26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

98. mál, aðgerðir gegn skattsvikum

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á þskj. 119 hef ég leyft mér ásamt Magnúsi H. Magnússyni og Jóni Baldvini Hannibalssyni að flytja till. til þál. um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum. Till. þessi felur í sér að nú þegar verði gert átak bæði á sviði skattrannsókna, skatteftirlits og meðferðar ákæru- og dómsmála í skattsvikamálum. Tillögur þessar miða að því að ná markvissari tökum á skattsvikamálum og bókhaldsbrotum og að gera alla meðferð skattsvikamála hraðvirkari og árangursríkari en nú er.

Færa má fyrir því ýmis rök að öllu skatteftirliti, skattrannsóknum og meðferð ákærumála í skattsvikamálum sé mjög ábótavant og að nauðsynlegt sé að grípa nú þegar til sérstakra aðgerða til að koma frekar í veg fyrir skattsvik.

Ljóst er að engin skipuleg úttekt hefur verið gerð á því hér á landi hve umfangsmikil skattsvikin eru, en í ítarlegri grein, sem Ólafur Björnsson prófessor skrifar í Vísi 8. okt. 1975, er reynt að varpa ljósi á það. Þar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Sú aðferð hefir í seinni tíð einkum verið notuð til þess að gera sér grein fyrir þessu, að bera saman þjóðartekjurnar gerðar upp á grundvelli upplýsinga um magn og verðmæti þjóðarframleiðslunnar annars vegar og skattframtala hins vegar. Sá samanburður hefur verið gerður hér á landi, og samkvæmt þeim upplýsingum, sem mér eru um þetta kunnar, skakkar hér 10– 11%, sem skattframtölin eru lægri en þjóðhagsreikningstölurnar. Þótt hafa beri hugfast við slíkan samanburð að við mat tekna til skatts er ekki fylgt nákvæmlega sömu reglum og við mat verðmætis þjóðarframleiðslu í þjóðhagsreikningum, auk þess sem niðurstöður þjóðhagsreikninganna verða aldrei fullkomlega áreiðanlegar, þá ætti hér þó að vera um nothæfan, grófan mælikvarða að ræða um það, hversu miklu skattsvikin nema fyrir þjóðarbúið í heild. Gera má ráð fyrir að tekjutap hins opinbera vegna skattsvika nemi þó meiru en þessu, þar sem líklegt er að það séu einkum tekjur er lenda myndu í háum skattstiga sem stungið er undan.“

Þær upplýsingar sem hér koma fram hjá prófessor Ólafi Björnssyni eru fengnar úr 12. hefti rits Framkvæmdabankans, „Úr þjóðarbúskapnum“, sem út kom í júní 1962 í grein eftir Torfa Ásgeirsson og Björn Braga Jónsson, „Þjóðarframleiðslan, verðmætaráðstöfun og þjóðartekjur 1945—1960“. Í þessari grein kemur fram að jafnhliða tekjuframtalsaðferðinni voru þjóðartekjur fjögurra síðustu áranna, 1957–1960, áætlaðar sérstaklega skv. ráðstöfunaraðferðinni. Niðurstöðurnar sýndu hærri þjóðartekjur skv. ráðstöfunaraðferðinni en tekjuframleiðsluaðferðinni öll árin og voru þjóðartekjur 6– 14% hærri skv. ráðstöfunaruppgjöri en tekjuframtalsuppgjöri. Í grein Ólafs Björnssonar, sem áður er vitnað til, kemur einnig fram, með leyfi forseta:

„En hverjir eru það sem koma tekjum sínum þannig undan skatti? Mér vitanlega hefir engin tilraun verið gerð til þess hér á landi að kanna það. En í bók eftir norskan hagfræðing prófessor Leif Johansen, sem lögð hefir verið til grundvallar kennslu í fjármálafræði í seinni hluta viðskiptafræði við Háskóla Íslands, er vitnað í athugun sem norska hagstofan hefir gert varðandi þetta. Niðurstaða hennar er sú, að tekjur launafólks teljist jafnan fram að fullu, og sama máli gegnir um allar tekjur af fiskveiðum, en í öllum öðrum atvinnugreinum sé því mjög ábótavant að tekjur þeirra, er stunda sjálfstæðan atvinnurekstur teljist fram.“

Ég tel mjög brýnt að reynt verði að gera úttekt á því hér á landi hversu umfangsmikil skattsvikin eru í hverri atvinnugrein og hvernig t.a.m. einstaka stéttir eða atvinnugreinar geta hagnýtt sér glufur sem eru í skattalögunum eða ívilnandi ákvæði. Slík úttekt gæti komið að miklum notum fyrir stjórnvöld þegar reynt er að meta á hvern hátt best er að koma í veg fyrir skattsvik. Ég hef því einnig ásamt öðrum þm. Alþfl. lagt fram till. um að allsherjarúttekt verði gerð á þessum málum í þjóðfélaginu í hverri einustu atvinnugrein og hjá hverri atvinnustétt.

