24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að atvinnuleysi er hið versta böl. sömuleiðis vil ég taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að gera ber hvað sem unnt er til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Af þessari ástæðu setur núv. ríkisstj. atvinnuöryggi efst í upptalningu þeirra markmiða sem hún hefur sett sér og fram koma í stefnuyfirlýsingu hennar. Hinu verður þó ekki neitað, að töluvert erfiðara er við að fást nú en var fyrir 1–2 árum.

Í fyrsta lagi verður því alls ekki á móti mælt að það atvinnuástand sem nú ríkir er að langstærstum hluta til orðið vegna erfiðleika í sjávarútvegi. Ég viðurkenni að samdráttur í opinberum framkvæmdum mun hafa einhver áhrif, það hefur mönnum ætíð verið ljóst. Staða ríkissjóðs er hins vegar sú, að ekki var um annað að ræða en að draga nokkuð úr fjárfestingu. En að mati þeirra sem um þessi mál fjalla er langmikilvægasti þátturinn vegna erfiðleika í sjávarútvegi. Þar hefur orðið gífurlegur samdráttur í þorskafla, úr 450 þús. tonnum fyrir tveimur árum niður í það sem nú er áætlað, 220 þús. tonn á árinu 1984. Öllum hlýtur að vera ljóst að slíkur samdráttur mun leiða til þess að minni atvinna verður við sjávarsíðuna. Það þarf einfaldlega færri vinnustundir til að vinna 220 þús. lestir af þorski heldur en 450, eða tæplega 300 eins og þorskaflinn varð á síðasta ári. Spurningin er því sú: Hvernig verður þessu áfalli dreift þannig að samdráttur í atvinnu verði sem allra minnstur?

Ríkisstj. hefur að sjálfsögðu iðulega fjallað um þessi mál og ákvað þegar í upphafi síns starfsferils að efla vinnumálaskrifstofu félmrn. þannig, að ekki yrðu aðeins birtar skýrslur þaðan um atvinnuástand í mánuði hverjum heldur einnig gerð ítarleg tilraun til að fylgjast með horfum á þessu sviði. Þess vegna sendi skrifstofan þegar á s.l. hausti út eyðublöð með spurningum til atvinnurekenda og sömuleiðis til sveitarfélaga og hefur óskað eftir og fylgt því vandlega eftir að fá upplýsingar um horfur í atvinnumálum bæði hjá atvinnuvegunum og hjá sveitarfélögunum. Svör hafa borist allvel frá atvinnuvegum en hins vegar nokkuð takmarkað frá sveitarfélögum. Það háir mjög í þessu sambandi að enn ríkir óvissa um það hvernig sjávarútvegurinn verður stundaður á næstu mánuðum, hvaða reglur þar muni gilda, en það mun vissulega hafa mikil áhrif á rekstur útgerðar, alveg sérstaklega togaraútgerðar.

Ég þarf ekki að fara hér mörgum orðum um atvinnuástandið á síðasta ári. Ég minni aðeins á það, að að mati atvinnumáladeildarinnar er talið að atvinnuleysi á síðasta ári hafi orðið um 1%, en var að meðaltali 1970–1982 um 0.5% af mannafla, og um 0.7% á árinu 1982. Þetta er aukning en þó leyfi ég mér að fullyrða að þessi aukning er minni en margir spáðu eins og vel má sjá í umræðum í fjölmiðlum um þau efni s.l. sumar.

Það er margt mjög athyglisvert í þessum upplýsingum sem vert er að skoða. Ég skal þó ekki eyða miklum tíma til að líta á það hér og nú. Þó vil ég nefna að það er áberandi að staðir eins og Reykjavík, Akranes, Akureyri og Selfoss skáru sig úr hvað atvinnuástand snertir á s.l. ári og voru með mun meira skráð atvinnuleysi á öllum mánuðum ársins en venja er til. Það er líka athyglisvert að í sumum greinum virðist eftirspurn eftir vinnuafli hafa dregist miklu meira saman á vissum svæðum landsins en áður hefur verið, t.d. í byggingariðnaðinum. Virðist svo sem mettun íbúðarmarkaðarins og reyndar lítil sem engin fólksfjölgun á sumum landsvæðum ráði þar mjög miklu um.

