26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

77. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þetta mun vera í þriðja sinn sem þessi till. er flutt hér á hv. Alþingi. Undirtektir virðast fara ögn skánandi í hvert skipti og mér heyrist að þær séu út af fyrir sig jákvæðar í þetta skipti, jákvæðari en stundum fyrr, en skelfing dauflegar og mér finnst að ástæða sé til þess að hnykkja ögn betur á meginatriðum málsins. Hæstv. utanrrh. setti fram þá kenningu að í þessu efni bæri útgerðarmönnum og útgerðaraðilum að sýna frumkvæði í málinu. Ef ég skildi kenninguna rétt þá gæti kanselíið lítt aðhafst, nema það lægi fyrir fyrirfram að það væri áhugi af hálfu útgerðaraðila. Nú vil ég vekja athygli á að þessi till. er um að íslensk stjórnvöld láti fara fram athugun á möguleikum íslenskra fiskiskipa til veiða í erlendri landhelgi. Það gerist ekki með því að einstakir íslenskir útgerðarmenn kanni þetta mál. Það sem sker úr um það hvort þetta er yfirleitt gerlegur og fýsilegur kostur, er það hvort íslensk stjórnvöld undir forustu utanrrh. ná samkomulagi við erlend stjórnvöld, og þannig að það liggi fyrir hverra kosta íslenskir útgerðaraðilar ættu að njóta við þessar veiðar. Mér sýnist því alveg augljóst mál að það er öfugmæli að frumkvæðið eigi að koma frá öðrum, frumkvæðið á að koma frá íslenskum stjórnvöldum, um það er þessi till. Eðli málsins samkvæmt þá er hér um að ræða samkomulagstilraunir milli stjórnvalda. Áhugi og undirtektir útgerðarinnar hljóta síðan að mótast af því hvaða niðurstöður koma út úr þessum könnunum og út úr þessum samningum.

Ég t.d. spyr í framhaldi af blaðafregnum um áhuga Grænlendinga á samvinnu við Íslendinga, samvinnu sem gæti fólgið það í sér að af hálfu Grænlendinga væri okkur veittar veiðiheimildir úti fyrir austurströnd Grænlands gegn því að Íslendingar væru þar á móti kannske til viðtals og samkomulags um það að frá Íslandi yrði veitt ákveðin þjónusta við fámennar og strjálar byggðir Austur-Grænlands sem er erfiðleikum bundið af hálfu stjórnvalda á Grænlandi. Frumkvæðið í þessu efni getur ekki komið frá blaðamönnum, það getur ekki komið frá einstökum útgerðaraðilum, það verður að koma frá íslenskum stjórnvöldum: Þess vegna spyr ég beinlínis? Eru íslensk stjórnvöld, er hæstv. utanrrh., reiðubúin til þess að leita eftir samkomulagi um slíka hluti við stjórnvöld á Grænlandi sem samkvæmt blaðafregnum hafa á þessu áhuga? Ef íslensk stjórnvöld beita sér ekki fyrir þessu sjálf þá gerist ekkert í málinu. Og ef íslensk stjórnvöld beita sér ekki ákveðið, eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson nefndi, með því að senda sendinefnd og leita ákveðið eftir samkomulagi við Bandaríkjamenn þá gerist heldur ekkert í málinu. Það er ekki nóg þó jákvæðar undirtektir komi frá LÍÚ og þó að menn fari sendiferðir til þess að kanna aðstæður. Það þarf beinlínis að leita eftir því og auðvitað var kjörið tækifæri til þess, diplómatískt og pólitískt, og alveg sjálfsagt að gera það í kjölfar þeirrar samþykktar, sem hér var gerð, að því er varðar hvalveiðar og þá þegar í stað. Fullyrðingar hv. þm. Skúla Alexanderssonar eða efasemdir um að þessar veiðar kunni að vera lítt arðbærar getum við ekki tekið mjög trúanlegar, meðan hann leggur ekki fram einhverjar upplýsingar um það. Ég held að það sé ekkert upplýst um það. Við vitum að þetta þykja arðbærar veiðar að því er varðar ýmsar aðrar þjóðir, en síðan fer það hversu arðbærar þessar veiðar eru eftir þeim skilmálum sem við getum náð. Við höfum ýmsar upplýsingar um það frá íslenskum útgerðaraðilum á vesturströnd Bandaríkjanna hversu ótrúlega arðbærar veiðar eru þar, og reyndar upplýsingar t.d. um kjör útgerðar og kjör sjómanna sem bera langt af því, sem íslenskir útgerðaraðilar og íslenskir sjómenn njóta þessa stundina.

M.ö.o. við ég einfaldlega leggja á það megináherslu að alrangt er að íslensk stjórnvöld eigi að bíða eftir frumkvæði einkaaðila eða útgerðaraðila. Þessir aðilar geta ekkert hreyft sig í málinu fyrr en það liggur fyrir hvaða samkomulagi stjórnvöld ná. Það sker úr um hvort þetta er fýsilegur kostur, hvort hann er arðbær fyrir einstaka aðila og þess vegna vil ég eindregið beina því til hæstv. utanrrh., og spyrja hann hér beinlínis, hvort hann og rn. hans séu reiðubúin til þess að taka upp samkomulagstilraunir við stjórnvöld í Grænlandi um þá hluti sem ég hef áður vikið að, — gagnkvæmt samstarf þessara þjóða, sem gæti kannske haft í sér falið veiðiheimildir íslenskra aðila við austurströnd Grænlands — og eins hvort hann sé reiðubúinn til þess að taka upp alvörusamninga við bandarísk stjórnvöld samkvæmt því tilboði, sem þegar liggur fyrir, og reyndar er hundgamalt frá þessum aðilum.

Sama er að segja um hæstv. sjútvrh. Hann vitnaði til þess sem er alkunna og staðreynd, að við erum eina meiri háttar fiskveiðiþjóðin í heiminum sem hefur ekki að eigin frumkvæði gert neitt í því að koma á markað þeirri miklu þekkingu sem við búum yfir í sjávarútvegsmálum, eins og allar aðrar meiri háttar þjóðir frá Japönum til Dana hafa gert í atþjóðlegu samstarfi. Ýmsar upplýsingar liggja fyrir um að tilboð hafa komið og óskir frá ýmsum þjóðum, vanþróuðum þjóðum, sem vilja koma sér upp öflugum sjávarútvegi, útgerð og fiskvinnslu. Nýjasta dæmi um þetta er samstarf Dana og Marokko-búa. Ekkert liggur fyrir um það og ekkert getur legið fyrir um að þetta sé óhagkvæmt og ófýsilegt fyrr en við leitum eftir því sjálfir og könnum það. Það þarf meira heldur en fyrstu bréfaskipti, það þarf rækilega rannsókn á hvaða hlutir koma hér til greina og það er alveg eins að því er frumkvæðið varðar. Við erum að flytja þessa till. vegna þess að að frumkvæði íslenskra stjórnvalda býr íslensk útgerð við meiri háttar takmarkanir á sókn í fiskstofna hér við land. Það liggur fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda að flotinn er allt of stór og hvað eftir annað er rætt um það hér í sambandi við mótun fiskveiðistefnu að það þurfi hreinlega að taka ákveðin skip úr umferð. Málið snýst þess vegna um frumkvæði íslenskra stjórnvalda ekki einstakra útgerðaraðila. Ég vil eindregið nota þetta tækifæri til þess að hnykkja á því að það á ekki að vísa þessu máli frá sér með því að beina frumkvæðinu eitthvað annað. Það á að koma frá stjórnvöldum sjálfum en ekki öðrum.