En ef við gefum okkur að tölur þær sem prófessor Ólafur Björnsson setur fram í sinni grein séu nærri lagi og meta megi skattsvikin til 14–11% af þjóðartekjum er hægt að fá nokkra mynd af því sem hér er um að ræða. Vergar þjóðartekjur á verðlagi ársins 1980 voru fyrir árið 1982 13 milljarðar 378 millj. kr. Ef sú upphæð er færð fram til verðlags 1983 miðað við gengisvísitölu í nóvember 1983 fæst út að vergar þjóðartekjur á verðlagi í nóv. 1983 eru 48 milljarðar 27 millj. kr. Ef 11% af þeirri upphæð eru dregin undan skatti er um að ræða að á árinu 1983 hafi undandráttur undan skatti verið 5 milljarðar 283 millj. kr. og eru þá söluskattssvikin ekki með talin. Hér er ekki um neina smáupphæð að ræða, eða um 33% af áætluðum heildartekjum ríkissjóðs fyrir árið 1984. Mér er ekki kunnugt um að önnur tilraun en ég hef hér lýst hafi verið gerð til þess að meta stærðargráðu skattsvika hér á landi og er þetta svipað þeim tölum sem fram hafa komið opinberlega í nokkrum öðrum löndum en ég mun koma að því síðar í mínu máli.

Nú er hér auðvitað um mat á skattsvikum að ræða en engu að síður tel ég að þessar tölur gefi okkur mjög ákveðna mynd af skattsvikunum ekki síst þar sem svipaðar tölur hafa komið fram í nokkrum öðrum löndum. Í þau sex ár sem ég hef setið á Alþingi hefur aldrei nein umræða svo máli skipti farið fram um skattsvik hér á hv. Alþingi. Þm. nefna þetta orð svona í framhjáhlaupi þegar verið er að ræða kjör manna almennt í þjóðfélaginu en að nokkur ítarleg umræða hafi farið fram um þessi mál og hvernig best sé að taka á þeim hef ég ekki orðið vör við þennan tíma.

Við erum ekki að tala um neina smáaura ef það mat er rétt að sem samsvarar yfir 5 milljörðum á verðtagi ársins 1983 hafi árlega verið stolið undan skatti. Í vetur hefur verið ítarlega fjallað um alvarlegt mál, þ.e. samdrátt í þorskafla um 100 þús. lestir sem að mati fiskifræðinga þarf að vera á næsta ári og mundi þá gerbreyta öllum efnahagsstærðum í þjóðfélaginu, m.a. forsendum fjárlagafrv. Að mati Þjóðhagsstofnunar yrði um að ræða 12–13% samdrátt útflutningsframleiðslunnar sem nemur um 5 milljörðum kr. á næsta ári. Þetta er vissulega stór upphæð og mjög alvarlegt mál á ferðinni en þessi upphæð er þó kannske ekki nema þriðjungur þess sem stolið er undan skatti árlega.

Skattsvikamálin og hvað sé til úrbóta til að koma í veg fyrir skattsvik er samt sjaldnast rætt hér í þingsölum. Ég vona, herra forseti, að það hvað fáir hv. þm. sjá ástæðu til að sitja nú undir þessari umr. þurfi ekki að lýsa því að almenn deyfð og áhugaleysi sé í þingsölum um þessi mál. (JBH: Hverju lýsir það þá?) Herra forseti, hér eru aðeins fimm eða sex þm. sem sjá ástæðu til að sitja undir þessari umr. og ræða um skattsvik sem er þó alvarlegt mál í þjóðfélaginu þegar margir stórir hópar komast upp með að greiða ekki það sem þeim ber til samfélagslegra þarfa. En kominn er tími til að alvarleg umr. fari fram á hv. Alþingi um skattsvik í þjóðfélaginu og hvernig á markvissan hátt eigi við þeim að bregðast.

Ljóst er að aðeins brot af því sem dregið er undan skatti innheimtist vegna skatteftirlits. Skv. upplýsingum sem ég hef aflað mér hafa hækkanir hjá ríkisskattstjóra með viðurlögum vegna athugunar rannsóknardeildar ríkisskattstjóra orðið þessar á árunum 1981–1983: Frá 1. jan. til 31. des. 1981 innheimtast vegna þessa eftirlits tæpar 2 millj. 160 þús. kr. - ég undirstrika að þetta er með viðurlögum — frá 1. jan. til 31. des. 1982 innheimtust vegna skatteftirlits tæpar 3 millj. kr. og skv. tölum sem ég hef yfir 1. jan. til 24. nóv. á s.l. ári hafði þá innheimst vegna skatteftirlits rannsóknardeildar ríkisskattstjóraembættisins á árinu 1983 5 millj., 386 þús. kr., þar af rúmar 4.4 millj. vegna undandráttar á söluskatti og liðlega 900 þús. vegna tekjuskatts og útsvars.

Hafa ber í huga að þessar upphæðir koma inn vegna framtala sem ítarlega skoðun fá hjá rannsóknardeildinni en síðan er um endurálagningu að ræða í fleiri málum sem ég mun koma að hér síðar. Við getum einnig tekið dæmi af skattstofunum. Hækkanir með viðurlögum á söluskatti hjá öllum umdæmum nema tveimur árið 1980, eða alls níu skattstofum var eftirfarandi, en þessar hækkanir koma fram við samanburð á söluskattsskýrslum og ársreikningum: Vegna þessa eftirlits með söluskatti á skattstofum komu á árinu 1981 vegna söluskatts 1980 rúmlega 20 millj. kr. Við þetta unnu 8–12 menn. Ef tekinn er til samanburðar rekstrarkostnaður þessara níu skattstofa var hann á því ári, 1981 skv. ríkisreikningi um 24 millj. kr. eða um 4 millj. umfram það sem innheimtist vegna eftirlits með söluskatti á skattstofunum.

