24.01.1984
Sameinað þing: 37. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2284 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

138. mál, útgáfa sérkennslugagna

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það eru þrjú atriði sem ég vil nefna. Í fyrsta lagi er það nemendafjöldinn sem ég gat um að nyti sérkennslu eða stuðningskennslu. Ég er ekki viss um að taka megi það svo að þeir 4322 nemendur sem njóta stuðningskennslu í almennum grunnskóla séu allir þurfandi fyrir sérkennslugögn í sama skilningi og hinn hópurinn. Þetta er e.t.v. ekki alveg hægt að fullyrða, en engu að síður er þó ljóst að sérkennslugögn þarf fyrir hluta þess hóps.

Víst er um það að þörfin er mikil. Hv. 2. landsk. þm. beindi til mín tveimur spurningum öðrum, annars vegar um það hvenær vænta mætti álits frá nefndinni sem kannar fjárþörf Námsgagnastofnunar. Þessi nefnd hefur nýlega skilað áfangaskýrslu en er enn að störfum og ég hygg að þess verði ekki mjög langt að bíða að hún ljúki alveg störfum. Ég tel að hún hafi þegar unnið mjög mikilsvert starf og ef haldið verður áfram með sama hætti geri ég ráð fyrir að tillögur nefndarinnar verði mjög gagnlegar.

Í öðru lagi bar hv. þm. fram spurningu um afstöðu mína til sérstakrar tillögu nefndarinnar sem stofnuð var um sérkennslugögn, sérstakrar tillögu um sjóðsstofnun. Þeirri spurningu get ég ekki svarað á þann veg að ég mæli eindregið með þessari sjóðsstofnun. Ég tel að þá hugmynd sem þarna kemur fram verði að skoða í almennu samhengi við fjármögnun verkefna Námsgagnastofurnar.