En fyrst og fremst vil ég fjalla hér nokkuð um horfur á fyrsta ársfjórðungi 1984. Þegar þau svör eru metin sem inn hafa borist er ljóst að atvinnustig verður nokkru lægra á þessum ársfjórðungi en á fyrsta ársfjórðungi ársins 1983. Hv. fyrirspyrjandi nefndi hér áðan að áætlað væri að 4000 manns yrðu atvinnulausir á þessum fyrsta ársfjórðungi. Í þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá atvinnumáladeildinni, vinnumálaskrifstofunni, er talið að það geti orðið 3000–4000 manns. Endanleg niðurstaða liggur þó alls ekki fyrir. Í þeim upplýsingum sem ég hef fyrir framan mig segir hér, með leyfi forseta:

„Þetta ræðst þó vitaskuld endanlega af því hvenær fiskveiðar, sérstaklega togaranna, hefjast almennt, svo og af gæftum og afla sem hvort tveggja hefur verið með lakara móti frá áramótum. Þá er þess að gæta, að veðrátta í janúar hefur verið þannig að mjög hefur háð útivinnu svo sem í byggingariðnaði.“

Ég held reyndar að þessi ástæða sé svo yfirgnæfandi í því mati sem hér kemur fram að það sé ákaflega erfitt að gera sér fulla grein fyrir því hvernig atvinnuástand muni verða fyrr en séð er hvenær togarar hefja veiðar. Væntanlega verður það mjög fljótlega.

Hér segir jafnframt að enda þótt veiðar hæfust með eðlilegum hætti nú í lok janúar sýni reynslan t.d. frá árinu 1982 að atvinnuástand komist vart í eðlilegt horf í fiskvinnslu fyrr en í marsmánuði. Niðurstaðan af þessu er því sú, að atvinnuhorfur á fyrsta ársfjórðungi 1984 séu ekki bjartar, sérstaklega að því er fiskveiðar og vinnslu snertir.

Hér kemur einnig fram mat á ýmsum atvinnugreinum og skal ég hlaupa yfir það. Um verksmiðjuiðnaðinn segir að í heild séu rekstrarskilyrði þar talin góð og er ekki spáð samdrætti á næstunni. Þvert á móti er vitað um aukningu atvinnutækifæra, t.d. hjá Álafossi og verksmiðjum SÍS á Akureyri, vegna aukins útflutnings. Erfiðleikar í þessari grein eru einkum tengdir innréttingasmíði og er nefnt sem dæmi fyrirtækið Hagi hf. á Akureyri, sem sagt hefur upp öllu starfsfólki sínu, þótt ekki liggi ljóst fyrir hvort fyrirtækið stöðvist.

En þegar á heildina er litið verður að telja atvinnuhorfur tiltölulega góðar í verksmiðjuiðnaðinum, enda eru sveiflur þar jafnan hægar og eiga sér langan aðdraganda.

Um byggingariðnaðinn segir að á síðasta ári virðist hafa orðið sú breyting hvað þessa starfsgrein snertir að eftirspurnin, sem áður var meiri úti á landi, hafi flust til höfuðborgarsvæðisins. Svo sem jafnan áður dró þó verulega úr þeirri þenslu síðustu tvo mánuði ársins, án þess að um atvinnuleysi væri þó að ræða að marki. Horfur á 1. ársfjórðungi ættu að vera þokkalegar á höfuðborgarsvæðinu ef veðurfar ekki hamlar, en utan þess eru atvinnuhorfur lakari vegna samdráttar í opinberum framkvæmdum og þeim breytingum sem virðast hafa orðið á íbúðabyggingum víða um land nú upp á síðkastið. Þegar á heildina er litið má gera ráð fyrir nokkrum samdrætti í byggingariðnaði á 1. ársfjórðungi þessa árs miðað við sama tíma í fyrra og 3. ársfjórðungi 1983.