Hér ber einnig að hafa í huga að á skattstofunum er auðvitað um að ræða í einhverjum mæli endurálagningu. En ljóst er þó að sú endurálagning beinist frekar að framtölum hjá launþegum en atvinnurekstrinum þar sem skattstofurnar hafa margar hverjar ekki yfir þeim sérhæfða mannafla að ráða til að fara yfir flókin framtöl í atvinnurekstrinum og því er varla um stórar upphæðir að ræða sem innheimtast vegna endurálagningar á skattframtölum þó alltaf geti verið þar um undantekningartilvik að ræða.

Ef gerður er samanburður á því sem innheimtist vegna skatteftirlits hjá rannsóknardeild ríkisskattstjóra og launakostnaði þeirrar deildar kemur eftirfarandi í ljós:

Hækkun vegna rannsóknardeildarmála 1. jan. 1982 til 31. des. 1982 vegna eftirlits deildarinnar var tæplega 3 millj. sem kom inn í 13 málum sem tekin voru til ítarlegrar meðferðar af deildinni. Launakostnaður rannsóknardeildar var á árinu 1982 tæplega 3.5 millj. kr. eða 1/2 millj. fram yfir það sem innheimtist vegna eftirlits með framtölum. Þessar upphæðir eru vegna 13 mála og komu þar inn vegna stærstu málanna sem fyrir voru tekin á því ári og ítarlegasta skoðun fengu. En til sérstakrar meðferðar á því ári voru tekin í allt 207 mál sem ég mun nú koma að. Ljóst er að eitthvað getur innheimst vegna endurálagningar í þeim málum en á móti hljóta einnig að koma ívilnandi lækkanir vegna kæru framteljenda.

Ljóst er að hlutfallslega mjög fá mál eru ítarlega skoðuð árlega. Árið 1982 voru skráð framtöl félaga samtals 6030 og einstaklinga í atvinnurekstri 17 569, eða samtals 23 599 framtöl sem skráð voru. Það ár voru tekin fyrir hjá rannsóknardeild ríkisskattstjóraembættisins 207 mál sem sérstaka meðferð fengu, eða tæplega 0.9% framtala félaga og einstaklinga í atvinnurekstri. Á því ári var einungis um að ræða 13 mál eða 20 úrskurði og kæruúrskurði sem upp voru kveðnir í rannsóknarmálum, eða tæplega 10% af þeim málum sem voru sérstaklega skoðuð. Þau voru að stærstum hluta söluskattsbrot, eða 2.3 millj. af 3 millj. tæplega sem inn komu vegna þessara sérstöku rannsókna.

Á árinu 1983 voru skráð framtöl félaga samtals 6433 og einstaklinga í atvinnurekstri 16 724, eða samtals 23 157. Af þessum 23 157 framtölum hafa 416 fengið sérstaka skoðun hjá rannsóknardeild ríkisskattstjóra, eða 1.8% framtala félaga og einstaklinga í atvinnurekstri, og rúmar 5.4 millj. hafa innheimst vegna framtala sem ítarlega voru skoðuð á s.l. ári, eða fram til 24. nóv. s.l., en um það hef ég þessar upplýsingar.

Ef reynt er að draga upp mjög grófa mynd af því hvað innheimtist vegna skatteftirlits samanborið við að 10– 11% þjóðartekna séu dregnar undan skatti, eins og fram kemur í áður tilvitnaðri grein Ólafs Björnssonar prófessors frá 8. okt. 1975, þá kemur eftirfarandi í ljós ef tekið er sérstaklega fyrir árið 1982:

Í Hagtölum mánaðarins í nóv. s.l. kemur fram að vergar þjóðartekjur á verðlagi ársins voru á árinu 1982 13 milljarðar 378 millj. kr. eins og áður er getið. Ef sú upphæð er færð fram til verðlags 1982, en í fyrra dæminu tók ég 1983, miðað við gengisvísitölu, þá er um að ræða 29 milljarða 541 millj. kr. Ef tekin eru 11% af þeirri upphæð og gert ráð fyrir að sú upphæð gefi mynd af því hvað mikið var dregið undan skatti á árinu 1982, þá fæst talan 3 milljarðar 250 millj. kr. Ef gert er ráð fyrir að svipað hlutfall hafi innheimst vegna eftirlits skattstofa á söluskatti á árinu 1982 eins og innheimtan gaf árið 1981 vegna innheimts söluskatts, þá gefur það framreiknað til ársins 1982 með lánskjaravísitölu um 30 millj. kr. Í rannsóknardeildarmálum innheimtist vegna eftirlits eins og áður er getið á árinu 1982 um 3 millj. kr. vegna þeirra mála sem ítarlegustu meðferðina fengu hjá deildinni. Samtals gefa því þessar innheimtur vegna skatteftirlits um 33 millj. kr. á árinu 1982. Ef skattsvikin hafa á því ári verið 3 milljarðar 250 millj. kr., eins og áður er lýst, þá innheimtist vegna skatteftirlits á því ári aðeins liðlega 1% þess sem skotið er undan skatti. Reikna má einnig með að nokkuð innheimtist vegna endurálagningar í töluvert fleiri málum en þeim sem ítarlega skoðun fá, eins og áður er getið, en á móti kemur líka að nokkuð er um lækkun á álagningu að ræða vegna kæru framteljenda og ívilnandi ákvæða í skattlöggjöf. Að þessu samanlögðu er ekki fjarri lagi að áætla að vegna skatteftirlits hjá skattstofum og rannsóknadeild ríkisskattstjóra innheimtist 1–2% af því sem áætlað er að svikið sé undan skatti, ef notuð er sú viðmiðun sem ég hef áður lýst. Hér er auðvitað, og það ber að undirstrika, um áætlun að ræða sem gefur grófa mynd en engu að síður ekki fjarri lagi. Ekki síst þar sem 10–11% þjóðartekna sem áætlað er að skotið sé undan skatti hér á landi er sambærilegt við áætlaða tölu nokkurra annarra landa sem ég mun koma að síðar í mínu máli.

