26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2376 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

77. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég tel að þessi till. hafi fengið góðar undirtektir. Menn deila um hvort eitthvað hafi verið gert eða ekki neitt. Sitt sýnist hverjum um það, en það er mín skoðun, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að nokkurt tómlæti hafi átt sér stað í þessum málum og starf utanrrn. í þessu máli mundi hafa meira vægi til að koma því áfram, heldur en ef einstakir útgerðarmenn, eða jafnvel formaður Landssambands ísi. útvegsmanna færi í skoðunarferð til Bandaríkjanna. Mörg verkefni eru vissulega brýn í utanrrn., eins og komið hefur fram hér áður, en ég tel að þessu verkefni verði að sinna sérstaklega og við þurfum að gá að því hvort sú tilkynning, sem kom hingað til okkar alþm. þegar verið var að ræða hvalveiðibannið, var markleysa ein, til þess eins að blekkja alþm., sem voru veikir fyrir þeim áróðri sem þá gekk yfir menn, hvort ekki eru fyrir hendi möguleikar á því að þetta tilboð standi. Við eigum að leita eftir að þeir standi við það sem gefið var í skyn og ég er sannfærður um að hafði áhrif á marga alþm. á sínum tíma.

Till. þessi fjallar um að þessi mál verði könnuð og það ítarlega. Mér kemur á óvart að heyra þann draugagang sem kom fram hér áðan hjá hv. 4. þm. Vesturl. Hann sér svartnættið eitt þegar minnst er á þessi mái. Ég fæ ekki séð hvað það getur skaðað að kanna þessi mál vel. Það er staðreynd að aðrir hafa stundað svona veiðar á þann hátt að arðbært hefur verið. Vestur-Þjóðverjar telja það arðbært, Færeyingar telja það arðbært, Pólverjar telja það arðbært og svona má lengi telja. Ég trúi að hægt sé að finna möguleika fyrir því að koma á arðbærum veiðum við strendur annarra ríkja. Það er a.m.k. fyrsta atriðið að kanna þessi mál, að ganga úr skugga um hvort við getum aflað íslenskum sjómönnum verkefna þar því fyrirsjáanlegt er — auk þess tekjutaps sem sjómenn hafa orðið fyrir — að þeir verða meira og minna atvinnulausir á þessu ári.

Ég endurtek að ég tel að þessi till. hafi hlotið jákvæðar undirtektir og ég vænti þess að í hv. atvmn. verði umr. jákvæðar og menn flýti afgreiðslu till. Þetta er eitt af þeim brýnu verkefnum sem þarf að afgreiða og varða íslenskan sjávarútveg í dag.