26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2371 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

77. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég minnti á það við umr. um þessa till. hér fyrir ári að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem till. svipuð þessari væri lögð fram hér á hv. Alþingi. Þessi till. ber keim af því að það eru uppi erfiðleikar í íslenskum sjávarútvegi og umræða um þá erfiðleika kannske komin út á ýmis þau svið sem gefa ekki mikið í aðra hönd.

Það var borin fram hér till. — líkast til hefur það verið 1958 eða 1959 — á svipaðan máta og í svipuðum anda og þessi till. er, þ.e. að leita veiðileyfa við Vestur-Afríku fyrir þau skip sem þá voru að koma á Íslandsmið eða væntanleg, hinir svokölluðu tappatogarar. Það var ekki talið að það mundi verða pláss fyrir þau skip eða þau mundu nýtast við veiðar við Íslandsstrendur. Þess vegna væri æskilegt að búa sig undir það að koma þeim til veiða á erlendri veiðislóð.

Í sjálfu sér er það ekki gagnrýnisvert og sjálfsagt sjálfsagðir hlutir að kanna þessa möguleika en ég er mjög svartsýnn á arðsemi þeirra og á að veiðar á erlendri veiðislóð bæti mikið stöðu íslensks sjávarútvegs eða íslensks þjóðarbúskapar. Jafnvel þó við gætum fært þau rök fyrir okkar málflutningi að Færeyingar og Þjóðverjar geri þetta með góðum árangri þá er hægt að koma með þau mótrök og benda á að í dag reka Færeyingar togaraútgerð og fiskverkun með góðum árangri og skila góðum hagnaði og eru ekki í neinum vandræðum með það að reka sinn sjávarútveg. En því miður er allt aðra sögu að segja hér.

Og ég tel að ef við ættum að fara að senda skip til Norður-Ameríku eða stranda Bandaríkjanna, til Vestur-Afríku eða allar götur til Sómalíu þá verði kostnaðurinn við þá útgerð það mikill að það verði allar líkur á því að lítið verði í aðra hönd þegar gert verður upp þegar skipin koma heim úr slíku úthaldi.

Við þær aðstæður sem nú blasa við í íslenskum sjávarútvegi held ég að önnur verkefni séu flestöll nærtækari en þetta. Og ég tel að það væri mikið nærtækara verkefni fyrir hæstv. utanrrh. og utanrrn. að vinna í því að afla okkur fullkomins réttar við Rockall og á því veiðisvæði — á því svæði sem allar líkur eru á að við getum aflað okkur aukinna veiðiréttinda og aukinna veiðimöguleika.

Það er ekki langt síðan það birtust í blöðum fréttir um að Norðmenn hefðu farið á þá veiðislóð og fiskað vel. Það eru ekki gerðar tilraunir með að senda íslensk skip á það veiðisvæði. Það hafa ekki verið heldur gerðar neinar tilraunir til þess að senda íslensk veiðiskip á þau veiðisvæði hér rétt út af austurströndinni þar sem Rússinn er að fiska ár eftir ár — stórir flotar af rússneskum veiðiskipum. Ég hef ekki trú á því að yrðu lagðir til þessara hluta einhverjir fjármunir ættu íslenskir fiskimenn ekki að geta fengið þar afla alveg eins og þeir rússnesku. Það væri mikið skemmtilegra fyrir íslenska landhelgisgæslu þegar hún væri að fara þarna „rúnt“ og mynda þennan stóra flota sem er hér utan við 200 mílurnar að inni í þessum flota væri einn og einn Íslendingur, gæti verið að fylgjast með a.m.k. hvað Rússinn væri að gera og njóta þess afla sem er rétt utan við íslenska landhelgi.

Og alveg sama er um það að við vitum að við Íslandsstrendur, innan landhelgismarkanna, eru fiskimið sem eru því miður allt of lítið nýtt. Það hefur ekki verið gert út á lúðu hér á vesturkantana í fleiri, fleiri ár. Það er vegna þess að íslenskir útvegsmenn treysta sér ekki til þess að fara í neinar tilraunaveiðar. Væri það ekki kannske nær að leggja dálítið fjármagn í það að styrkja íslenskan útveg til þess að fara á slíkar veiðar, leita hér svolítið út fyrir landsgrunnsmörkin eða út í landgrunnskantana? Það eru líka taldar miklar líkur fyrir því að með línuveiðum gætum við fiskað miklu meira af löngu hér úti í köntunum en við gerum — hvað þá ef við sláumst í hóp með Rússum í karfanum hér út á Reykjaneshryggnum.

Þetta er ekki gert. Það er verið að tala um hina og þessa hluti aðra, það er verið að tala um vandræði, það er verið að tala um að við séum að leggja stórum hluta af flotanum og það blasir við í dag. En þau verkefni, sem eru kannske nærtækust, eru ekki skoðuð heldur rætt um verkefni eins og þessi till. hér gerir ráð fyrir. Í einstaka tilfellum er sjálfsagt að skoða þessi mál en að það sé einhver allsherjarlausn fyrir íslenska atvinnuvegi og íslenskan sjávarútveg; það get ég ekki tekið undir. Og að í þessari umr. skuli það fært sem rök fyrir því að við eigum að leita eftir veiðileyfum við strendur Bandaríkjanna að Bandaríkjamenn hafi boðið okkur þetta þegar umr. áttu sér stað á hv. Alþingi um hvalveiðibannið. Þá er nú langt seilst ef rökin fyrir því, að við eigum að leita eftir þessu, eru vegna þess bréfs sem hér kom inn á hv. Alþingi þegar við vorum að ræða hér um hvalveiðibannið. Þetta var af ýmsum, eins og hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, kannske talin ekki eðlileg málsmeðferð við þær aðstæður. (Gripið fram í.) Ja, mín afstaða í því máli, þegar það kom hér inn, var sú að þó að ég væri á móti hvalveiðibanni þá fannst mér það ekki þyngja eða styrkja okkar skoðun sem vorum á móti því að veiða hvalinn. Og að ætla að fara í slík viðskipti við eina eða aðra þjóð finnst mér fyrir neðan allar hellur.

Aftur á móti tek ég undir þá uppástungu, sem hefur komið í fjölmiðlum og hv. þm. Kjartan Jóhannsson nefndi hér áðan, að eiga ákveðið samstarf við næstu nágranna okkar eins og Grænlendinga. Við erum þá raunverulega að styrkja okkar landhelgi og færa hana út. Og vitaskuld eigum við að leita einhverrar samvinnu — og við höfum reyndar verið með samkomulag — við Færeyinga um veiðar á þeirra miðum og þeir fengið síðan aftur heimild hér hjá okkur. Það er sjálfsagður hlutur. En ég held að það sé að fara yfir lækinn til að sækja vatn að leggja til að íslenskur fiskiveiðifloti fari til Afríkustranda eða stranda Bandaríkjanna til fiskveiða eins og nú standa sakir.