24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann hefur hér gefið. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þau benda til þess, að ríkisstj. hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað alvarlegt mál er hér á ferðinni. Það kom ekkert það fram í máli hæstv. forsrh. sem benti til þess, að ríkisstj. ætlaði sér að taka þessi mál föstum tökum og gera ráðstafanir til þess hér og nú að tryggja fólki í landinu störf. Hér dugir auðvitað hvorki að vísa á nefndir, hugmyndabanka eða nál. og plögg. Hér dugir auðvitað ekkert annað en það, að menn taki til höndum og skrái þau atvinnutækifæri sem möguleiki er á að skapa strax og það verði gengið í það með markvissri vinnumiðlun, í samvinnu aðila vinnumarkaðarins m.a., að tryggja það að fólk fái hér vinnu í landinu.

Ég bar fram fyrir hæstv. forsrh. sex spurningar. Sú fyrsta var sú: Hvað hefur ríkisstj. gert til þess að koma í veg fyrir stórfellt atvinnuleysi? Svarið var: Efla vinnumálaskrifstofu félmrn. Og í hverju er þessi efling fólgin? Hún er sú að ráða einn mann til starfa á vinnumálaskrifstofu félmrn. Það er það sem þegar hefur verið gert í þessu efni. Það eru mikil afrek sem honum eru ættuð, þessum manni, sem á að leysa þessi stórkostlegu vandamál, og væri fróðlegt að vita í hvaða stjórnmálaflokki hann er.

Í öðru lagi spurði ég: Hvað ættar ríkisstj. að gera í þessum efnum? Svarið var: Ríkisstj. ætlar að skipa nefnd. Áður hafa nú ríkisstjórnir skipað nefndir án þess að það hafi heyrt til stórkostlegra fríðinda eða menn talið að með því væri fundin lausn á helstu vandamálum þjóðarinnar, eins og þau liggja hér fyrir.

Í þriðja lagi spurði ég: Hvaða fjármuni er ríkisstj. tilbúin til að tryggja í þessu skyni? Svarið var: 150 millj. kr. erlent lán í skipaviðgerðir. Það eru þeir fjármunir sem hér á að tryggja. Ríkisstj., sem ætlaði að stöðva erlendar lántökur og ætlaði að koma atvinnuvegunum á rekstrargrundvöll, hún er núna búin að finna þetta fangaráð, að útvega 150 millj. kr. í skipaviðgerðir. Það var svarið.

Og svo var spurt: Ætlar ríkisstj. að hafa samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um úrlausn atvinnumála, og ef svo er þá hvernig? Því var svarað af hæstv. forsrh. með því að hann las upp samþykkt ríkisstj. frá 10. jan. s.l. En það kom einnig fram í hans máli að engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja slíkri nefnd nokkurn starfsgrundvöll, engar ráðstafanir. Eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason benti á hér áðan á hún enga fjármuni að hafa til starfsins.

Ég minni á það, að árið 1969 var um að ræða mjög svipað atvinnuleysi hér í landinu og nú er, raunar heldur meira. Þá gerðist það, að skipaðar voru atvinnumálanefndir, ein fyrir hvert kjördæmi, ef ég man rétt, og þessar nefndir fengu fjármuni, sem mig minnir að hafi verið 300–400 millj. kr., ef ég man rétt pappíra sem ég hef flett nýlega í þessum efnum. Þessar nefndir áttu að ákveða hvernig þessir fjármunir yrðu notaðir til að tryggja vinnu, til að sjá til þess að fyrirtæki, sem stæðu höllum fæti, væru völt, gætu starfað áfram og þar yrði áfram um að ræða atvinnu. Þessar nefndir voru stofnaðar með tilkynningu frá þáv. ríkisstj. sem birt var í jan. 1969. Þar getur núv. hæstv. forsrh. kynnt sér hvernig þessu var háttað. Þar var gert ráð fyrir því að þessar nefndir hefðu eitthvert vald, hefðu einhverja möguleika til að gera nokkuð sem máli skipti, en væru ekki bara bókhaldsnefndir, skráningarnefndir og hugmyndabankar eða hugmyndasparisjóðir til þess að benda á einhver úrlausnarefni í þessum efnum. Auðvitað verður að tryggja það, ef slíkar nefndir eiga að hafa einhvern tilgang, að þær hafi fjármuni til þess að benda á, þannig að unnt sé að leysa málefnin.

