikið og gott starf að því að kynna þessi málefni, útiloka fordómana sem áður voru í vissum greinum og unnið að því á öllum sviðum að reyna að létta því fólki sem hér á allra erfiðast róðurinn. Greinilegt er að nokkur árangur hefur hér af orðið, en auðvitað hlýtur spurningin að vera um það, þegar fjármagn er takmarkað eins og til námsgagnaútgáfu atmennt, ónógt til hinnar almennu útgáfu hvað eigi þar að hafa forgang.

Ég leyfi mér að skora á hæstv. menntmrh. að sjá til þess að þessi námsgögn verði látin hafa forgang umfram önnur, alveg sérstaklega vegna þess að þeir kennarar sem fjalla hér sérstaklega um stuðnings- og hjálparkennslu eiga ekki í önnur hús að venda til þess að létta sínu fólki hinn þunga róður. Þessi námsgögn þurfa því alveg tvímælalaust að vera í öndvegi sett hjá Námsgagnastofnun og um það þurfa vitanlega að koma ótvíræð fyrirmæli frá rn. Ég treysti hæstv. menntmrh. til að sjá svo til að þessi námsgögn verði þar alveg sérstaklega í forgangi.