Um málm- og skipasmíðaiðnaðinn segir að þar séu atvinnuhorfur alvarlegastar af öðrum greinum fyrir utan fiskveiðar og fiskvinnslu. Sérstaklega er þess getið að horfur séu alvarlegar í skipasmíði. Reyndar mun það ráða mestu um hvernig atvinnuástand verður í málm- og skipasmíðaiðnaðinum. Flestar meiri háttar stöðvar eru að ljúka nýsmíðaverkefnum og engin slík eru í sjónmáli af eðlilegum ástæðum eins og ástatt er í útgerðinni. Það hefur leitt til þess að þegar hefur verið gripið til uppsagna hjá Slippstöðinni á Akureyri og alvarlega horfir á Akranesi og í Stykkishólmi, sem reyndar hjá flestum stöðvum. Um þetta hefur ríkisstj. sérstaklega fjallað og mun ég koma að því hér á eftir.

Í niðurstöðum um þessa grein er vakin athygli á því að atvinnuhorfur ráðist í heild að mestu af því hver þróun verður í útgerð og fiskvinnslu. Takist ekki að tryggja áframhaldandi rekstur skipasmíðastöðva á landinu má gera ráð fyrir verulegum samdrætti atvinnu í þessari starfsgrein þegar á 1. ársfjórðungi ársins.

Frá verslun hafa ekki mikil svör borist, en það sem hefur borist bendir til þess að um nokkurn samdrátt sé að ræða og verslunarfólk er á atvinnuleysisskrá. Sérstaklega var svo á 1. og 3. fjórðungi sl. árs og gera má ráð fyrir svipuðu atvinnustigi á þessu ári.

Um bókagerð og prentun er einnig fjallað. Þessi atvinnugrein hefur tekið hvað mestum tæknilegum breytingum hér á landi síðustu ár. Fram til þessa hafa þær þó ekki leitt til minnkandi mannafla í greininni, fyrst og fremst vegna þess að ýmis verkefni sem áður voru unnin erlendis hafa verið flutt inn í landið. Síðustu mánuði hefur þó gætt nokkurs samdráttar vegna færri prentverka, sem talið er afleiðing almenns samdráttar og minni bóksölu. Gert er ráð fyrir að þessi samdráttur segi enn til sín á 1. ársfjórðungi 1984.

Ég læt þetta nægja sem almennar upplýsingar. Ríkisstj. hefur að sjálfsögðu fjallað um þessi mál. Ég gat þess áðan að hún ákvað þegar í upphafi að efla umrædda skrifstofu, en ríkisstj. hefur nýlega samþykkt ályktun, sem ég ætla að leyfa mér að lesa, um skipun atvinnumálanefndar. Ályktun þessi var samþykkt 10. janúar s.l.:

Ríkisstj. samþykkir að setja á fót sérstaka atvinnumálanefnd. Verkefni nefndarinnar verði að gera tillögur um aðgerðir í atvinnumálum, m.a. þar sem atvinnuleysi skapast vegna erfiðleika í sjávarútvegi. Áhersla verði lögð á arðsemi slíkra aðgerða og hliðsjón höfð af ályktunum ASÍ og BSRB frá 10. maí 1983 og VSÍ frá 20. september 1983.“

Í þessari samþykkt er jafnframt gert ráð fyrir að fulltrúa í þessari nefnd eigi ríkisstj., ASÍ, VSÍ, VMS og Farmanna- og fiskimannasamband Íslands. Um þessa ályktun hefur verið fjallað við forustumenn þessara samtaka og er hún til meðferðar á milli þeirra og ríkisstj. og mun m.a. vera rædd í þeim viðræðum sem nú fara fram á milli ASÍ og VSÍ.

Mér þykir einnig rétt að lesa grg. sem þessari till. fylgdi, með leyfi forseta. Þar segir:

Ríkisstj. hefur með víðtækum aðgerðum dregið mjög úr verðbólgu, stuðlað að jafnvægi, treyst undirstöður atvinnulífs og lagt grundvöll að sparnaði. Sá mikli aflasamdráttur sem fyrirsjáanlegur er á þessu ári mun hins vegar auka þann vanda sem við er að glíma, m.a. draga úr atvinnu og rýra þjóðartekjur. Ríkisstj. leggur áherslu á atvinnuöryggi og vill því mæta þessum erfiðleikum með markvissum aðgerðum í atvinnumálum. Jafnframt, til þess að varanlegur árangur verði af því sem þegar hefur unnist í efnahagsmálum og til þess að hagvöxtur fari vaxandi á ný, verða að eiga sér stað margvíslegar breytingar í atvinnumálum.

