24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2303 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

Umræður utan dagskrár

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Ég hygg að það sé ekki mikill ágreiningur á milli hv. þm. og stjórnmálaflokkanna að hér í þessu landi eigum við að stefna að því að halda uppi fullri atvinnu — ekki bara vegna þess að atvinnuleysi er böl heldur líka vegna þess að við trúum því og vitum að framleiðsla og verðmætasköpun er eina leiðin til að tryggja bætt lífskjör í landinu. Ekki síst þess vegna hlýtur það að vera markmið hverrar ríkisstjórnar að stuðla að og stefna að fullri atvinnu og halda uppi arðbærri atvinnustarfsemi.

Það hefur fátt nýtt komið fram í þessum umr. og fáar nýjar upplýsingar komið fram í máli hv. fyrirspyrjanda, 3. þm. Reykv. Það var alveg ljóst, þegar upplýsingar komu fram um það fyrir jól að við yrðum að sæta verulegum aflatakmörkunum á þessu ári og veiða minni fisk en við höfðum ráðgert, að það kynni að leiða til samdráttar í atvinnu, tímabundins atvinnuleysis. Það kom þegar fram í umr. hér á hv. Alþingi á þeim tíma og síðan hefur verið unnið að margs konar undirbúningi til þess að bregðast við þessum aðstæðum, eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. Maður skyldi hins vegar hafa haldið að það kæmu fram nýjar hugmyndir í máli hv. 3. þm. Reykv. — hugmyndir að því hvernig ætti að bregðast við þessum vanda. Maður skyldi halda að hann hefði til reiðu tillögur til úrbóta í nafni síns flokks. Það kom ekkert slíkt fram í upphafsræðu hans. Í síðari ræðunni kom hann þó með úrlausn Alþb. Hún var sú að hefja markvissa skráningu á þeim störfum sem mögulegt væri að ráða í og standa að öflugri atvinnumiðlun. Það var allt og sumt. Þetta eru úrræði Alþb. Ég er ansi hræddur um að við leysum ekki þetta vandamál með atvinnumiðlun einni saman eða skráningu á störfum sem hugsanlega er hægt að ráða í. Hér eru miklu stærri og viðameiri verkefni sem við þurfum að takast á við.

Því var haldið fram þegar ríkisstj. ákvað efnahagsaðgerðirnar í vor sem leið og því var enn haldið fram þegar umr. fóru fram um þær ráðstafanir á Alþingi fyrr á þessum vetri að þessar ráðstafanir mundu hafa í för með sér víðtækt atvinnuleysi í stað þess að tryggja atvinnu, eins og markmiðið var með þessum aðgerðum. Því var haldið fram að aðgerðirnar mundu hafa slíkan samdrátt í för með sér að innlend verksmiðju- og iðnaðarframleiðsla mundi dragast stórlega saman, að innlend þjónustu- og verslunarstarfsemi mundi dragast stórlega saman og af þessum sökum yrði hér víðtækt atvinnuleysi af völdum ríkisstjórnarstefnunnar. En hvað hefur komið í ljós? Iðnaðurinn hefur sjaldan staðið betur að vígi og flest bendir til þess að það sé heldur aukning í þessum hluta atvinnustarfseminnar en samdráttur. Þjónustustarfsemin virðist standa nokkuð vel að vígi. Allar þessar hrakspár voru því algjörlega út í hött og fyrir þær hefur ekkert verð fengist í búð reynslunnar.

Kjarni málsins er auðvitað sá, að þessi vandi, sem við stöndum nú frammi fyrir og er augljós, að hér er ekki full atvinna, stafar af því að við höfum mætt nýjum erfiðleikum í sjávarútvegi. Við getum ekki aflað eins og við höfðum ráðgert. Þetta eru ástæðurnar fyrir vandanum. Ég geri ekki ráð fyrir því að hv. 3. þm. Reykv. hafi í fórum sínum ráð til að fjölga fiskunum í sjónum eða til að bæta gæftir og auka með því atvinnu. Þetta er vandamálið og þetta er hörð og bitur staðreynd, en við ráðum ekki þessum ytri aðstæðum og verðum þess vegna að bregðast við með öðrum hætti.

Hv. þm. minntist á rekstrarhalla útgerðarinnar. skyldi hann ekki stafa af því að við getum ekki veitt sama magn og áður? Skyldi það ekki hafa nein áhrif á afkomu útgerðarinnar í landinu? Auðvitað er þetta ekki eini vandinn sem við er að etja í þessu efni, en skyldi það ekki líka vera þungur baggi sem útgerðin ber núna, þær klyfjar sem hún ber vegna óðaverðbólgunnar sem hér ríkti? Meginhluti rekstrarvanda útgerðarinnar stafar af verðtryggðum eða gengistryggðum skuldum. Hann stafar af þeirri óðaverðbólgu sem hér ríkti. Ætli það hafi ekki búið í haginn fyrir útgerðina að hér hefur verðbólga lækkað um meira en 100% prósentustig og vextir hafa farið lækkandi? Ætli þetta séu ekki aðgerðir sem leggja nýjan grundvöll til þess að byggja á heilbrigt atvinnulíf og heilbrigðan útgerðarrekstur? Þeir sjáandi sjá ekki, sem viðurkenna ekki þessa staðreynd.

