25.01.1984
Neðri deild: 40. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Til að fyrirbyggja misskilning vil ég endurtaka það sem ég sagði hér fyrr að ráðgerðir eru samráðsfundir milli viðskrn. og félmrn. annars vegar og fulltrúa sveitarfélaganna hins vegar um meðferð þessarar ákvörðunar ríkisstj. sem er í stefnu hennar og er rétt upp lesið hér af hæstv. iðnrh.

Hv. 5. þm. Vestf. spurði og talaði um skólakostnaðarlög eða réttara sagt um grunnskólalögin eða framkvæmd þeirra eins og þau eru og námsvistargjaldið sem Reykjavíkurborg hefur reynt að innheimta hjá sveitarfélögum með misjöfnum árangri því mörg sveitarfélög neita þessu. Ennþá hefur ekki verið kveðinn upp neinn úrskurður um að þau væru skyldug til að greiða þetta gjald. Ég tel þetta gjald ekki undir þeim flokki þjónustugjalda sem við erum að tala hér um í sambandi við frelsi sveitarfélaga.

En hitt vil ég segja ákveðið og benda á að ekki má dragast öllu lengur að Alþingi taki þessi mál föstum tökum og setji skólakostnaðarlög. Það hefur staðið upp á Alþingi að setja lög um framhaldsskóla og þar í blandast þetta mál í sambandi við skiptingu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga að því er varðar skólakostnað. Skýr ákvæði vantar um þetta atriði, um þetta er deilt og ég tel að Alþingi verði sem fyrst að taka ákvörðun um það hvernig með þessi mál verður farið. Hér er vissulega um stórt mál að ræða því allir eru sammála um að allir eigi að njóta réttlætis og jafnréttis í sambandi við aðgang að menntun. Þetta er mál sem er alveg sérstaks eðlis og er laust við það sem við erum að tala um hér almennt um gjaldskrár og þjónustugjöld sveitarfélaga.