Með þessum tölum sem ég hef greint frá er ég á engan hátt að kasta rýrð á það starf sem unnið er á skattstofum eða skattrannsóknardeild ríkisskattstjóra. En þessar tölur gefa okkur það ljóslega til kynna að ekki er nægjanlega vel búið að skattstofum eða skattrannsóknardeild að því er mannafla, aðbúnað og allt eftirlit varðar og ljóst er að skattstofum og rannsóknardeild helst mjög illa á starfsfólki með sérþekkingu á sviði skattamála eða með bókhaldsþekkingu. Þessar tölur eru miklu fremur áminning til stjórnvalda um sofandahátt og sinnuleysi í þessum málum og að stjórnvöld hafi ekki nægjanlega vel búið að skattstofnum og rannsóknardeild skattsvikamála til að hægt sé frekar að fyrirbyggja skattsvik. Afleiðing þess er að flóknari skattframtöl, t.a.m. fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri, fá mjög litla skoðun sérstaklega hjá skattstofunum. Allur tími og starfskraftur fer í að yfirfara launamannaframtölin og gefur auga leið að lítið kemur út úr því eftirliti, enda þeir flestir einstaklingar sem telja fram og hafa ekki atvinnurekstur með höndum og eru í lítilli aðstöðu til að svíkja undan skatti.

Um þennan þátt segir prófessor Ólafur Björnsson í áður tilvitnaðri grein í Vísi 8. okt. 1975, með leyfi forseta:

„Telja má víst að það sama eigi við hér á landi og í Noregi að tekjur launþega teljast jafnan fram að fullu. Skattyfirvöld hafa nefnilega það kverkatak á launafólki, hvað framtöl þess varðar, að launin eru gefin upp af atvinnurekendum þess. Ef atvinnurekandi gefur ekki upp það kaup sem hann hefur greitt, kemur það fram í auknum ágóða hans, þannig að hann yrði sjálfur að greiða skatt af því kaupi, sem hann gefur ekki upp. Aðeins þeir, sem sjálfstæðan atvinnurekstur hafa með höndum, hvort heldur þeir hafa aðra í þjónustu sinni eða ekki, hafa þannig aðstöðu til þess að koma tekjum sínum undan skatti. Þó er þessi aðstaða mismunandi eftir því hvers konar atvinnurekstur er um að ræða.

Í stórfyrirtækjum, sem vegna eigin þarfa verða að hafa nákvæmt bókhald má gera ráð fyrir að tekjur séu yfirleitt rétt framtaldar, bæði laun og ágóði. Að vísu er það „fræðilegur möguleiki“ að slík fyrirtæki skili skattyfirvöldum fölsuðum reikningum en það er þó alltaf óhagræði, ef fyrirtæki eða einstaklingar sem ætla að brjóta lög þurfa að hafa fleiri eða færri starfsmenn sína í vitorði, því slest getur uppá vinskapinn síðar eins og mörg dæmi munu um, bæði hér á landi og víðar. Gera má því ráð fyrir að slíkt séu undantekningar.

Hvað snertir atvinnurekendur eins og bændur, útvegsmenn og innflytjendur, þá geta skattyfirvöld eftir ýmsum leiðum fengið upplýsingar um brúttótekjur þeirra. Þar sem skattar eru þó lagðir á nettó- en ekki brúttótekjur, verður slíkt eftirlit þó allt ónákvæmt.

