26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

77. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að lýsa stuðningi mínum við anda þessarar þáltill. og ég fagna því, sem hæstv. utanrrh. sagði hér áðan, að í þessum málum er unnið. Mér er kunnugt um að það er búið að vinna allmikið í þessum málum. Eins og hann sagði fóru framkvæmdastjóri og hagfræðingur LÍÚ einmitt til Bandaríkjanna á s.l. hausti til að kynna sér þessi mál sérstaklega. Þar kom ýmislegt upp sem vert er að skoða. Við skulum alls ekki vera of bjartsýn á að þetta takist, heldur er nauðsynlegt að fylgja því sem fastast eftir að þarna sé reynt að komast að því samkomutagi sem við getum unað við, vegna þess að manni hlýtur að vera það ljúfara, þó að þurfi að leita á fjarlæg mið til að ná í afla sem við héldum fram undir þetta að væri nægur á okkar eigin miðum, að ræða um þá hluti en að þurfa sífellt að leggja svo og svo mörgum skipum af íslenska flotanum vegna verkefnaskorts heima fyrir. Þess vegna vil ég leggja áherslu á það og er meðmæltur því, að leitað sé allra ráða til að fá verkefni fyrir skipin á erlendum miðum á meðan svo stendur á sem er í fiskveiðilögsögu okkar.