Stærstu heildarsamtök á vinnumarkaðnum hafa einnig með ályktunum og samþykktum á síðasta ári lagt áherslu á nýsköpun arðbærrar atvinnustarfsemi til að koma í veg fyrir atvinnuleysi og ná árangri í baráttunni við verðbólguna. Um þessar aðgerðir, bæði til þess að treysta atvinnuöryggi nú og stuðla að nýsköpun í atvinnumálum, er nauðsynlegt að náist breið samstaða. Því er lagt til að skipuð verði atvinnumálanefnd með fulltrúum ríkisstj. og helstu hagsmunaaðila í atvinnulífinu. Gert er ráð fyrir að nefndin geri tillögur til ríkisstj. um aðgerðir þar sem atvinnuleysi skapast, en nauðsynlegt er hins vegar að slíkar aðgerðir falli inn í þá framtíðarþróun atvinnumála sem að er stefnt.“

Ríkisstj. hefur einnig sérstaklega fjallað um vanda skipaiðnaðarins. Hæstv. iðnrh. skipaði þegar 3. ágúst s.l. nefnd til að skoða þar ástand og horfur. Sú nefnd skilaði iðnrh. till. sem hafa verið til meðferðar í ríkisstj. og leyfi ég mér, enn með leyfi forseta, að lesa meginefni till. sem nefndin skilaði af sér:

„Nefndin leggur til að ríkisstj. afli heimildar til sérstakrar 150 millj. kr. erlendrar lántöku er varið verði til meiri háttar viðgerðar og endurbóta á fiskveiðiskipum. Jafnframt verði aflað heimildar til að veita 80% sjálfskuldarábyrgð Ríkisábyrgðarsjóðs vegna þessara lána.

Í allítarlegu áliti nefndarinnar yfir stöðu hinna ýmsu skipasmíðastöðva kemur fram að hún telur að með þessum aðgerðum megi tryggja skipasmíðastöðvunum viðunandi viðgerðarverkefni á árinu sem nú er hafið. Ljóst er að viðgerðarverkefni í þágu útgerðarinnar fara mjög vaxandi. Togararnir nálgast nú hver af öðrum 12 ára klössun og sú klössun er viðamikil og kostnaðarsöm.

1. spurningin var: Hvað hefur ríkisstj. gert til að koma í veg fyrir stórfellt atvinnuleysi? — Ég hef gert grein fyrir því sem ríkisstj. hefur þegar gert í þeim efnum.

2. spurningin er: Hvað ætlar ríkisstj. að gera í þessum efnum? — Þá skilst mér að spurt sé hvað hún ætli að gera frekar í þessum efnum.

Í fyrsta lagi mun ríkisstj. leggja á það áherslu að sú nefnd sem nú er fjallað um við aðila vinnumarkaðarins verði sett á fót. Ég geri ráð fyrir að sú nefnd taki til meðferðar atvinnuástand hvar sem atvinnuöryggi er talið stefnt í hættu og muni þá fjalla um bæði staðbundnar aðgerðir til að bæta atvinnuástand á slíkum stöðum og gera tillögur til ríkisstj. um heildaraðgerðir í þessu sviði. Í mjög mörgum tilfellum geta tiltölulega einfaldar staðbundnar aðgerðir dregið úr atvinnuleysi, en það er mjög breytilegt frá einum stað til annars. T.d. þar sem skipasmíðaiðnaðurinn vegur þungt getur aðstoð við þann iðnað dregið úr atvinnuleysi þótt ekki sé svo á öðrum stöðum. Ríkisstj. mun síðan jafnframt fjalla um þá till. sem hefur komið fram og ég hef lesið um skipasmíðaiðnaðinn. Nauðsynlegt er að það verði gert í tengslum við þær aðrar erlendar lántökur sem um er fjallað í lánsfjárlögum og fjallað hefur verið um í tengslum við fjárlögin. Ég vek athygli á að þar er okkur þrengri stakkur sniðinn en áður hefur verið.

