25.01.1984
Neðri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er alkunna og kom reyndar fram hjá hæstv. félmrh. að það er yfirlýst stefna ríkisstj. að sveitarfélög fái sjálf að ráða verðlagði á þjónustugreinum sínum. Yfirleitt held ég að reiknað sé með því að það taki gildi og komist í framkvæmd frá og með 1. febr. n.k. Þó hygg ég að eins og ástandið er erfitt að lagt verði til við sveitarfélögin að þau fari sem vægilegast í sakirnar. Það stendur alveg sérstaklega á fyrir mér því að í landinu eru lög sem veita mér úrslitaatkv. um orkuverð t. a. m. frá hitaveitum og á rafmagni til heimilisnota.

Ég mun þess vegna verða ákaflega staður til að samþykkja verulegar hækkanir yfirleitt á raforku til húshitunar eða á töxtum hitaveitna. En fyrir Reykjavíkurborg stendur alveg sérstaklega á. Taxti Hitaveitu Reykjavíkur er 21% af óniðurgreiddri olíu. Þær hitaveitur finnast þar sem taxtarnir eru 78% af óniðurgreiddri olíu og vill reyndar svo til að þær eru þann veg settar að þær þyrftu hærra til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar og nefni ég þar sérstaklega hitaveitur sem þó voru kallaðar hagkvæmar eins og t. a. m. Hitaveita Akraness, Borgarfjarðar og Akureyrar.

Borgarstjórn hefur samþykkt að sækja um staðfestingu iðnrn. á 25% hækkun á hitaveitutöxtum, lægra á öðrum töxtum sem gilda um þjónustu þessa fyrirtækis. Ég hef ákveðið að staðfesta það fyrir mitt leyti. Þá myndu taxtar hitaveitunnar e.t.v. vera u. þ. b. á milli 26 og 27% af óniðurgreiddri olíu eða töluvert miklu miklu lægri en gengur yfirleitt hjá varmaveitum landsins.

Vísitölufyrirkomulagið — að ég ekki segi geðveiki, vísitölugeðveiki — sem hefur verið í gangi í þessu landi um langa hríð hafði leikið þann veg þetta þjónustufyrirtæki að öll nauðsynleg þjónusta þess var að skreppa saman. Það hafði ekki fjármuni til eðlilegs viðhalds, hvað þá heldur að auka og bæta þjónustuna eins og mikil nauðsyn er á. Ef við tökum sem dæmi að fyrirtækið hafði ekki ráð á að ráðast í frekari orkuöflun t. a. m. í Nesjavallalandi við Þingvallavatn þar sem nú eru reyndar hafnar boranir.

Auðvitað kom ekki til greina að halda áfram að svelta þetta glæsilega og lífsnauðsynlega fyrirtæki með þeim hætti sem gert hafði verið. Það er enginn búskapur. Þetta er gamla lagið sem gilti hér t. a. m. í stjórnartíð hv. 3. þm. Reykv., að geyma að borga skuldir sínar til morguns eða næsta mánaðar eða næstu ára, horfast ekki í augu við vandann og slá svo lán til þess að standa undir hallabúskapnum, greiðsluþrota- og gjaldþrotabúskapurinn. Við það ætlum við ekki að búa lengur. Með sérstöku tilliti til þessara ástæðna, þar sem hér er einvörðungu verið að fallast á hækkun taxta Hitaveitu Reykjavíkur sem er langt undir því sem yfirleitt gerist í landinu, getur þetta ekki verið gagnrýni vert.

Það er að vísu svo að mjög herðir að heimilum í landinu af ástæðum sem auðvelt er að rekja og var reyndar minnst á hér í gær þar sem ýmsir töluðu þó með öfugum formerkjum, þ. á m. mál sem rennur til þessa atriðis nú. En ég mun verða mjög staður að samþykkja neinar hækkanir meðan þann veg stendur á að allsherjar úttekt fer fram á stöðu orkuveitnanna í landinu, á Rafmagnsveitum ríkisins, á Orkustofnun, hjá Landsvirkjun og orkuveitum öðrum, eins og Akraness og Borgarfjarðar og Akureyrar. Það fer fram á þessu allsherjar úttekt og athugun á rekstrinum. Væntanlega verður gerð gaumgæfileg athugun og endurskoðun á öllum reglum og lögum sem um verð og orkuverð í landinu gilda. Þetta er það margbrotið og vangætt að á því er hin mesta nauðsyn. T.a.m. nefni ég, sem ég lýsti yfir fyrir hátíðar, að nú í þessari viku þó skammt lífi hennar verður skipuð nefnd til þess að endurskoða verðjöfnunargjald af raforku í því skyni að fella það niður enda verði séð fyrir fjárhag þeirra orkuveitna sem þessa gjalds hafa notið.

Allar þessar álögur, þessi skattheimta þvers og kruss, við hana er ekki búandi. Hægt er að nefna mörg dæmi sem engu tali taka í þessu sambandi og eru þó ekki öll kurl komin til grafar. Eins og ég segi, meðan verið er að reyna að ráða fram úr þessum miklu vandamálum og þessari vanhæfni sem orkumálin eru í skipulagslega séð verð ég áreiðanlega ákaflega staður að samþykkja neinar hækkanir sem máli skipta nema, eins og ég segi, þessa. Það blasti við fyrir löngu að við svo búið mátti ekki standa lengur hvað snertir þetta mikilvæga fyrirtæki og þegar við hugsum til þess að þetta er kannske aðeins 1/5 af því sem heimili á köldu svæðunum í landinu þurfa að greiða fyrir hitun híbýla sinna er þetta einn veginn ekki of í lagt.

Þetta vildi ég að kæmi fram þessa vegna, en ég ítreka að það er stefna ríkisstj. að í framtíðinni verði þann veg að þessum málum staðið að sveitarfélögin fái sem mest sjálfræði um verðlagningu á þjónustu sinni.