25.01.1984
Efri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

152. mál, skemmtanaskattur

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir lítið frv. um breytingu á lögum nr. 58 frá 1970, um skemmtanaskatt. Í frv. felst einungis að í stað þess að sveitarfélög með færri en 1500 íbúa séu undanþegin skemmtanaskatti að því er kvikmyndasýningar varðar nái þessi undanþága til sveitarfélaga með færri en 2500 íbúa.

Þeir staðir sem hér kæmu til greina eru ekki margir. Þeir sem bætast við þá sem nú þegar njóta slíkrar undanþágu eru þessir: Borgarnes sem í raun og veru hefur verið undanþegin fram til þessa og auk þess Sauðárkrókur, Siglufjörður og Neskaupstaður.

Tilgangurinn með þessu frv. er að gera rekstur kvikmyndahúsa á þessum stöðum auðveldari en nú. Hann hefur barist í bökkum, einkum eftir að samkeppnin við sjónvarpið kom til. Þegar þetta kemur til og svo hitt, að kvikmyndasýningar eru enn sem fyrr helsta skemmtun æskufólks á þessum stöðum sem víðar, þykir ástæða til að breyta þessu ákvæði laganna.

Þær fjárhagslegu afleiðingar sem þetta fæli í sér væru skv. upplýsingum ríkisbókhalds að 116 482 kr., sem komu inn af skemmtanaskatti og voru að mestu leyti af kvikmyndasýningum á þessum stöðum, rynnu ekki í þá sjóði sem lögin fjalla um. Stærri er nú þessi breyting ekki. Ég leyfi mér að vona að hv. þingdeild geti fallist á þetta frv. Ég vil geta þess um leið að núgildandi lög um skemmtanaskatt eru í heildarendurskoðun í þeim tilgangi að einfalda álagningu og innheimtu skattsins.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. menntmn. og 2. umr.