24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2283 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

138. mál, útgáfa sérkennslugagna

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. menntmrh. fyrir greinargóð og skýr svör við þeirri fsp. sem ég hef borið hér fram. Ég vil sérstaklega fagna því áliti hæstv. menntmrh. að hún telji að sú stefna sem mörkuð er í þessu nál. sé vel til þess fallin að vera höfð að leiðarljósi í útgáfu sérkennslugagna á næstu árum. Af þessum orðum hæstv. menntmrh. ræð ég að hæstv. menntmrh. muni framfylgja þeirri stefnu sem þar er mörkuð.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að Námsgagnastofnun hefur átt við mikinn fjárhagsvanda að etja. Og reyndar er það svo nú að starfandi er nefnd á vegum rn. til að finna lausn á fjárhagsvanda stofnunarinnar. Sá fjárhagsvandi sem stofnunin hefur átt við að glíma á undanförnum árum hefur ekki síst komið niður á útgáfu sérkennslugagna og það svo að til hreinna vandræða hefur horft. Það þarf raunar engan að undra það þegar við hugleiðum þær tölur sem við heyrðum hjá hæstv. menntmrh., að það hafi einungis verið varið á undanförnum fimm árum sem samsvarar 765 þús. kr. til sérkennslugagna. Og hæstv. menntmrh. upplýsir að það séu um 5300 nemendur sem á einn eða annan hátt þurfi á sérkennslugögnum að halda. Ég reiknaði það út í fljótheitum, eftir að þessar tölur komu hér fram áðan hjá hæstv. ráðh., að þetta þýðir 133 þús. á ári handa 5300 nemendum. Það þýðir það, að 27 kr. sé varið á ári fyrir hvern nemanda sem þarf á sérkennslugögnum að halda. Þetta er auðvitað til háborinnar skammar og það hlýtur öllum þm. að vera ljóst að þarna þarf virkilega að verða breyting á.

En nefndin bendir á í sínu áliti að tryggja verði markvissa og stöðuga útgáfu á þessum námsgögnum og það var einmitt tilgangurinn með þessari fsp. að fá fram afstöðu menntmrh. til þeirra tillagna sem þessi nefnd hefur sett fram. Tel ég að nefndin hafi skilað góðu starfi og lagt fram skýra stefnu í þessu máli sem mikill fengur er í um hvernig útgáfu sérkennslugagna skuli háttað næstu árin og hvaða sérkennsluefni sérstök áhersla skuli lögð á. Ennfremur tel ég eins og reyndar kemur fram í nál. að nefndin hafi gætt ýtrustu hagkvæmni í tillögum sínum. Hér er ekki um stóra upphæð að ræða sem áætluð er til sérkennslugagna miðað við allan þann fjölda nemenda sem þarf á þeim að halda. Fram kemur í áliti þessa fólks að það þurfi um 14 millj. á 5 árum. Það eru um 2–3 millj. á ári. En eins og fram kemur hjá hæstv. ráðh. hefur einungis verið varið 765 þús. á s.l. 5 árum þannig að hér þarf auðvitað að verða breyting á.

Ég vil að lokum beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvenær megi vænta þess að sú nefnd sem vinnur að lausn á fjárhagsvanda Námsgagnastofnunar skili niðurstöðum. Einnig væri fróðlegt að fá fram álit menntmrh. á þeirri hugmynd sem fram kemur í umræddu nál. en nefndin hreyfir þar þeirri hugmynd að til að örva námsgagnagerð verði stofnaður sérstakur sjóður á vegum Námsgagnastofnunar og nemi sjóðfé sömu upphæð og stofnuninni er gert að greiða í söluskatt af þeim námsgögnum sem dreift er ókeypis til skólanna. Það er umhugsunarefni að á sama tíma og stofnunin getur ekki séð nemendum skólanna fyrir námsefni skuli ríkissjóður taka söluskatt af þeim námsgögnum sem þó er hægt að gefa út. Ég vænti þess að við fáum hér að heyra álit hæstv. menntmrh. á þessari hugmynd um að stofna þennan sjóð til þess að örva námsgagnagerð og eins hvenær vænta megi þess að nefnd sú sem vinnur að lausn á fjárhagsvanda Námsgagnastofnunar skili niðurstöðum.