26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2377 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

77. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég vil síður en svo gera lítið úr þeirri till. sem hér er til umr. Það er rétt að benda á það að í Hafréttarsáttmála er ekki einungis gert ráð fyrir því að ofveiði sé hindruð, heldur er líka gert ráð fyrir að hæfilegar veiðar séu stundaðar. Og svo mun vera ástatt allvíða í heimi að fiskstofnar séu vannýttir. Mér finnst sjálfgert að við könnum hvort einhverjar veiðiheimildir er hægt að fá annars staðar og get þess vegna stutt þessa till. enda veit ég að að því hefur verið unnið, þó að kannske megi þar enn þá betur gera.

Ég kveð mér nú hljóðs að sjálfsögðu vegna þess að mitt nafn bar hér sérstaklega á góma og vegna umr. um Rockall-svæðið. Það er alveg rétt að ég hef talið, og það fyrir mörgum árum, að við Íslendingar ættum að gera að því gangskör að tryggja þau réttindi sem við þar eigum, og ég tel ótvírætt að réttindi Íslands á þessu gífurlega mikilvæga og stóra svæði séu meiri en nokkurrar þjóðar annarrar. Ég vona að það komi á daginn fyrr en síðar, en auðvitað náum við ekki þessum réttindum nema við sjálfir göngum eftir þeim og tryggjum okkur þau þar með, með þeim hætti að stunda þar fiskveiðar. Þar er fiskur, það sannaðist í haust þegar norskur línuveiðari kom til baka með boltaþorsk af þessu svæði, hlaðinn af saltfiski, þorskflökum og ísuðum fiski. Kannske hefur íslenski þorskurinn verið þar. Að minnsta kosti var þar boltaþorskur. Þessar veiðar eigum við að sjálfsögðu að stunda og helga okkur þessi veiðisvæði. Að vísu er það svo að ekki er beint fyrir um það mælt að þær þjóðir, sem hafsbotninn eigi, eigi allar fiskveiðar yfir honum. Þær eiga þó a.m.k. allar botnlægar tegundir, þ.e. krabbadýr, skelfisk o.s.frv. Ég minnist þess nú, ég hygg að það hafi verið árið 1948 eða 1949, að stórblaðið New York Times skrifaði um það ritstjórnargrein eftir að Truman Bandaríkjaforseti hafði kastað eignarhaldi Bandaríkjanna á 200 mílur af hafsbotninum úti fyrir ströndum þess stórveldis. Þá skrifaði það blað: „Það hlýtur að enda með því að sá, sem botninn á, hann eignist einnig hafið og auðæfi þess þar yfir.“ Það liðu áratugir þangað til þetta sannaðist. Það kann vel að vera að svo fari að það líði áratugir þar til við höfum óskoraðan eignarrétt yfir hafinu á Reykjaneshrygg út í 350 mílur og yfir hafsvæðunum á Rockall-svæðinu, sem gæti orðið allt út í 400 eða 450 mílur á þessu sokkna landi, þessu grunnsævi, sem þarna er. Hér er um algjört stórmál að ræða. Ég ætlaði ekki að ræða þetta sérstaklega nú, nema af þessu gefna tilefni. Svo vel vill til að okkar hæfasti sérfræðingur í hafréttarmálum er nú einmitt að koma til landsins eftir ferð til London, Dublin og Kaupmannahafnar, þar sem þessi mál voru rædd og verða rædd á utanríkismálanefndarfundi á mánudaginn kemur. Þess vegna er kannske ekki tímabært að fara lengra út í einstök atriði.

Þetta gæti orðið stærsta mál þessa þings og hver einasti alþm. á að halda vöku sinni í því vegna þess að tíminn hleypur frá okkur. Hafrétturinn á þessu sviði er núna í mótun, alveg eins og hann var að því er varðaði 200 mílurnar árin 1972–1974. Þar lögðum við auðvitað okkar af mörkum og það hljótum við einnig að gera í þessu efni. Þess vegna get ég kannske sagt að ég er þakklátur þeim sem vöktu máls á þessu mikilvæga atriði hér í þessum umr., en þetta mál verður rætt nánar síðar.