24.01.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2320 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

Umræður utan dagskrár

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. um of, en því er ekki að leyna að síðustu ræður talsmanna Alþb., hv. 7. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv., bera þess merki að síðari hluti þessarar umr. hefur farið fram með miklu meira raunsæi en upphafið. (Gripið fram í.) Þetta kom mjög glöggt fram í hinni hæfilega löngu ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann taldi það hafa verið ósæmilegan útúrsnúning af minni hálfu að tína það eitt til um stefnumið Alþb. í þessum efnum að setja á markvissa atvinnuleysisskráningu og leit að atvinnutækifærum. Þetta var ekki útúrsnúningur af minni hálfu, ég nefndi aðeins það eina dæmi sem hv. þm. nefndi í upphafsræðu sinni.

Í hinni hæfilega löngu ræðu kom hins vegar fram miklu meira raunsæi af hálfu þm. þar sem hann viðurkenndi að hér þyrftu að koma til margþættar ráðstafanir. Það væru engar einfaldar lausnir til og auðvitað er þetta kjarni málsins. Hann nefndi aðgerðir í innflutningsmálum, gera þyrfti sérstakar aðgerðir til þess að afla markaðar fyrir íslenskar vörur erlendis, ef ég hef skilið hann rétt, og margt fleira. Auðvitað er hér vikið að atriðum sem skipta meginmáli.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson fór hringferð í kringum landið og kom víða við í byggðum og nefndi tölur um atvinnuleysi, gerði að vísu ekki samanburð við sams konar skráningu á s.l. ári en ég held að einmitt þessi upptalning hafi kannske sýnt okkur að við þurfum að gera átak í því að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Við þurfum fleiri atvinnutækifæri í iðnaði þar sem við áður höfum fyrst og fremst stundað sjávarútveg eða landbúnað og það er að þessum verkefnum sem við verðum að hyggja.

Ég held hins vegar að við séum ekki ósammála um það að úr þessu leysum við ekki eins og hendi sé veifað. Við höfum verið að leggja grunn að því að hægt sé að takast á við verkefni af þessu tagi. Fyrsta skilyrðið var auðvitað að ná jafnvægi í efnahagsmálum og gera það mögulegt að byggja hér upp atvinnustarfsemi. Það var frumforsenda, að því hefur verið unnið. Menn mega ekki loka augunum fyrir þeirri staðreynd.

Hv. þm. taldi einnig nauðsynlegt að víkja frá arðsemiskröfum vegna skammtímalausna. Í þessum ummælum felst að minni hyggju talsverður undansláttur frá þeirri markvissu og ákveðnu ályktun sem hv. þm. stóð að innan Alþýðusambandsins í vor sem leið þar sem arðsemiskröfurnar voru meginmarkmiðið og höfuðatriðið. Auðvitað ætla ég ekki að útloka að menn víki í einstökum tilvikum slíkum sjónarmiðum til hliðar, en ég held að við þessar ráðstafanir sem við stöndum +frammi fyrir og við það víðtæka samstarf sem við þurfum að ná um þær verði arðsemiskröfurnar að vera leiðarljósið, ella stöndum við e.t.v. frammi fyrir því að skapa hér viðvarandi ástand með of lágum launum. Við bætum ekki lífskjörin í landinu nema með arðsemi atvinnuveganna. Ef við ætlum í of stórum mæli að víkja frá þessum kröfum getum við verið að skapa hér viðvarandi láglaunasvæði og það er ekki það markmið sem við erum að stefna að. Við gætum líka ef við gengjum of langt í þessu skapað okkur meira atvinnuleysi síðar því að með aðgerðum af þessu tagi er yfirleitt tjaldað til einnar nætur.

Hv. þm. minntist einnig á að merkasta framlagið til þessara umr. hefur komið fram á landsfundi Sjálfstfl. undir fyrirsögninni „Fyrir framtíðina“ og minnti á ræðu Ragnars Kjartanssonar í því sambandi. Ég er honum um margt sammála. Þar var minnst á nauðsyn margþættra aðgerða til að efla íslenska framleiðslustarfsemi og markaðssókn fyrir hana erlendis. Allt þetta tekur tíma og undirstaðan er heilbrigður grundvöllur, jafnvægisástand í efnahagsmálum. Það er fyrsta skilyrðið. Þessum markmiðum verður ekki náð með einhverjum skyndilausnum eða undanslætti frá því að atvinnulífið skili arði.

Við höfum verið að vinna að verkefnum. Hér hefur ekki verið minnst á mjög viðamikið verkefni sem þessi ríkisstj. hóf undirbúning að og það eru stóriðjuframkvæmdir. Á því sviði hefur verið unnið mjög markvisst starf og við skulum vona að það geti skilað árangri. Þannig mætti lengi telja. Meginatriðið er að komið hefur fram í síðari hluta þessarar umr. viðurkenning á því af hálfu talsmanna stjórnarandstöðunnar að þetta er miklu viðameira verkefni en svo að hægt sé að leysa það í einu vetfangi. Það sannfærir okkur um það að þau vinnubrögð sem lagður hefur verið grundvöllur að af hálfu ríkisstj. með því að setja á fót atvinnumálanefnd í samráði og samstarfi við aðila vinnumarkaðarins ef þeir eru tilbúnir að takast á við þetta verkefni er skynsamlegur háttur og vænlegastur til að leiða til happadrýgstrar niðurstöðu fyrir fólkið í landinu og þjóðarheildina þegar fram í sækir.