24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

Umræður utan dagskrár

Árni Johnsen:

Herra forseti. Samkvæmt ræðu hv. 3. þm. Reykv. er það ekki markmið Alþb. að standa að því með ábyrgum aðilum að snúa vörn í sókn, setja á ný hrygg í íslenskt efnahagslíf og atvinnulíf til heilla mannlífi. Meginmarkmiðið sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. er að skapa upplausn, skapa næringu fyrir eigin kropp.

Það er gruggugt að heyra 3. þm. Reykv. halda því fram með alvörusvip að aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálum þýði enga eflingu á atvinnulífi. Aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálum hafa þýtt mikla eflingu og meiri stöðugleika en lengi hefur verið í íslenskum iðnaði og ýmsum greinum þjónustu. Stjórnarstefnan hefur þýtt eflingu í heild. Ekki má síður gleyma mannlega þættinum, bjartsýni fólks á framtíðinni, vegna þess að þótt illa ári í þeim hörðu aðgerðum sem nú eiga sér stað er auðheyrt hvar sem maður hittir hinn almenna borgara í landinu að hann hefur trú á því sem er verið að gera og að þær byrðar sem hann ber muni skila árangri.

Það kom fram í ræðu þm. að fólk væri að missa íbúðir. Eitt dæmi um slíkt er einu dæmi of mikið. En það fólk sem nú berst í bökkum við að halda sínum eignum, yfirleitt ungt fólk sem hefur byggt af kappi, væri búið að missa þær íbúðir sem það nú er þó að berjast við að halda ef ekki hefði verið gripið til þeirra stjórnunaraðgerða sem við lýði eru.

Fram kom í ræðu 3. þm. Reykv. að margt fólk byggi við slæmar aðstæður og það er rétt. Það fólk sem býr við verstar aðstæður í þjóðfélaginu í dag líður þó hvað mest fyrir uppsafnaðan vanda til margra ára vegna sinnuleysis þar sem Alþb. hafði of mikil áhrif. Það er þannig forkastanlegt að þurfa að hlýða á slíkan málflutning hv. þm. sem hefði betur sýnt eitthvað af sér þegar tækifæri var til að leggja til málanna en það hefur gleymst.

Hv. 3. þm. Reykv., Svavar Gestsson, steitir hér görn í málflutningi sínum, tóma görn eigin fátæktar í tillögum varðandi raunhæfar aðgerðir í stjórn landsins. Nær væri hv. þm. að láta af slíku garnagauli og leggja lið þeim sem skilja að samtaka áralag þarf til að komast út úr brimgarðinum.