24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2291 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Atvinnuleysi er nú meira en nokkru sinni fyrr hér á landi í hálfan annan áratug. Það er talið að um 4000 manns hafi verið á atvinnuleysisskrá í þessum mánuði þegar mest var en meðaltal mánaðarins er eitthvað talsvert á fjórða þúsund manns skv. upplýsingum sem ég fékk í dag hjá vinnumáladeild félmrn. Í sumum byggðarlögum er hér um að ræða stórfellt vandamál sem nær inn á nærri hvert heimili og yfirleitt er atvinnuleysisstigið í landinu tvöfalt á við það sem mest hefur verið áður á liðnum árum. Meginástæðurnar fyrir þessu atvinnuleysi eru ljósar. Annars vegar er um að ræða ytri áföll sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir en hins vegar er um að ræða afleiðingar stjórnarstefnunnar.

Eins og kunnugt er var ríkisstj. mynduð að sögn til þess að treysta atvinnuöryggið og sú gífurlega kjaraskerðing sem hefur átt sér stað hefur verið rökstudd með því að nauðsynlegt væri að halda fullri atvinnu í landinu. Kauplækkunin er nú orðin um þriðjungur á mjög skömmum tíma og spáð er áframhaldandi skerðingu launa á þessu ári um 8–10%. Þrátt fyrir þessa kauplækkun blasa atvinnuleysistölurnar við með þeim hætti sem ég hef hér lýst.

Þegar þjóðarbúið verður fyrir ytri áföllum og samdrætti í þjóðartekjum er ekkert fráleitara en að beita samhliða niðurskurðar- og kreppuráðstöfunum eins og núv. ríkisstj. hefur gert. Auk þessa hefur ríkisstj. lagt sérstaka áherslu á það að opinberir aðilar dragi sig út úr atvinnulífinu. Þannig beitir ríkisstj. aðferðum sem eru í grundvallaratriðum rangar með tilliti til þess vandamáls sem hér er á ferðinni. Nú væri þvert á móti ástæða til þess að beita framsækinni atvinnustefnu sem hefur það að markmiði að tryggja fulla atvinnu.

Fyrrv. ríkisstj. hélt þannig á málum að full atvinna var efst á blaði. Urðu önnur markmið efnahagsmála iðulega að víkja fyrir þessu aðalatriði og fyrir það guldu fyrrv. stjórnarflokkar í síðustu kosningum nokkuð. Ég tel engu að síður að þetta forgangsmarkmið hafi verið rétt vegna þess að í vinnunni felst uppspretta þeirra verðmæta sem til skiptanna eru á hverjum tíma í þjóðarbúinu. Í atvinnuleysi felst því veruleg sóun á verðmætum fyrir utan þá fyrirlitningu á mannlegum gildum sem birtast í atvinnuleysi.

Talið er að atvinnuleysi á Íslandi á þessu ári, 1984, muni samsvara því að óbreyttu að um 2400 manns verði atvinnulausir allt árið. Flestir sem ég hef rætt málin við telja þessa tölu stórkostlega vanmetna en hún segir samt nóg því með atvinnuleysi þessa fjölda fólks er bersýnilega verið að kasta á glæ verðmætum sem skipta milljörðum króna á sama tíma og þjóðarbúið hefur orðið fyrir áföllum af öðrum ástæðum.

Ég bendi einnig á að atvinnuleysi er tilfinnanlegra hér á Ístandi en í milljónaþjóðfélögunum vegna þess að hér er hlutur hvers einstaklings stærri en nokkurs staðar annars staðar. Þess vegna er það sárara hér en annars staðar þegar einstaklingnum er vísað á dyr og vinnuframlag hans léttvægt fundið.

Þá má benda á að hér á landi hafa flestir launamenn átt sínar íbúðir. Þeir hafa verið skuldugir en hafa getað borið skuldirnar vegna mikillar atvinnu. Atvinnuleysi þessa fólks hefði því í för með sér eignahrun er fram í sækti. Í atvinnuleysinu felst því sóun á efnislegum og mannlegum verðmætum. Því ber að gera allt sem unnt er til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Þess vegna á að setja sér það markmið nú þegar í upphafi ársins 1984 að beita öllum tiltækum ráðum til að tryggja hér fulla atvinnu þannig að enn um skeið verði Ísland eitt fárra landa þar sem allir hafa vinnu.

Alþb. telur að baráttan fyrir fullri atvinnu eigi að vera forgangsmál næstu mánaða og full atvinna eigi alltaf að vera efst á verkefnalista ríkisstjórna. Alþb. hefur sýnt það með stjórnarþátttöku liðinna ára að flokkurinn tekur þetta grundvallaratriði í efnahagsmálum fram yfir öll önnur.

Það er að vísu ljóst að til þess að tryggja fulla atvinnu verður að skipta um stjórnarstefnu því þegar erfiðleikar steðja að þjóðarbúinu magnar samdráttar- og kreppustefna ytri vandamál þannig að þau geta breyst í órjúfanlegan vítahring. Engu að síður er rétt að snúa sér hér strax á þessum fyrsta starfsdegi þingsins til hæstv. forsrh. og spyrja hann nokkurra spurninga:

1. Hvað hefur ríkisstj. gert til þess að koma í veg fyrir stórfellt atvinnuleysi?

2. Hvað ætlar ríkisstj. að gera frekar í þessum efnum?

3. Hvaða fjármuni er ríkisstj. tilbúin til þess að tryggja í þessu skyni til að skapa fleiri atvinnutækifæri eða störf hér og nú?

Í þessu efni dugir ekki að vísa á störf sem verða til eftir mörg ár, hér þarf aðgerðir strax.

4. Ætlar ríkisstj. að hafa samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um úrlausn atvinnumála? Ef svo er þá hvernig?

5. Ætlar ríkisstj. að hafa samvinnu við stjórnarandstöðuna?

6. Hvaða ráðstafanir hefur ríkisstj. gert til þess að tryggja stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs á þessu ári? Eins og kunnugt er kom fram við afgreiðslu fjárlaga nú í haust að Atvinnuleysistryggingasjóður stendur mjög völtum fótum á þessu ári. A.m.k. 30 millj. kr. vantar upp á greiðslugetu sjóðsins til að hann geti komið á móti því atvinnuleysisstigi sem var í landinu á árinu 1983. Þess vegna er óhjákvæmilegt að ríkisstj. geri sérstakar ráðstafanir til að tryggja stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs og henni er skylt að gera það skv. þeim lögum sem voru afgreidd um Atvinnuleysistryggingasjóð á árinu 1981. Af þeim ástæðum er þessi sjötta og síðasta spurning fram borin.

Ég ætla, herra forseti, ekki að fjalla um atvinnumálin í einstökum atriðum fyrr en ég hef heyrt svör hæstv. forsrh. en ég tel rétt og nauðsynlegt að Alþingi ræði nú þegar þessi mál og taki til þess nokkra daga ef þörf krefur á fyrstu dögum þingsins. Nú kreppir svo að fjárhag alþýðuheimilanna í landinu að ekkert annað verkefni er brýnna hér en að ákveða úrbætur. Jafnframt er nauðsynlegt að gera fólkinu í landinu ljóst að atvinnuleysi er ekki náttúrulögmál og það er mögulegt að snúa þessari öfugþróun við. Vissulega hefur atvinnuleysisvofan verið notuð til þess að undanförnu að hræða fólk frá því að gera kröfur um kauphækkanir. Þess vegna líka er nauðsynlegt að gera fólki nú ljóst að baráttan fyrir fullri atvinnu og kjarabótum í þessu landi, kjarabótum handa láglaunafólki, fer saman. Nú þarf að efla með landsmönnum bjartsýni og víkja frá því svartnætti skammdegisins sem hefur lagst yfir borg og bæ að undanförnu af mannanna völdum vegna þeirrar stjórnarstefnu sem fylgt hefur verið.

Ég hef borið hér fram nokkrar fsp. til hæstv. forsrh. sem hann hefur gengist undir að reyna að svara. Ég vona að þær séu það skýrar að hann treysti sér til að svara þeim hér og nú, enda er hér um að ræða atriði sem hann hefur áður tjáð sig um að nokkru leyti á opinberum vettvangi.