26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

77. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður beindi tveim fsp. til mín. Annars vegar hvort íslensk stjórnvöld væru reiðubúin að leita samkomulags við Grænlendinga um samstarf í fiskveiðimálum og þeirri spurningu get ég svarað játandi, þegar af þeirri ástæðu að íslensk stjórnvöld hafa þegar leitað eftir slíku samkomulagi og m.a. var þetta málefni til umr. á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Þá spurði hv. síðasti ræðumaður hins vegar hvort við værum reiðubúnir að leita eftir fiskveiðiheimildum í Bandaríkjunum. Ég get líka svarað þeirri fsp. játandi, en á þessu stigi málsins er auðvitað fyrst að fá það fram með hvaða skilmálum Bandaríkjamenn veita slíkar fiskveiðiheimildir og gera útvegsmönnum það ljóst. Þær spurningar hafa verið settar fram og við væntum svara við þeim. Þau svör, sem við þegar höfum fengið, gefa tilefni til nýrra spurninga og upplýsinga að vestan. Ég get verið sammála síðasta ræðumanni um að slík upplýsingaöflun er verkefni íslenskra stjórnvalda og að henni hefur verið unnið, allt frá því að hið svokallaða tilboð kom fram frá aðstoðarutanrrh. Bandaríkjamanna þegar hvalveiðibannið var hér til meðferðar. Hins vegar var það tilboð með ýmsum fyrirvörum, eða a.m.k. ekki án fyrirvara, þannig að ekkert liggur á borðinu. Ég tel þó sjálfsagt að rétt sé að láta á það reyna hvað í því fólst. En ég hlýt að ítreka þá og endurtaka að ekki er tímabært að fara út í beinar samningaviðræður um fiskveiðiheimildir Íslendinga í efnahagslögsögu annarra ríkja fyrr en við vitum hvort áhugi sé til staðar hjá íslenskum útvegsmönnum að nýta sér þær fiskveiðiheimildir. Það þýðir lítið að eyða tíma og fyrirhöfn í að fá slíkar fiskveiðiheimildir ef þær verða ekki notaðar. Meira að segja getur það skaðað Ísland í samningaumleitunum við viðkomandi ríki á öðrum sviðum ef ríkið getur haldið því fram að við nýtum ekki þau hlunnindi sem viðkomandi ríki hefur þegar veitt Íslendingum. Þess vegna verður þetta að haldast í hendur, áhugi íslenskra útvegsmanna að nýta heimildirnar og samningar um að fá slíkar heimildir Íslendingum til handa.