Þá eru ótaldir þeir fjölmennu hópar, sem annast margvísleg þjónustustörf í smárekstri, þar sem fáir eða engir vinna nema eigandinn og fjölskylda hans, svo sem handverksmenn, smákaupmenn, leigubifreiðastjórar er keyra eigin bíl, tannlæknar, málflytjendur, þeir sem stunda einkakennslu o.fl. o.fl. Margir þessara aðila munu að vísu bókhaldsskyldir en það hefir lítið að segja í þessu sambandi því þeir geta sjálfir ráðið því, hvað í bækurnar er fært. Hér er allt virkt skattaeftirlit í rauninni óframkvæmanlegt.“

Síðar í grein sinni segir Ólafur Björnsson, með leyfi forseta:

„Aðalatriðið er, að fjölmennar stéttir í þjóðfélaginu hafa til þess aðstöðu að ákveða sjálfar, hvað þær leggja fram til almenningsþarfa og hefir mér vitanlega ekki verið bent á neinar leiðir til þess að koma í veg fyrir slíkt.“

Og áfram segir Ólafur:

„Viðbrögð skattayfirvalda við hinum síendurteknu áskorunum launþegasamtakanna um bætt skattaeftirlit, hafa því jafnan verið þau að herða eftirlitið með launþegunum sjálfum, þar sem þau gera sér ljósan vanmátt sinn til þess að framkvæma eftirlit með þeim, sem raunverulega hafa aðstöðu til þess að koma tekjum sínum undan skatti.“

Síðar í grein sinni bætir hann við:

„Á sama hátt er hinu herta skattaeftirliti samkvæmt kröfu launþegasamtakanna beint gegn launþegunum sjálfum. Það er það eina, sem talið er framkvæmanlegt. Með þessu skapast mikið þjóðfélagslegt ranglæti gagnvart launafólki sem furðu gegnir að samtök launþega hafa hingað til lítt látið til sín taka. Launamaður, sem láist að telja fram 1–2% af tekjum sínum á á hættu að vera dæmdur í þungar skattsektir á sama tíma og allir ættu að vita, að ekkert er hægt við því að gera að fjölmargir skattgreiðendur telja e.t.v. aðeins fram þriðjung tekna sinna.“

Af því sem hér hefur verið sagt má öllum ljóst vera að beina verður öllu skatteftirliti og skattrannsóknum í miklu meira mæli að atvinnurekstrinum sjálfum og einstaklingum í atvinnurekstrinum. Í 5. tölul. þeirrar þáltill. sem hér er til umr. er lagt til að ríkisstj. beiti sér fyrir nauðsynlegum breytingum á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, svo og framtalsreglum til þess að tryggja áreiðanlegri og fjölþættari upplýsingar um fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri. Endurskoða þarf sérstaklega í því sambandi frádrætti af tekjum í atvinnurekstri, þar með talinn risnukostnað, bifreiðafríðindi, launamat, afskriftir o.fl. Ég tel að endurskoða verði þær viðmiðunarreglur sem notaðar eru til að reikna einstaklingum í atvinnurekstri laun og tel að í mörgum tilfellum hljóti þær að vera allt of lágar og þessar tölur þurfi endurskoðunar við. Hægt er að gefa af því dæmi. Í viðmiðunarreglum til ákvörðunar reiknaðs endurgjalds tekjuárið 1982, skattframtal 1983, sem ríkisskattstjóri gaf út 1. febr. 1983, kom eftirfarandi í ljós:

1. Sérmenntaðir menn, sem unnu við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í sérgrein sinni, en undir þann flokk falla t.d. lyfjafræðingar, læknar, lögfræðingar, löggiltir endurskoðendur, ráðgjafarsérfræðingar hvers konar, tannlæknar, sérfræðingar og fleiri. Meðaltal viðmiðunartekna þessara aðila vegna tekna 1982 var tæplega 20 þús. kr. á mánuði vegna skattframtals 1983.

2. Stjórnendur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, en undir þann flokk falla t.d. iðnaður og iðjurekstur, innflutnings- og útflutningsverslun hvers konar og umboðssala, útgerð, verktakastarfsemi og persónuleg þjónusta. Þar var meðaltal viðmiðunartekna tekjuárið 1982 16 400 kr.

3. Menn sem vinna einir við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi en gætu þó greitt laun sem samsvarar árslaunum allt að fjögurra starfsmanna. Viðmiðunartekjur þessara aðila vegna skattframtala fyrir árið 1983 eða tekna 1982 voru 12 300 kr.

4. Iðnaðarmenn, en undir þann flokk falla iðnaðarmenn við byggingarframkvæmdir hvers konar, járn- og vélsmíði, skipasmíði, blokksmíði, bifreiðaviðgerðir hvers konar auk annarra iðnaðarmanna. Viðmiðun árslauna þeirra fyrir árið 1982 var 126 þús. upp í 159 þús. eða að meðaltali um 11 600 kr. á mánuði fyrir árið 1982.

5. Og að lokum ef teknir voru menn sem vinna einir við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, en þar eru nefndir bifreiðastjórar, hreingerningamenn eða stjórnendur vinnuvéla og fleiri, þá var viðmiðun árslauna þeirra fyrir árið 1982 95 þús. kr. eða sem samsvarar tæplega 8 þús. kr. á mánuði.

Sé þetta dregið saman kemur í ljós að hæstu viðmiðunartekjur til ákvörðunar reiknaðs endurgjalds tekjuárið 1982, skattframtal árið 1983, voru sérmenntaðir menn sem starfa að sérgrein sinni ásamt sérmenntuðum starfsmanni svo og sérfræðingar á sérstöku sviði sérmenntunar sinnar með eða án aðstoðarmanna sem höfðu í árslaun 279 þús. á árinu 1982 skv. viðmiðun skattstjóra. En lægstu viðmiðunartölur höfðu menn sem unnu einir við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og höfðu í árslaun 95 þús. kr.

