26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2384 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

89. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs aðeins til að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa till. og ánægju með að hún skuli vera hér flutt. Ef þessi till. hefði verið flutt fyrir 15 eða 20 árum og fylgt fram með rökum á borð við þau sem hér voru flutt og rökstudd með ýmiss konar öðrum tilvitnunum er ekki vafi á að landbúnaðurinn væri betur staddur nú en hann er í dag. Offjárfesting í sláturhúsunum hefur valdið bændastéttinni gífurlegu tjóni og auðvitað neytendum líka. Hér hefur verið rangt að farið. Ég skal engan vera að ásaka. Menn voru bjartsýnir hér í eina tíð á þessu landi og töldu að nauðsynlegt væri að byggja þessi glæsihýsi m.a. til að tryggja sér erlenda markaði fyrir landbúnaðarvörur.

Sannleikurinn er nú samt sá, að þar sem ég þekki best til í Skagafirðinum, er kjötið úr litla húsinu miklu betra og það ber öllum saman um — ekki eyðilagðir hausar og ekki sprautað hárum inn í kjöt o.s.frv. Ég held að enginn Skagfirðingur efist um að úr þessu litla ódýra húsi, sem slagur stóð um einu sinni, sé afurðin betri en úr glæsihýsinu. sem betur fer er það hús ekki orðið mjög skuldugt því það er orðið nokkurra ára gamalt, og á ég þar við stóra húsið, en að því er varðar litla húsið, þá er það ekki heldur skuldugt þó að það kostaði ekki stórfé en talsverða peninga að koma því í það horf sem nú er, og síðan hefur það keypt frystivélar o.s.frv. og þó er það mjög vel stætt og hefur getað borgað vel út afurðaverð til bænda.

En ég vona að ævintýrinu sé nú lokið með stóru sláturhúsin og að þessi till. muni m.a. stuðla að því að ekki verði oftar lagt út á þá braut. Og það er rétt að menn hugleiði að þegar verið er að tala um slæman hag launafólks af ýmsu tagi, og það er áreiðanlega rétt að hagur láglaunafólks er mjög bágborinn, þá er það svo með landbúnaðinn að líklega hafa erfiðleikar bænda, sérstaklega sauðfjárbænda, smábændanna, ekki um langa hríð verið eins miklir og einmitt síðustu árin, síðustu misserin. Þeir eru mjög miklir, m.a. af þessari offjárfestingu.

Í þessu sambandi er kannske ekkert úr vegi að vekja á því athygli að hér við Suðurlandsbraut er verið að reisa gífurlegt stórhýsi, nýja mjólkurstöð. Við skulum vona að þar verði rekstur hagkvæmur o.s.frv., en þar er um að ræða óstjórnlega fjárfestingu á þessum okkar erfiðleikatímum. Ég veit ekki betur en mjólkurafurðir í Reykjavík séu með ágætum og að þau húsakynni og sá vélakostur sem nú eru notuð hafi hæft okkur Reykvíkingum vel og hefðu kannske getað gert það í nokkur ár í viðbót. Það væri kannske eðlilegt að menn hugleiddu hvort það mætti ekki fresta þessari framkvæmd og reyna að greiða bændum eitthvað meira fé út því að þeir eru þurfi fyrir fjármuni. Það er enginn vafi á því. Þarna er pottur brotinn.

Ég ætla ekki að fara út í almenna umr. um landbúnaðarmálin, en þessi þáttur, offjárfestingin í vinnslustöðvunum, er ekki hinn minnsti í vandkvæðum bændastéttarinnar. Þar koma og til afurðalán og meðferðin á þeim um langa hríð. Það er nú að verða breyting á því sem betur fer eftir langa og stranga baráttu og vonandi á landbúnaðurinn betri og glæstari framtíð fyrir sér en á horfist í dag.