26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

77. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja það sem mína skoðun, að mér finnst sjálfsagt að taka vel í þessa till., sem hér er flutt, og fjalla um hana ítarlega í n. Ég kveð mér ekki eingöngu hljóðs til að láta í ljós þá skoðun mína, heldur til að leiðrétta þau ummæli hv. flm. að ekkert hafi verið gert til að kanna möguleika á veiðiheimildum eins og þessi till. fjallar um. Í allan vetur hefur verið unnið að því að kanna möguleika á að fá veiðiheimildir í bandarískri efnahagslögsögu og hafa þær tilraunir verið gerðar í samvinnu við sjútvrn. og LÍÚ.

Hins vegar verður ekki hjá því komist að taka það fram að á því eru ýmsir örðugleikar að afla slíkra veiðiheimilda, m.a. vegna þeirra reglna sem um þetta gilda í Bandaríkjunum. Það hefur komið fram hér í blöðum að fulltrúar LÍÚ hafa lagt land undir fót og kynnt sér þessi mál ítarlega, en komið heim einmitt með þá sögu að þarna séu ákveðnar tálmanir sem erfitt kynni að verða að yfirstíga. Þrátt fyrir þetta er sjálfsagt að ganga með fullnægjandi hætti úr skugga um hvaða möguleikar þarna eru á ferðinni og hvort unnt er að skapa þau skilyrði fyrir íslenska útvegsmenn að þeir teldu hagkvæmt að beina skipum sínum á þessi mið.

Það hefur enn fremur verið um það getið í blöðum að eitt útgerðarfélag hér á landi, Skagstrendingur hf., hefur leitað fyrir sér um að kaupa eða leigja verksmiðjuskip sem mundi veiða við vesturströnd Norður-Ameríku og þá með það fyrir augum að leggja afla á land í Bandaríkjunum til sölu þar, e.t.v. á vegum þeirra fyrirtækja sem Íslendingar eiga og reka á þeim slóðum.

Utanrrn. hefur gert allt sem í þess valdi stendur til að aðstoða þetta fyrirtæki í þessum tilraunum og m.a. falið sendiráðsfulltrúanum í Washington að fara með þessum íslensku aðilum til fundar við ráðamenn og útgerðaraðila sem mögulega væri unnt að hafa samvinnu við í Bandaríkjunum í þessu skyni. Niðurstaða hefur hins vegar ekki fengist þar sem margir þættir þessara mála eru enn ekki ljósir, en áfram verður unnið að lausn málsins eftir megni. Ég vonast til þess að í umr. í þingnefnd megi upplýsa um þessar tilraunir og að þn. geti komist að farsælli niðurstöðu varðandi afgreiðslu þessarar þáltill.