Sannleikurinn er sá, að þær aðgerðir sem gripið var til hér s.l. vor komu í veg fyrir almennt víðtækt atvinnuleysi sem þá blasti við ef ekkert hefði verið að gert. Við stöndum núna frammi fyrir ákveðnum vanda í atvinnumálum, fyrst og fremst vegna breyttra aðstæðna í sjávarútvegi. Það er eðlilegt og sjálfsagt við þessar aðstæður að við freistum þess að ná sem víðtækastri samstöðu um aðgerðir. Við erum sem þjóð í harðri baráttu við sjálfa okkur til þess að vinna bug á mestu meinsemd sem grafið hefur um sig í okkar efnahagslífi. Við höfum náð verulegum árangri í þeim efnum, en það eru miklir erfiðleikar fram undan og það eru erfiðar ákvarðanir fram undan ef við ætlum að gera þennan árangur að varanlegum veruleika í okkar efnahagssögu. Það veltur auðvitað á miklu að við náum um þetta víðtækri samstöðu. Þess vegna hefur verið rætt um og tekin ákvörðun um að leita eftir samvinnu við helstu aðila vinnumarkaðarins um tillögur í þessum efnum. Ég er alveg sannfærður um að með slíku samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins verður hægt að leggja grundvöll að markvissari og meiri uppbyggingu en felst í því að efla hér skráningu og atvinnumiðlun, eins og var eina úrræði hv. 3. þm. Reykv.

Það er að því spurt hvaða fjármuni atvinnumálanefndin eigi að hafa til ráðstöfunar. Ég tel eðlilegt að þessi nefnd meti í upphafi þau verkefni sem við stöndum nú frammi fyrir, hún geri tillögur um í hvaða verkefni þarf að ráðast, hún geri tillögur um það ef nauðsyn er talin til að settar verði upp atvinnumálanefndir í kjördæmunum og á grundvelli þessarar athugunar taki menn ákvarðanir um hvort afla þarf viðbótarfjármagns og með hverjum hætti og í hvað ríkum mæli.

Ég minni á það enn fremur í þessu sambandi að lögð hefur verið á það mjög mikil áhersla af hagsmunaaðilum á vinnumarkaðnum, bæði heildarsamtökum launþega og vinnuveitenda, að uppbygging atvinnulífsins fari fram á grundvelli arðsemissjónarmiða. Nýsköpun arðbærrar atvinnustarfsemi var kjörorðið í ályktunum þessara aðila á síðasta ári. Ég hef ekki orðið var við annað en um þessi sjónarmið væri allvíðtæk samstaða. Þessi nefnd verður auðvitað að gera tillögur út frá því meginsjónarmiði því að launþegar í þessu landi eiga mikið undir því að það fjármagn sem varið er til atvinnustarfseminnar skili sér með sem mestum arði. Þeir eiga reyndar allt undir því að þannig sé staðið að atvinnuuppbyggingunni að fjármagnið skili arði. Undir því eiga launþegar í landinu lífsafkomu sína. Í því eru fólgnir möguleikar okkar til að bæta lífskjörin á nýjan leik. Við verðum því að vanda þessi vinnubrögð. Það er eðlilegt að þessi nefnd, ef við ætlum að ná víðtæku samstarfi, vinni út frá þeim sjónarmiðum sem sett voru fram af hálfu aðila vinnumarkaðarins á s.l. ári.

Svigrúmið sem við höfum til aðgerða er auðvitað takmarkað og minna en oftast nær áður vegna þess að þjóðinni hefur verið steypt í svo mikið skuldafen. Það hefur verið rækilega á það bent í umr. fyrr. 1967 og 1968, þegar þjóðin gekk í gegnum erfiðleika m.a. vegna aflasamdráttar og verðfalls á mörkuðum erlendis, námu heildarskuldir þjóðarinnar í kringum 10% af þjóðarframleiðslunni. Núna nema skuldir 60% af þjóðarframleiðslunni. Auðvitað setur þetta okkur takmörk, en við verðum, ef við ætlum að stuðla hér að heilbrigðri atvinnuuppbyggingu, að vera reiðubúin að takast á við ný verkefni. Við verðum að fara gætilega í því að taka lán við þessar aðstæður, en það kann að vera skynsamlegt ef við erum að leggja út í arðbæra uppbyggingu í atvinnulífinu.

Það komu fram í máli hv. 3. þm. Reykv. miklar efasemdir um að það væri skynsamlegt að afla fjár til að efla skipasmíðaiðnaðinn í landinu. Það voru höfð um það stór orð að hér væri um undanslátt að ræða. Hvernig getur það farið saman að setja hér á stórar og miklar ræður um að ekkert sé verið að gera til þess að bjarga atvinnulífinu og gera svo lítið úr því að menn ræða það í alvöru að afla fjármuna til að verja í því skyni að treysta atvinnulífið á þessu sviði? Það er ekki mikið að marka þennan málflutning. Það er ekki heil brú í þeirri rökvísi sem hann er byggður á.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni.