25.01.1984
Efri deild: 44. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2326 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

152. mál, skemmtanaskattur

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er augljóst að þetta litla yfirlætislausa frv. er að breytast í meiri háttar mái. Það er út af fyrir sig ánægjulegt, en ég vil fjalla um örfá atriði sem fram hafa komið.

Í fyrsta lagi var það nefndin sem um það mun fjalla. Það kom fram till. frá hv. 8. þm. Reykv. um að málið færi til fjhn. Það hefur verið venja á Alþingi að breytingar á lögum um skemmtanaskatt færu í menntamálanefndir. Auk þess er þarna um að ræða sérstakan tekjustofn sem er alveg markaður til menningarmála og málefni hans heyra undir menntmrn. Þetta hefur verið venja í málsmeðferð Alþingis.

Hv. 4. þm. Austurl. spurði hvort allsherjarendurskoðun á fjölgun ýmissa staða fyrir unglinga, skemmtistaða eða tómstundastaða, stæði yfir. Ég get svarað því að það út af fyrir sig er ekki í neinni sérstakri endurskoðun. Þetta er málefni sem snertir afskaplega marga þætti mennta- og menningarmála og ekki síst þó það sem mér þykir vera meginmál í þessu sambandi og vakti sérstaka athygli mína á þessum orðum. En mér hefur þótt um margra ára skeið vera of mikið um það þegar menn ræða um æskulýðsmál að vandinn sé fyrst og fremst talinn fólginn í því að ekki séu ýmsir staðir utan heimila fyrir tómstundir æskufólksins. Mér þykir skipta mestu máli að litið sé á heimilin sem samastað unglinga og þeirra stað ekki síður en foreldranna á þann veg að heimilin séu opin fyrir tómstundir unglinganna, fyrir unglingana og þeirra gesti ekki síður en þá heimilismenn sem fullorðnir eru. Vitanlega hefur sjónvarpið átt mikinn þátt í þróun í þessa átt, það hefur vissulega stuðlað að heimilisrækni landsmanna. Það efast ég ekki um. Engu að síður eru þessi vandamál fyrir hendi sem hv. þm. gat um, en til þeirra liggja ákaflega margþættar orsakir og ég er ekki sannfærð um að lausnin liggi í því að búa til fleiri samkomustaði sérstaklega fyrir unglinga. Það hefur ekki útrýmt unglingavandamálum að til séu skemmtistaðir fyrir unglinga. Um það mál mætti lengi fjalla. En æskulýðsmál almennt eru hins vegar á fleiri vegu til skoðunar í sérstakri nefnd sem skipuð hefur verið í tilefni af alþjóðlegu æskulýðsári sem verður 1985. Það er mjög vel þegið að fá ábendingar frá hv. alþm. sem öðrum í sambandi við það verk og það getur vel orðið kveikjan að útfærslu nýrra hugmynda.

Hv. 8. landsk. þm. Kolbrún Jónsdóttir minntist á nokkra staði sem væru mjög nálægt þeim mörkum sem um er fjallað í frv., sérstaklega Húsavík. Mun rétt vera að þar hafi fjölgað um 13 manns eða liðlega það frá því að prentaðar voru þær opinberu skýrslur sem ég hafði undir höndum og greina frá því að á Húsavík séu 2487 íbúar. Slík takmarkatilfelli koma vitanlega til sögunnar.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. spurði hvort skemmtanaskattslög væru ekki í endurskoðun. Það sagði ég í frumræðu minni, þau eru í endurskoðun. Þeirri endurskoðun er senn lokið en að því er varðar fyrri endurskoðun skemmtanaskattslaga lá fullbúið frv. ásamt greinargerð í menntmrn. 1976 en það frv. hefur aldrei verið flutt. Núna er unnið að því að gera þetta mál allt saman einfaldara og þannig úr garði að það verði greiðara í framkvæmd.