25.10.1983
Sameinað þing: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

451. mál, starfsemi Íslenskra aðalverktaka

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. félmrh. um jafnréttislög. Fsp. hljóðar svo:

„Hyggst ríkisstj. leggja fram og fá afgreiðslu á þessu þingi á tillögum um breytingu á jafnréttislögum sem unnar voru í tíð ríkisstj. Gunnars Thoroddsens?“

Ég tek eftir því, herra forseti, að á málalista ríkisstj., þar sem greint er frá þeim mátum sem hugmyndir eru uppi um að flytja á þessu þingi, er frv. um breytingu á jafnréttislögum. Á þessum lista eru í kringum 100 mál. Verður fróðlegt að sjá hvernig þingstörfin ganga við að koma þeim verkum öllum frá hér í vetur. Ekki er ljóst af þessum lista hæstv. ríkisstj., sem er undirbúinn af hæstv. félmrh., hvort hér er um að ræða það frv. um breytingu á jafnréttislögunum sem undirbúið var af nefnd sem skipuð var í apríl 1981 og skilaði áliti 12. apríl s.l. Að sjálfsögðu kemur ekki heldur fram á þessum lista hvort hæstv. núv. ríkisstj. hefur samþykkt það frv. sem af hálfu nefndarinnar var lagt fyrir þáv. ríkisstj. En það frv. felur í sér ákaflega miklar breytingar frá gildandi lögum um jafnréttismál. M.a. er gert ráð fyrir því að tekin verði inn ákvæði sem voru felld þegar Alþingi fjatlaði um þetta mál á sínum tíma, þ.e. jafnréttislögin þegar þau voru sett 1975 og 1976. Þess vegna leikur mér hugur á að vita hvort núv. hæstv. ríkisstj. hefur samþykkt að flytja nákvæmlega það frv. sem lagt var fyrir ríkisstj. 12. apríl s.l. eða hvort hér er eingöngu um að ræða sjónarmið núv. hæstv. félmrh. Það skiptir miklu máli í þessu sambandi hvort er.

Frv., eins og það var kynnt, var sniðið eftir fyrri lögum að ýmsu leyti. Helstu nýmæli þess voru að tilgangurinn væri ekki aðeins sá að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla heldur beinlínis að bæta stöðu kvenna. Þetta var grundvallaratriði í þeim breytingum sem þarna var um að ræða og þetta ákvæði ætti að opna leið til tímabundinna aðgerða til að styrkja stöðu kvenna, aðgerða sem nauðsynlegar þættu.

Önnur mikilvæg breyting í þessum efnum var sú að gert var ráð fyrir að breyta skipan jafnréttisráðs á þá lund að félagasamtök, sem hafa jafnréttisbaráttu á stefnuskrá, tilnefni fulltrúa í ráðið. Hugmyndin með þessu var sú að tryggja að í ráðinu sitji ævinlega fulltrúar sem hafa sérstakan áhuga á að vinna farsællega að þessum málum.

Fleiri nýmæli voru í frv. þessu, sem ég ætla ekki að rekja hér, herra forseti, en ég tel nauðsynlegt að það liggi skýrt fyrir hvaða frv. það er sem hæstv. ríkisstj. hyggst flytja í þessu efni, hvort það er það frv. sem tilbúið var 12. apríl s.l. eða hvort á því verði gerðar verulegar breytingar. Ég tel mjög brýnt að þetta mál komist fyrir þingið hið fyrsta svo að yfirstandandi þingi gefist tími til að fara rækilega yfir það. En það er greinilega mörg verk að vinna ef ríkisstj. ætlar að leggja fyrir hér þau hundrað mál sem voru á þeim lista sem kynntur var um leið og stefnuræða forsrh. var lögð fram.