25.01.1984
Efri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

152. mál, skemmtanaskattur

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins svara spurningum hv. 6. landsk. þm. Fyrst var spurt hvernig viðmiðunin væri til komin, af hverju þessir tilteknu staðir yrðu undanþegnir skv. frv. Ástæðan er sú að hér er öðrum þræði um byggðamál að ræða. Hér er í flestum tilvikum um að ræða staði sem eru nokkuð einangraðir. Allir staðir sem eru með 2500 íbúa eða fleiri eru hér á suðvesturhorninu sem við hv. þm. eru þm. fyrir og/eða af Suðurlandi þannig að að því leyti er þarna röksemd fyrir því að gera þessa breytingu sem fyrst.

Að því er varðar gjöld af kvikmyndum almennt vil ég draga það fram hér, sem ég vænti að hv. þdm. sé flestum kunnugt, að skemmtanaskatturinn er 15% brúttó af kvikmyndum en söluskattur 19.3% af brúttóverði aðgöngumiðanna. Við þetta bætist 1.5% menningarsjóðsgjald, en þegar skemmtanaskatturinn er felldur niður er það jafnframt fellt niður líka, þannig að meginþátturinn í hinum opinberu gjöldum er söluskatturinn.

Hitt er svo annað atriði sem hefur mikil áhrif á stöðu kvikmyndahúsa eða ég vænti þess að muni geta haft mikil áhrif á stöðu þeirra og varðar einmitt það sem hv. þm. vék að um myndböndin og flutning efnis sem sýnt hefur verið í kvikmyndahúsum af myndböndum á þann veg sem hann nefndi sjóræningjastarfsemi. Án þess að ég fullyrði nokkuð um þá starfsemi er svo mikið a.m.k. ljóst að nái höfundalagafrv. það sem hér liggur fyrir hv. Alþingi fram að ganga mun staða kvikmyndahúsa, sem rétt hafa á því efni er flutt hefur verið þar, batna að þessu leyti til svo að ég vænti að það mál hafi áhrif á stöðu kvikmyndahúsa einnig. Ég vil ekki lengja þessar umr. að öðru leyti, frú forseti, en ég vænti þess að fleiri þm. hafi kvatt sér hljóðs.