Til samanburðar má taka launþega á árinu 1982 en þá var lágmarkstekjutrygging 82 þús. Árstekjur skv. úrtaki kjararannsóknarnefndar voru á árinu 1982 hjá konum frá 106 þús. kr. upp í 165 þús. og hjá karlmönnum 150 þús. upp í 232 þús.

Skv. þessu geta þeir sem vinna einir við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi ákvarðað sér lægri laun en konur sem lægst höfðu launin skv. úrtaki kjararannsóknarnefndar, þ.e. konur í fatasaumi með 106 þús. kr. árstekjur 1982. En skv. viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra hafa menn sem vinna einir við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi það sama ár í árslaun 95 þús. kr.

Það sem vekur nokkra furðu í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra eru eftirfarandi ákvæði sem þar koma fram, með leyfi forseta:

„Ríkisskattstjóri skal miða viðmiðunarreglur sínar við laun fyrir sambærileg störf í venjulegum vinnutíma og hafa hliðsjón af gildandi kjarasamningum og raunverulegum tekjum í viðkomandi starfsgrein. Þar sem raunverulegar tekjur í viðkomandi starfsgreinum geta verið misjafnar eftir skattaumdæmum og jafnvel innan þeirra er mat ríkisskattstjóra eingöngu byggt á launum í venjulegum vinnutíma, þ.e. 40 klst. vinnutíma ásamt gildandi orlofi skv. kjarasamningum.“

Aðalreglan er því skv. þessu að miða við kjarasamninga og dagvinnutekjur en reikna verður þó með að um eftirvinnu sé að ræða einnig í þessum starfsgreinum svo og að um hærri laun sé að ræða en greitt er skv. kjarasamningum. Ég tel að af þessu megi ljóst vera að nauðsyn ber til þess að endurskoða það launamat sem lagt er til grundvallar hjá ríkisskattstjóra hjá þeim sem hafa með höndum atvinnurekstur.

Ég hef einnig reynt að afla mér upplýsinga um hvaða viðmiðun sé notuð varðandi risnu sem atvinnureksturinn getur haft frádráttarbæra. Eftir því sem ég kemst næst gilda ekki um það neinar fastar reglur en skv. reglugerð nr. 245 frá 31. des. 1963, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram í ákvæði 27. gr. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þá má og draga frá risnu vegna atvinnurekstrar eftir mati skattstjóra enda verði hún talin sem skyldukvöð eða óhjákvæmileg til öflunar tekna.“

Skv. þessu er það mat ríkisskattstjóra í hverju einstöku tilfelli hvað mikið megi draga frá í risnu vegna atvinnurekstrar en eftir því sem næst verður komist er ekki um neinar ákveðnar viðmiðunarreglur að ræða.

Í 3. tölul. þessarar þáltill. kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Að endurskoða refsilöggjöf og refsiákvæði einstakra laga, svo sem skatta- og bókhaldslaga, í því skyni að samræma þau og beita í auknum mæli sjálfvirkum sektarákvæðum fyrir afmörkuð brot í stað tímafrekra dómsrannsókna á flóknum, umfangsmiklum afbrotum sem leiða af sér refsivist í lengri eða skemmri tíma.“

Ég tel, herra forseti að endurskoða þurfi öll skattsektarákvæðin í tekjuskattslögunum. Má þar t.d. nefna grein 107 en þar eru skattsektarupphæðir frá 5–10 þús. kr. sem ekki hafa breyst frá 1981 og eingöngu um fasta krónutölu þar að ræða.

Þegar tekið er tillit til þess hve öll rannsóknar- og dómsmeðferð tekur langan tíma í skattakerfinu er ljóst að það álag sem skattstjóri má bæta við vantalda skattstofna eða 25% er allt of lágt og að þeir sem svíkja undan skatti geta í raun hagnast á því þegar málin eru svo lengi í rannsóknar- og dómsmeðferð og aðeins kemur 25% álag ofan á þessa vantöldu skattstofna. Nýlegt dæmi er um það að tekjuskattsvikamál hafi verið í meðferð í kerfinu frá árinu 1977. Hægt er að taka dæmi um það hve þessar skattsektir eru í raun lágar og þurfa virkilegrar endurskoðunar við.

Á árinu 1981 sendi rannsóknardeild ríkisskattstjóra 23 mál til ríkisskattanefndar til úrskurðar sem rannsóknardeildin taldi að sekta bæri í. Aðeins var þó sektað í 8 þessara mála og námu skattsektir 206 þús. kr. En á árinu 1982 námu skattsektir aðeins 2 þús. kr. Á síðasta ári fram til 24. nóv. námu skattsektir 379 þús. kr. í 6 málum en ekki var sektað í tveim af þeim málum sem skattrannsóknardeild sendi ríkisskattanefnd.

