25.01.1984
Efri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

152. mál, skemmtanaskattur

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Þar sem talsmenn fjögurra stjórnmálaflokka hafa fjallað um þetta mál hér við 1. umr. frv. vil ég ekki láta hjá liða að segja skoðun mína á þessu máli þó að frv. geti nú tæpast fallið í flokk þeirra mála sem allra mikilvægust eða brýnust teljast og slík mál er kannske ekki alltaf þörf að þrautræða við 1. umr., oft gott að skoða þau í nefnd og taka þau síðan til nánari umr. við 2. umr. málsins. En ég vil í stuttu máli lýsa stuðningi mínum við frv. Ég tel að það horfi í réttlætisátt. Þessi mörk sem sett voru fyrir langalögnu og miðuðu við 1500 íbúa eru auðvitað löngu orðin úrelt.

Það hefur orðið veruleg fjölgun íbúa í þéttbýli og margir þeir staðir sem áður voru með kannske 1000–1300 íbúa eru nú komnir yfir þessi mörk. Orðið hefur það mikil mannfjölgun í landinu síðan lögin voru sett að breyting af þessu tagi er fullkomlega sanngjörn og eðlileg.

Svo geta menn auðvitað deilt um hvort á að setja mörkin akkúrat þarna eða einhvers staðar annars staðar. Ég á auðvitað afskaplega erfitt með að finna rök fyrir því að mörkin skuli vera við 2500 frekar en 3500 svo að nefnt sé dæmi. Eða jafnvel einhver önnur tala heldur hærri eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason benti á áðan. En sem sagt, ég tel að frv. horfi í réttlætisátt í öllu falli og mun persónulega veita því stuðning og trúi ekki öðru en að svipaður hugur sé hjá okkur Alþb.- mönnum almennt.

En ég vildi hins vegar vekja athygli á því að löggjöf um skemmtanaskatt er mjög úrelt orðin og gömul og væri auðvitað brýn þörf á að taka lögin í heild til endurskoðunar. Þegar ég var í menntmrn. var verið að endurskoða þessi lög og ég vissi ekki betur en það gengi allvel. Við áttum nokkra fundi og mér fannst að bara væri herslumunurinn sem á vantaði að því væri lokið. Ég hugðist flytja þetta frv. um breytingu á skemmtanaskatti á þinginu 1979/80 ef mér hefði enst líf sem ráðh. en svo varð nú ekki eins og menn þekkja. Síðan eru liðin allmörg ár eða 4 og ég trúi ekki öðru en að þessari endurskoðun í rn. hljóti nú að vera lokið. Ekki er hægt að leyna því að þessi löggjöf er á margan hátt nokkuð úrelt og þó að þetta eina atriði sé eitthvað fært til meira réttlætis er áreiðanlega margt fleira sem þarfnast endurskoðunar.