26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2372 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

77. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að vísa heim til föðurhúsanna þeim ummælum sem hér hafa verið við höfð af hv. 3. þm. Reykn. að utanrrn. hafi ekki gert það sem skylda þess bauð að kanna þá möguleika sem til staðar væru varðandi fiskveiðiheimildir við Norður-Ameríku. Það hefur verið gert af hálfu rn. sem unnt hefur verið til þess að afla upplýsinga í þessu skyni.

En umræður um þessi mál gefa tilefni til þess að leggja áherslu á það að auðvitað verður frumkvæðið að koma frá útvegsmönnum sjálfum. Það er ekki unnt að ætlast til þess að stjórnvöld hafi frumvæði að því að senda íslensk fiskiskip til annarra landa eða ákveðinna fiskimiða. Ef útvegsmenn sjálfir sjá sér ekki hag í því þá skil ég varla að grundvöllur sé fyrir slíkum veiðum. Íslensk stjórnvöld geta gert sitt til að skapa skilyrði fyrir því að útvegsmenn geti sent skip sín á þær veiðar sem þeir telja sjálfir hagkvæmt að stunda. En tæpast verður það gert með öðrum hætti en ríkisstyrk ef á að fara að senda íslensk fiskiskip til veiða þar sem útvegsmenn sjálfir telja sér ekki í hag að stunda veiðar. Á þetta hygg ég að nauðsynlegt sé að leggja áherslu.

Hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson benti á að rétt væri að við hygðum að veiðum bæði innan og utan okkar eigin efnahagslögsögu og vel getur verið að það sé ástæða til þess að tilraunaveiðar eigi sér þar stað með einhverjum opinberum tilstyrk. Það verður að kanna út af fyrir sig. En auðvitað er það opið íslenskum fiskiskipum að kanna veiðislóðir utan okkar eigin fiskveiðilögsögu og þar sem skip annarra þjóða stunda veiðar hvort heldur það er fyrir suðaustan land, hér á Reykjaneshryggnum eða á Rockall-svæðinu. Og auðvitað skiptir það máli í sambandi við tilraunir okkar til þess að staðfesta rétt okkar á hafsbotnssvæðum að fiskveiðar séu þar stundaðar þótt einkaleyfi til fiskveiða fylgi ekki sjálfkrafa með hafsbotnsréttindum. Allt þetta er vert íhugunar. En fyrst og fremst hlýtur það að vera framtak og frumkvæði útvegsmanna sjálfra í samræmi við það sem þeir álíta hagkvæmt og borgi sig sem á að ryðja brautina en íslensk stjórnvöld eiga auðvitað að fylgjast vel með og greiða götu íslenskra fiskiskipa til þess að stunda veiðar þar sem ábatavon er til staðar.

Það er einnig ástæða til að gera athugasemd við ummæli hv. 4. þm. Vesturl. þótt hann væri hófsamur í ummælum sínum varðandi það verkefni utanrrn. að leita réttar okkar á Rockall-svæðinu. En í því sambandi vil ég geta þess að einmitt þessa dagana fara fram viðræður af hálfu Íslands í Danmörku og áður hafa farið fram viðræður í Englandi og Írlandi um réttindi á Rockall-svæðinu. Hans G. Andersen ambassador hefur verið á ferðalagi um þessi lönd til viðræðna við þarlenda menn til þess að fjalla um hver réttarstaða þessara ríkja er á þessu svæði að þeirra mati og gera þessum löndum og fulltrúum þeirra ljósa grein fyrir skoðun okkar Íslendinga í þessum efnum. Það er og í samræmi við samþykkt þáltill. þar sem ríkisstj. var falið að leita samstarfs við þessar þjóðir um nýtingu hafsbotnsréttinda á Rockall-svæðinu og afmerka hafsbotnsréttindi okkar á Reykjaneshryggnum.

Ég vildi láta þessa þætti koma fram í umr. um þessa till. að gefnu tilefni en ítreka og endurtek að mér finnst sjálfsagt að gengið sé úr skugga um hvaða möguleika við Íslendingar höfum til öflunar veiðiréttinda á fjarlægum slóðum og tengja þá rannsókn samstarfi við íslenska útvegsmenn vegna þess að án þátttöku þeirra verður ekkert gagn að öflun réttindanna.