25.01.1984
Efri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2324 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

152. mál, skemmtanaskattur

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs einungis til að fagna þessu frv. Það er ekki veigamikið, en hitt er ekki rétt sem hv. 6. landsk. þm. sagði að þarna væri verið að taka upp smáskammtalækningar. Ég held að hann hafi orðað það eitthvað svo. Það er kannske frekar verið að rýmka eitthvað um þessar smáskammtalækningar með því að færa þetta þó til fjölmennari staða. Ég tek undir mjög margt af því sem þm. sagði í sambandi við kvikmyndahúsarekstur að hann á mjög í vök að verjast, m.a. vegna þessarar vídeóvæðingar sem kölluð er, en hann átti nú raunar í vök að verjast, eða a.m.k. þau kvikmyndahús sem rekin eru af einkaaðilum, áður en þetta gerðist. Þessi skattlagning á kvikmyndahúsin er að mínu mati alveg óeðlileg eins og þm. sagði svo að við erum nú, held ég, nokkuð sammála í þessu efni.

En hæstv. menntmrh. sagði áðan að þetta mál væri allt í endurskoðun. Ég hygg að samþykkt þessa frv. mundi einmitt greiða fyrir því að skoðað yrði nánar hvernig ástandið er hjá öðrum. Þarna er um að ræða örfáa staði þar sem kvikmyndahúsarekstur að líkindum mundi leggjast niður ef þetta frv. ekki yrði samþ. Ég þekki a.m.k. til þess að rekstur gengur þannig á þessum stöðum að um verulegt tap er að ræða. Þetta er þó ein af þeim fáu skemmtunum sem fólkið getur sótt sem menningarlegar verða að kallast og sérstaklega æskulýðurinn. Hann hefur þá í eitthvert hús að venda annað en danshús þó að þau geti verið góð svo langt sem þau ná. En ég held að það væri mikil afturför ef kvikmyndahúsarekstur á landsbyggðinni legðist meira og minna niður. Eins og ég sagði: þó að þetta sé lítið mál er það þess vert að við reynum að afgreiða það og helst í einingu sem allra fyrst.