Mín skoðun er sú að sektarákvæðum sé allt of mildilega beitt í skattasvikamálum. Í 107. gr. tekjuskattslaga eru ákvæði um að skýri aðili af ásetningi eða af stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt hans eða eignarskatt skal hann greiða sekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan er dregin. Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt með áorðnum breytingum er ákvæði sem kveður á um að skýri söluskattsskyldur aðili af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um söluskatt hans eða afhendi hann eigi á lögmæltum tíma söluskattsskýrslur né þann söluskatt sem hann hefur innheimt eða honum ber að innheimta skal honum auk ógreidds söluskatts gert að greiða allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem undan var dregin eða vanrækt var greiðsla á. Þeim ákvæðum sem ég hef hér lýst hefur aldrei verið beitt að fullu, langt í frá. Í framkvæmd hefur aldrei verið um tíföldun á fjárhæð að ræða í sekt heldur er algengast að þetta sé frá 0.5 og upp í mesta lagi tvöföldun, þ.e. í stað þess að greiða sekt allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem undan er dregin, eins og kveðið er á um í lögum, er einungis um að ræða frá hálfföldun upp í mesta lagi tvöföldun á þeirri skattfjárhæð sem undan er dregin.

Af því sem ég hef sagt má draga þetta mál saman með einföldum hætti:

1. Ef tekið er mið af því sem kemur fram í grein Ólafs Björnssonar í okt. 1975, þar sem fram kemur að áætla megi að 10–11% af þjóðartekjum séu svikin undan skatti, þá er um að ræða að á verðlagi 1983 miðað við gengisvísitölu í nóv. 1983 hafi um 5 milljarðar og 283 millj. kr. verið dregnar undan skatti. Er það í kringum 1–2% af því sem næst inn vegna skatteftirlits.

2. Vegna þess hve skattstofur og rannsóknardeild hefur yfir lítt sérhæfðum mannafla að ráða til að rannsaka og hafa eftirlit með skattframtölum þá beinist öll skattrannsókn og eftirlit að launþegaframtölum á skattstofunum, sem eru einfaldari, en mjög lítið virðist vera rannsakað af framtölum einstaklinga í atvinnurekstri og framtölum fyrirtækja. Afleiðing þess er að miklu minna næst inn vegna skatteftirlits heldur en hægt væri ef þungi rannsóknarinnar beindist meira að atvinnurekstrinum og framtölum fyrirtækja.

3. Rannsókn og dómsmeðferð er öll of seinvirk og getur tekið mörg ár að kveða upp úrskurð í skattsvikamálum.

4. Skattsektarákvæðum er allt of vægilega beitt. skattsvikarar eru í raun teknir silkihönskum af skattyfirvöldum og hinn langi dráttur sem er á rannsóknar- og dómsmeðferð hefur þær afleiðingar að skattsvikarar geta í raun hagnast á undandrættinum.

5. Það er ljóst að allt of fá framtöl einstaklinga og fyrirtækja í atvinnurekstri eru rannsökuð sérstaklega á hverju ári af rannsóknardeild ríkisskattstjóraembættisins eða tekin til sérstakrar meðferðar, eða á árinu 1982 207 framtöl af tæplega 24 þús. skráðum framtölum félaga og einstaklinga í atvinnurekstri eða innan við 1%. Og frá 1. jan. 1983 til síðari hluta nóv. höfðu aðeins verið skoðuð 416 af 23 000 skráðum framtölum félaga og einstaklinga í atvinnurekstri, eða innan við 1%.

6. Of lítið hefur verið gert í því að áætla umfang skattsvika og ekkert er vitað í hvaða atvinnugreinum eða hjá hvaða atvinnustéttum þau helstu eru.

7. Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra til ákvörðunar reiknaðs endurgjalds tekjuárið 1982 virðist þurfa að endurskoða þar sem viðmiðunartölur eru mjög lágar með hliðsjón af tekjum launþega á hinum almenna vinnumarkaði eins og ég hef lýst hér áður. Risnukostnað og bifreiðafríðindi þarf einnig að endurskoða.

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Þessi till. til þál. kveður á um:

1. Endurskoðun á lögum um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74 1972, með síðari breytingum, í þeim tilgangi að stofna sérdeild við Sakadóm Reykjavíkur eða sérdómstól sem fengi a.m.k. eftirtalin afbrot til meðferðar: skattsvik, bókhaldsbrot, gjaldeyrisbrot, faktúrufalsanir, verðlagsbrot og fleiri skyld brot.

2. Endurskoðun á lögum og meðferð opinberra mála með síðari breytingum. Sérstaklega skal athuga í því sambandi hvort hagkvæmt sé að fjölga og sérhæfa saksóknara í ákveðnum málaflokkum eða veita öðrum aðila, eins og ríkisskattstjóra eða skattrannsóknarstjóra ákæruvald í skattsvikamálum.

Þessir tveir tölul. miða að því að gera alta rannsóknar- og dómsmeðferð fljótvirkari og skilvirkari en nú er raunin á.

3. Eins og ég hef áður um getið kveður 3. tölul. á um að endurskoða refsilöggjöf og refsiákvæði einstakra laga, svo sem skatta- og bókhaldslaga, í því skyni að samræma þau og beita í auknum mæli sjálfvirkum sektarákvæðum fyrir afmörkuð brot í stað tímafrekra dómsrannsókna á flóknum, umfangsmiklum afbrotum sem leiða af sér refsivist í lengri eða skemmri tíma.

