25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

459. mál, ráðstöfun gengismunar og bætt meðferð sjávarafla

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skildi fsp. hv. þm. Skúla Alexanderssonar þannig að hann ætti sérstaklega við það fjármagn sem hefði verið veitt til þessara hluta og svaraði fsp. með þeim hætti. Hitt er svo annað mál að ég gæti talað hér langt mál um gæði í sjávarútvegi almennt. En ég átti ekki von á því að menn væru tilbúnir að fara út í slíka umr. í fyrirspurnatíma. Ég harma það að menn skuli nota þetta tækifæri til þess að ræða í þeim fón sem hér hefur verið gert og hv. þm. Svavar Gestsson upphóf þegar hann fór að tala um blaðamannafundi. Ég veit ekki til þess að sá þm. hafi nokkurn tíma getað gert nokkurn skapaðan hlut nema með blaðamannafundum. Mér finnst það því koma úr hörðustu átt. Ég veit ekki hvenær þetta frv. var lagt fram eða kynnt blaðamönnum. Það hefur átt sér stað mikil umr. um þessi mál. Ég efndi ekki til blaðamannafundar um það. Hitt er svo annað mál að það er sjálfsagt að efna til umr. um mál í þjóðfélaginu, einnig við blaðamenn. Það er furðulegt að þm. skuli standa hér upp og tala um það í neikvæðum tón, maður sem aldrei getur gert nokkurn hlut öðruvísi en í gegnum blaðamenn.

Ég vildi aðeins bæta við það sem ég sagði hér áðan og harma í leiðinni þann neikvæða tón, sem kom fram hjá fyrirspyrjanda, að láta sem hér sé ekkert verið að gera. Það er full ástæða til að fara yfir og endurskoða altar reglugerðir varðandi meðferð sjávarafla. En það er mikið verk. Ég hef lagt á það áherslu að vinna að þessum verkum í samráði og samvinnu við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Þótt menn hafi mikla trú á einu rn. og einum ráðh. þá er það nú svo að þau eru ekki fá fyrirtækin sem vinna í landinu að meðferð sjávarafla. Þar er saman komin mikil reynsla. Og það er engin leið að vinna þessi mál með jákvæðum hætti nema hafa gott samstarf við þessa aðila. Ég hef lagt mig fram um það.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði hér áðan að fjárfestingarstefnan skiptir þarna miklu máli. Þess vegna hef ég lagt á það áherslu við Fiskveiðasjóð undanfarið að fjárfestingarstefnan á næsta ári miðaðist fyrst og fremst við það að bæta meðferð sjávarafla, ekki síst um borð í skipunum. Við þurfum að fá fjármagn til að gera það. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá fyrirspyrjanda, að það er mikið hægt að gera í bátaflotanum, taka þar upp stóra kassa m.a. — það eru nú kallaðir gámar — og ýmislegt annað og blóðgunarker o.fl. þarf að koma um borð í togarana og aðgerðaraðstaða. Og út á þessa fjárfestingu þarf að lána. Það er ekki gert í nægilega ríkum mæli í dag. En ég vil a.m.k. gjarnan stuðla að því að beina fjármagninu að slíkum aðgerðum.

Eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson gat hér um þá skiptir fiskveiðistefnan einnig mjög miklu máli í þessu sambandi. Það er þegar farið að vinna að undirbúningi fiskveiðistefnu fyrir næsta ár. Það þarf einnig að gerast í samráði við hagsmunaaðila í sjávarútveginum.

Verðlagningin skiptir einnig meginmáli. Ég gat um það að þar er verið að vinna að nýjum hugmyndum. Hins vegar er hér um viðkvæm mál að ræða og ég get ekki rætt þau sérstaklega á þessu stigi. Verðlagningin er samningsmál á milli aðila og þótt rn. hafi þar ýmsar hugmyndir tel ég ekki rétt að ræða þær á þessu stigi.

Herra forseti. Það var beint til mín nýrri fsp. og ég er út af fyrir sig tilbúinn að svara henni en ég veit ekki hvort ég hef tíma til þess. Það er alllangt mál og mikið. Ég hefði því viljað spyrja hæstv. forseta hvort ég geti svarað hinni nýju fsp. sem til mín var beint. Ef ég á að geta það verð ég að fara nokkuð yfir þau tímamörk sem mér eru hér skömmtuð.

(Forseti: Það er gert ráð fyrir því að fsp. séu um afmörkuð efni og menn viti fyrir fram um hvað á að ræða. Það er ekki hægt að taka nýjar fsp. inn innan þeirra marka sem okkur eru sett samkvæmt þingsköpum. Hins vegar koma oft fram fsp. varðandi aðalfyrirspurn málsins og oft er það svo að ráðh. telja sér fært innan venjulegra tímamarka að svara þeim einnig. En þegar þeim er það ekki fært verður að finna önnur ráð. Þá er eðlilegt að bera fram sérstakar fsp. á venjulegan hátt þess efnis.)

Ég þakka þessar upplýsingar, herra forseti. Ég vil ekki að orð mín séu skilin þannig að ég vilji á nokkurn hátt komast hjá því að svara fsp. um þessi mál. Ég tel það mjög mikilvægt að um gæðamálin sé rætt. Hins vegar er það mjög slæmt að menn skuli sjá þarna fjandann í hverju horni, eins og mér fannst koma fram í máli þeirra Alþb.-manna. Hér er mikið verk að vinna. Það á ekki að þurfa að vera ágreiningsmál í þjóðfélaginu hvernig að því er staðið. Það koma fyrir mistök og það má oft standa betur að málum, það er alveg rétt. En að leggja það út á þann hátt að hér sé ekkert að gerast, og vera að reyna að gera starf þeirra manna sem þarna eru að vinna að málum tortryggilegt, það tel ég ekki vera gott innlegg í þetta annars mjög svo mikilvæga mál.