Svo segir í þriðja lagi: Hvaða fjármuni er ríkisstj. tilbúin að tryggja í því skyni að skapa fleiri atvinnutækifæri hér og nú? Í þessu efni dugir ekki að vísa á störf sem verða til eftir mörg ár. Hér þarf aðgerðir strax.

Ég hef að hluta svarað þessu. Ríkisstj. mun fjalla mikið um atvinnumálin á næstu vikum og eflaust mánuðum, en ég vek athygli á því, sem ég sagði og er raunar að hluta svar við fyrri spurningu því að þessar spurningar tengjast mjög, að erlendum lántökum eru því miður miklu meiri takmörk sett nú en áður var. Erlend lán þjóðarbúsins eru nú rétt innan við 60% þjóðarframleiðslunnar. Erlendar skuldir voru um síðustu áramót um 48% þjóðarframleiðslunnar. Ef ég man rétt voru þær í byrjun ársins 1982 um 32% þjóðarframleiðslunnar. Þær jukust mjög mikið 1982–1983, m.a. vegna viðleitni fyrri ríkisstj. til að halda atvinnuástandi viðunandi með mikilli erlendri lántöku. Við Íslendingar hljótum sannarlega að spyrja okkur sjálfa að því: Hve lengi getum við haldið áfram á þeirri braut? Þess vegna verður að meta hvert tilfelli stórum betur nú en menn e.t.v. töldu nauðsynlegt áður. Við berum nú, að dómi erlendra aðila, mestar skuldir sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Ég vil hins vegar taka það fram að ég tel alls ekki útilokað að skoða erlendar lántökur þegar með því móti má koma í veg fyrir alvarlegt atvinnuleysi, en legg áherslu á að það verður að metast í hverju einstöku tilfelli. Ég tel atvinnuástand nánast einu afsökunina fyrir meiri erlendri lántöku.

4. spurningin: Ætlar ríkisstj. að hafa samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um úrlausn atvinnumála? Ef svo er, þá hvernig?

Ég hef þegar lýst þeirri till. sem ég flutti ríkisstj. 10. þ.m. og samþykkt var þá.

Og enn er spurt: Ætlar ríkisstj. að hafa samvinnu við stjórnarandstöðuna? Ríkisstj. er fús til að hafa samvinnu við stjórnarandstöðuna um þessi mál og skal ég sjá til að svo verði.

Þá er lokaspurning: Hvaða ráðstafanir hefur ríkisstj. gert til að tryggja stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs á þessu ári?

Ríkisstj. hefur að sjálfsögðu fengið skýrslu um stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs og hvert stefnir með þá stöðu við það atvinnuástand sem nú er og mun að sjálfsögðu standa við þær skuldbindingar sem á ríkisstj. hvíla í þessu sambandi. Ríkisstj. hefur ekki enn fjallað um ákveðna fjáröflun í þessu skyni, en það mun verða gert ef fjármagn skortir, sem allt bendir til eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda.

Ég vona svo að ég hafi svarað spurningum hv. fyrirspyrjanda og vil ljúka þessu með því að undirstrika það, sem ég sagði reyndar í upphafi míns máls. Ríkisstj. lítur atvinnuleysi mjög alvarlegum augum eins og kemur fram í stefnuyfirlýsingu hennar og er ákveðin í því að gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja atvinnuöryggi, en ég verð jafnframt að leggja áherslu á hve svigrúm þjóðarinnar er miklu minna nú en það var fyrir einu og tveimur árum til að halda uppi atvinnu með erlendri lántöku. Við verðum þess vegna að kappkosta aðrar leiðir og grípa til erlendrar lántöku eingöngu í neyðartilfellum og þá meta mjög vel hvert tilefni. Þótt erfitt sé að grípa til erlendrar lántöku vil ég jafnframt leggja áherslu á að slíkt kemur til greina ef atvinnuástand krefst þess og aðrar leiðir eru ekki finnanlegar.