4. Að undirbúa nauðsynlegar breytingar á bókhaldslögum nr. 51/1968 og reglugerð þar að lútandi er tryggi gleggri og áreiðanlegri fylgiskjöl með skýrum upplýsingum fyrir utanaðkomandi aðila, t.d. skattrannsóknarmenn, þar sem fram kemur nákvæmari sundurliðun reikninga. Enn fremur að skuldbinda alla aðila til að taka í notkun tölusett eyðublöð og reikningsform sem eru útgefin eða viðurkennd af opinberum aðilum, t.d. skattstofum.

5. Að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, svo og framtalsreglum til þess að tryggja áreiðanlegri og fjölþættari upplýsingar um fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri. Endurskoða þarf sérstaklega í því sambandi frádrátt af tekjum í atvinnurekstri, þ.m.t. risnukostnað, bifreiðafríðindi, launamat, afskriftir o.fl.

6. Láta tafarlaust fara fram gagngera endurskoðun á fyrirkomulagi söluskattskerfisins með það að markmiði að koma á skilvísara eftirliti við innheimtu söluskatts. Athuga hvort hægt væri að fækka undanþágum og lækka þar með söluskattinn. Ljóst er að í öllu skatteftirliti er það sem innheimtist vegna skattrannsóknareftirlits, langmest vegna söluskattssvika. T.a.m. að á árinu 1982 voru eins og áður er getið innheimtar tæplega þrjár milljónir kr. vegna skatteftirlits rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, þar af tæpar 2.4 millj. vegna söluskattssvika.

7. Lagt er til að aukinni hagræðingu og tölvuvæðingu verði komið á við upplýsingaöflun og úrvinnslu skattframtala og fylgiskjala.

8. Að ríkisstj. beiti sér fyrir að veitt verði stórauknu fjármagni til skattaathugana, einkum til rannsóknardeildar ríkisskattstjóraembættisins, þannig að hægt sé að taka til ítarlegrar rannsóknar u.þ.b. 10–20% skattframtala fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri árlega. En eins og fram kom í mínu máli áðan er það innan við 1% sem fær ítarlega skoðun. Eðlilegt er að skattsektarfé ríkisskattanefndar standi straum af rekstri deildarinnar að einhverju leyti. Að öðrum kosti verður að koma til sérgreint fjármagn úr ríkissjóði eða frá hinu almenna skatteftirliti á framtölum launþega.

Ljóst er að allt of fá skattframtöl fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri eru rannsökuð sérstaklega á hverju ári þegar aðeins um er að ræða kringum 1% framtala. Það er ljóst að allt skatteftirlit og rannsókn kostar töluverða peninga en miðað við það hve mikið virðist vera dregið undan skatti og mikið er um skattsvik verður að ætta að hert skattaeftirlit og bætt dómsmeðferð mála geti skilað sér inn aftur í auknum tekjum til ríkissjóðs.

Þegar til þess er litið að í skattsvikum liggur eitt hrikalegasta misréttið og ein helsta meinsemdin í þjóðfélaginu er furðulegt, svo ekki sé meira sagt, að ekki skuli fyrir löngu hafa verið gerðar markvissar og skipulegar aðgerðir og úrbætur af hálfu stjórnvalda til að koma í veg fyrir skattsvik og bókhaldsbrot.

Víða í þjóðfélaginu má sjá af lífskjörum og lífsstíl manna að oft er hrópandi ósamræmi milli lifnaðarhátta og þess sem greitt er í sameiginlegan sjóð landsmanna. Hlýtur það að vera siðferðileg skylda stjórnvalda að koma í veg fyrir slíkt með öllum tiltækum ráðum og að á þessum málum verði tekið með einbeitni og fyllstu hörku.

Herra forseti. Ég vil í lokin til fróðleiks og upplýsinga greina frá því sem fram kemur í General Report útgefnu 1983 af International Fiscal Association. Þar kemur fram hvað áætlað er að undandráttur sé mikill í skatti í nokkrum löndum. Í fyrsta lagi kemur fram að í Bandaríkjunum sé undandrátturinn 10% af mögulegum skatttekjum. Í öðru lagi kemur fram að í Svíþjóð sé undandrátturinn 3.5–5.5% af brúttóþjóðarframleiðslu. Í Frakklandi er áætlað að 23% af tekjuskatti tapist vegna skattsvika. Í Finnlandi er áætlað að 3% af árlegum sköttum tapist, en í Kanada 10% af innheimtum tekjuskatti. Í Vestur-Þýskalandi er áætlað að sem samsvari 2% af þjóðarframleiðslunni sé stolið undan skatti en sú tala kemur fram í Business Week 13.3. 1978. Aðrar tötur sem ég hef hér greint frá koma fram í General Report, útgefnu 1983, eins og ég hef áður lýst. Eins og áður er getið kemur fram í grein í Vísi 8. okt. 1975 eftir Ólaf Björnsson að talið er að um 10–11% þjóðartekna séu dregin undan skatti hér á landi.

Herra forseti. Það er von flm. þessarar till. að stjórnvöld telji nú tímabært að gera alvarlegt átak í því skyni að breyta almennum launamannaskatti í sanngjarna tekjuöflunarleið fyrir samfélagið sem verði til þess að hver og einn þjóðfélagsþegn greiði það sem honum ber af sínum tekjum til samfélagslegra þarfa. Að lokinni þessari umr., herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.