Ég tel þess vegna, herra forseti, að því miður hafi þessi fsp., sem ég bar hér fram áðan, sýnt fram á það, að ríkisstj. hefur enga grein gert sér fyrir því hvað hér er alvarlegt vandamál á ferðinni. Hún hefur ekki tekið þannig til hendinni að ástæða sé til þess að þakka fyrir það sérstaklega. Þvert á móti sýnist mér að það sé full ástæða til að ætla að það verði að verja til þess mörgum dögum á fyrstu starfsdögum þingsins að reka á eftir stjórninni og gera henni grein fyrir því hvað til hennar friðar heyrir í því að tryggja atvinnu í landinu. Atvinnuöryggið er efst á okkar lista, segir hæstv. forsrh. Ja, það er nú meiri árangurinn af því að hafa það efst á listanum. 4000 atvinnulausir skráðir í janúar á þessu fyrsta heila starfsári núverandi ríkisstj. Auðvitað er það svo, að talsverður hluti af þessum atvinnuvandamálum á rætur að rekja til ytri áfatla þjóðarbúsins. En hér er einnig um það að ræða, að samdráttar- og niðurskurðarstefna ríkisstj. hefur komið þannig niður á fólki, að í rauninni má segja að mjög verulegur hluti þessa atvinnuvanda eigi beinlínis rætur að rekja til stjórnarstefnunnar sjálfrar.

Hæstv. forsrh. bendir á það í máli sínu hér áðan að hérna séu þetta kannske fyrst og fremst erfiðleikar í sjávarútvegi sem við sé að glíma, það sé aflasamdráttur. Hvernig horfa þau mál nú við? Hvernig lítur það út þegar skoðaður er afli og rekstrargrundvöllur togaranna? Ef við lítum á þá 83 minni togara sem gerðir eru út í landinu og lítum á afkomu þeirra samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar, hvort sem um er að ræða greiðsluafkomu eða rekstrarafkomu, þá kemur í ljós að jafnvel þó að aflasamdrátturinn á árinu 1984 sé allur tekinn út fyrir sviga og hann leystur með sérstökum ráðstöfunum, þ.e. með því að draga úr sóknarkostnaði, þá vantar samt upp í 21% á það að togararnir hafi viðunandi rekstrarskilyrði. Þannig liggur það mál, eftir að ríkisstjórnin hefur starfað í nokkra mánuði við það höfuðverkefni að eigin sögn að tryggja rekstrarafkomu atvinnuveganna, að þessi meginatvinnutæki þjóðarinnar, minni togarana vantar fimmtung upp á rekstrargrundvöllinn. Og ég er hér að tala um rekstrargrundvöllinn sjálfan, burtséð frá þeim vanda sem auk þess skapast vegna aflaminnkunarinnar. Jafnvel þó að það gerðist að við gætum á þessu ári, 1984, aukið afla togaranna um 10% þá dygði það ekki heldur til að tryggja stöðu þeirra. Hallinn á minni togurunum alls á þessu ári er talinn verða um 250 millj. kr. og um 407 millj. kr. rekstrarhallinn og þó að aflinn ykist um 10% þá segir það ekki nema 250 millj. kr. upp í þetta bil, þannig að enn vantar þarna hátt í 200 millj. kr. til að tryggja rekstur þessara mikilvægu atvinnufyrirtækja. Það dugir því auðvitað ekki fyrir ríkisstj. að vísa í þessum efnum eingöngu á það að samdráttur hafi orðið í afla. Hér er um það að ræða að hún hefur ekkert gert í sambandi við rekstrargrundvöll þessara fyrirtækja. Hún hefur ekki séð neitt annað en að skera niður kaupið. Hún hefur ekki snert á neinu öðru. Þannig liggur þetta dæmi.

