26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

77. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er ágætt að heyra þau jákvæðu viðhorf sem hér koma fram bæði hjá hæstv. utanrrh. og hv. 3. þm. Vesturl. En mér þykir hafa ríkt ótrúlegt tómlæti í þessu máli um ótrúlega langan tíma. Það er ekki í fyrsta skipti sem þessi till. er flutt hér í þinginu og það er ekki í fyrsta skipti sem við Alþfl.-menn vekjum máls á þessu máli. Þar að auki liggja fyrir ályktanir frá hagsmunaaðilum eins og LÍÚ. Mín skoðun er sú, að það sé ekkert verkefni nærtækara fyrir utanrrn., eins og háttar til í íslenskum þjóðarbúskap núna og þegar við verðum að takmarka veiðar á veiðislóðum okkar með þeim hætti sem við nú verðum að gera, heldur en að leita fast eftir heimildum fyrir okkur til að veiða á erlendum veiðislóðum. Við erum að skammta okkur veiðar í okkar eigin landhelgi, við erum að skera þær stórlega niður og við höfum vitað það og fundið að þetta væri í aðsigi. Sú skömmtun sem er fram undan er stórtækari en hefur áður verið, en við höfum verið að skammta veiðarnar í mörg undanfarin ár vegna þess að fiskiskipastóllinn hafi verið of stór.

Mér finnst að það hafi ríkt ótrúlegt tómlæti um þetta mái. Og þrátt fyrir þá grg., ef við köllum það nú svo, sem hæstv. utanrrh. gaf hér áðan um það hvað gert hefði verið, þá verð ég nú að segja að mér fannst það heldur rýrt. Ég verð að benda á það og þykist ekki brjóta neinn trúnað með því, að þessi mál hefur t.d. ekki borið á góma í utanrmn. nema í þau skipti sem ég hef vakið máls á þeim. Ég held að það sé meira en mál að þessu tómlæti linni.

Eins og komið hefur hér fram er það svo um fjölda þjóða að þær stunda veiðar utan lögsögu sinnar, sumar með þeim hætti að þær hafa eitthvað að færa þeim þjóðum sem slíkt leyfa í staðinn, sumar án þess, og hafa miklar veiðiheimildir. En í þessu sambandi kemst ég ekki heldur hjá því að minna á enn og aftur og ítreka, að þegar hvatveiðimálin voru til umfjöllunar í Alþingi barst sérstakt bréf úr bandaríska utanrrn. þar sem gefin voru vilyrði um að Íslendingar gætu stundað veiðar við Bandaríkjastrendur. Það fór ekkert milli mála. Og hvort sem mönnum þótti þetta bréf viðeigandi eða ekki og hvort heldur það hafði áhrif á afstöðu manna eða ekki, þá koma bréf með slíkum vilyrðum. Þar var ekki getið um neina sérstaka erfiðleika í þessu sambandi, eins og nú er verið að tína upp, vitnað til formanns LÍÚ og almennrar lagasetningar í Bandaríkjunum.

Ég tel alveg einhlítt að við tökum Bandaríkjamenn á orðinu hvað snertir boðskap utanrrn. þeirra og hefðum átt að vera búin að gera það fyrr og leita eftir því af meiri þrótti en mér sýnist að gert hafi verið. Ekki getum við gengið út frá því að bréfið hafi verið blekking ein og það ætti svo að koma í ljós að á þessu væru margvíslegir meinbugir. Það getum við ekki viðurkennt í máli sem þessu. Hér verður að sækja á af fullum þrótti. Í máli eins og þessu dugar auðvitað ekki að gefast upp fyrir fram. Menn verða að sækja fram, menn verða að sækja þá möguleika sem hér um ræðir.

Ég minni á það líka í þessu sambandi að grannþjóð okkar Færeyingar hefur aflað sér veiðiheimilda á margvíslegum erlendum veiðislóðum og gert veiðisamninga sem hún telur sér mjög hagkvæma og mikils virði efnahagslega séð. Færeyingar hafa staðið sig mjög vel í þessum efnum. Í sumum tilvikum hefur verið um einhverja gagnkvæmni að ræða, en hún hefur þá verið af því tagi að Færeyingar hafa haft af því hag.

Ég minnist þess líka að fyrir nokkrum dögum komu fram hugmyndir í opinberum fjölmiðlum um að við gætum lagt Grænlendingum lið með einhverjum hætti, t.d. varðandi landhelgisgæslu við austurströnd Grænlands, og fengið út á það t.d. heimildir til að veiða í þeirra landhelgi. Hefur þetta nokkuð verið kannað? Er þetta ekki líka atriði sem væri ástæða til þess að kanna?

Ég tók eftir því að hv. 3. þm. Vesturl., Valdimar Indriðason, varaði við of mikilli bjartsýni. Það er sjálfsagt góðra gjalda vert að vara við slíku. En ég legg áherslu á að í þessu máli eiga menn alls ekki að gefast upp fyrir fram, heldur verða menn að sækja fram af þrótti og afli. Og ég ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að ég tel að utanrrn. ætti við núverandi aðstæður að nota sem mest af starfskröftum sínum til að sækja mál af þessu tagi, eins og nú hagar til í íslenskum þjóðarbúskap. Það er ekkert sem getur skipt okkur jafnmiklum sköpum efnalega og að vel takist til í þessum efnum.