Það var fróðlegt að heyra yfirlit hæstv. forsrh. um þróun erlendra skulda að undaförnu. Auðvitað er það svo, að það verður að tryggja að þar sé hið skemmsta gengið. Hitt er hins vegar alveg ljóst, að ríkisstj. hefur í rauninni ekkert gert í þessum efnum heldur til að draga úr greiðslubyrði, til að draga úr þeim skuldabagga sem um er að ræða á baki þjóðarinnar að því er varðar erlendar lántökur. Í ræðu hæstv. forsrh. er svo talað um að auka enn erlendar skuldir með því að taka að láni 150 millj. kr. í skipaviðgerðir.

Af hverju skyldu erlendar skuldir hafa aukist hlutfallslega á s.l. ári? Það er fróðlegt að velta því fyrir sér úr því að hv. þm. Halldór Blöndal er svo vinsamlegur að spyrja mig um það. (HBI: Ég spurði ekki um hlutfallið.) Í þessum efnum hefur Þjóðhagsstofnun birt mjög skýrar niðurstöður þar sem fram kemur að það eru þrjár meginástæður til aukins hlutfalls erlendra skulda á s.l. ári. Það er í fyrsta lagi að viðskiptahallinn á árinu 1983 minnkaði ekkert umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir á miðju árinu, þrátt fyrir ráðstafanir núverandi ríkisstj. Ríkisstj. tókst ekki að draga neitt úr viðskiptahallanum. Í öðru lagi stafar þetta hækkandi hlutfall af því að ríkisstj. lækkaði gengi íslensku krónunnar mjög mikið á árinu, „sem hækkaði skuldirnar í verði miðað við innlenda framleiðslu“, svo ég vitni orðrétt í Þjóðhagsstofnun. Þriðja ástæðan var svo sú, sem innlendir aðilar fá ekkert við ráðið, að veruleg hækkun varð á gengi Bandaríkjadollars. Þetta eru meginskýringarnar á því að erlendar skuldir jukust hlutfallslega á s.l. ári. En ríkisstj. hefur í rauninni ekkert gert til að telja þetta niður, ekki nokkurn skapaðan hlut. Hæstv. fjmrh. rekur nú A-hluta ríkissjóðs í fyrsta sinn með láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það hefur aldrei gerst áður.

Þannig standa þessi mál eftir aðeins nokkurra mánaða stjórn Framsfl. og Sjálfstfl. að atvinnuleysi er meira en það hefur verið í 15 ár, þó að atvinnuöryggi sé efst á blaði, og erlendar skuldir hafa ekkert minnkað. Þvert á móti bendir margt til þess að þær fari yfir 60% af þjóðarframleiðslu á þessu ári. Og þegar spurt er um verðbólguna þá kemur einnig í ljós að opinberir aðilar, t.d. Þjóðhagsstofnun, hafa áhyggjur af því að hún fari stórkostlega vaxandi á þessu ári. Vegna hvers? Vegna þess að opinber þjónustufyrirtæki eru að hækka allar sínar gjaldskrár langt umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir.

Þannig liggja þau þrjú meginviðfangsefni sem ríkisstj. þóttist mynduð til að taka á, atvinnumál, erlend lán og verðbólga, fyrir í byrjun ársins 1984. Það þurfti sem sagt ekki nema örfáa mánuði til þess að það kæmi í ljós frammi fyrir hverjum þeim manni sem heilskyggn er að stefna ríkisstj. tekst ekki að þessu leytinu til, vegna þess að hún hefur auðvitað þegar allt kemur til alls ekki gert nema eitt, og það er að lækka kaupið í landinu. Í því liggja hennar afrek alveg óumdeilanlega. Á öðrum sviðum hefur hún haft uppi fögur fyrirheit. En það er greinilegt að mikið vantar á að það takist að ná þeim markmiðum sem menn hafa í orði kveðnu keppt að. Það er alvarlegur hlutur, en við horfum framan í hann nú, að því miður virðist núverandi ríkisstj. ekki gera sér grein fyrir því hvaða hætta er fólgin í atvinnuleysinu fyrir okkar þjóð og fyrir þá einstaklinga sem verða að sæta þeirri niðurlægingu sem atvinnuleysið er fyrir hvern einasta mann sem þarf að kynnast slíku.