26.01.1984
Sameinað þing: 39. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

98. mál, aðgerðir gegn skattsvikum

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Það er erfitt að sitja hljóður undir annarri eins eldmessu og flutt var hér af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og enn þá sárara þar sem meginhlutinn í hennar mátflutningi er að mínu viti og minni reynslu réttur og sannur í öllum meginatriðum.

Það er ákaflega sárt til þess að vita að það virðist næstum því vera sama hverjir fara með ríkisfjármálin á Íslandi. Það virðist aldrei hægt að gera gangskör að því sem almenningi finnst ákaflega einfalt. Það er t.d. á allra vitorði, nema þá viðkomandi fjmrh., — frsm. hefur örugglega ekki átt neitt frekar við núverandi fjmrh. en forvera hans, þetta er gömul og ný saga, — að framtöl einstakra stétta og tekjur standast ekki á á nokkurn hátt og er það hverju barni augljóst. Skattayfirvöld og fjmrh. virðast samt vera algjörlega gagnslaus í þessum efnum. Það er sárt að segja það, en mér liggur við að segja að það skipti ekki miklu máli úr hvaða flokki viðkomandi fjmrh. er. Það er algjörlega vonlaust að fá gripið inn í þessi mál af nokkrum þrótti eða krafti.

Ég hef staðið í því um árabil, ber þó að taka fram að þorri embættismanna Skattstofunnar í Reykjavík er hinir gegnustu menn, að reyna að fá það leiðrétt þegar nokkrir verkamenn hafa ekki athugað að telja fram orlof sem tekjur. Þeir hafa bara tekið launaupphæðina frá atvinnurekandanum, en fengið svo frá póstgíróinu eða orlofsgíróinu aðra upphæð, sem er orlofsupphæðin, og sér náttúrlega hver maður, þar sem opinber stofnun á í hlut, að þetta er ekki ásetningssynd, heldur mistök. Það er því hart að þeim skuli refsað við álagningu skatta. Skylt er þó að geta þess að fjöldi embættismanna er lipur og þægilegur í þessum efnum og hefur á þessu skilning. En á sama tíma og erfitt er að fá svona einfaldar leiðréttingar komast heilu stéttirnar upp með ýmislegt og eins og ég vil endurtaka veit það hver maður í landinu, nema viðkomandi skattayfirvöld sem setja kíkinn fyrir blinda augað eins og hér var rætt. Það skera sig úr þar ákveðnir hópar og ekki rétt að vera að tilgreina neinn sérstakan hér. Það er þó hægt. En þeir sem hafa sjálfstæðan rekstur, þetta gildir alls ekki um allar atvinnugreinar með sjálfstæðan rekstur, virðast koma býsna vel út úr þessu. Það eru ákveðnar atvinnugreinar eða hluti af atvinnugreinum sem innheimta söluskatt og stinga undan, þ.e. svokölluð svört atvinnustarfsemi. Fyrirtækið kemur kannske slétt út. Ágóðinn er sá að það er ekki skilað nema hluta af söluskatti. Hver kannast ekki við það á bílaverkstæði, svo eitt dæmi sé tekið, að boðið er upp á hvort menn vilji nótu og þá kosti verkið þetta, en ef það sé ekki nóta sé verðið þetta miklu lægra?

Það hefur til margra ára, svo lengi sem ég man eftir, verið rætt um mistökin varðandi söluskattinn, hvað mikið af honum kom til skila, og verður því alvarlegra mál eftir því sem söluskatturinn verður hærri. Endur fyrir löngu held ég að hann hafi verið 6 eða 7%. Nú er hann kominn upp í 22 eða 23%. Þá er undanskot söluskatts ekki orðið smáatriði. Hvað söluskattur er stór hluti af tekjum ríkisins treysti ég mér ekki til að segja, en satt að segja hef ég lengi horft undrandi á hversu gjörsamlega máttlaus skattyfirvöld virðast vera í þessu og þeir sem annast skattheimtu alla. Ég verð að segja það að ég er líka forundrandi á því að í Skattstofunni í Reykjavík er t.d. sérstök skattrannsóknardeild, en hún er ekki nema að örtitlum hluta látin vinna við rannsóknir. Þetta eru ekki brigslyrði í garð viðkomandi starfsmanna og sjálfsagt eru þessi mál flókin og snúin, eins og embættismenn segja, en þar er heldur ekkert gert til að reyna að grípa verulega á þessum málum. Og ég er hræddur um að ef ýmsir aðrir ættu í hlut, ýmsir lægri tekjuhópar í þjóðfélaginu, mundi nú vera tekið öllu fastara í. Meðferð þessara mála þar, og á ég ekki við daginn í dag, árið í ár, síðasta ár eða við skulum segja tvo síðustu áratugi, meðferð á málum sem hafa verið mjög alvarlega krítísk, hefur vægast sagt verið furðuleg. Það væri býsna gaman að fá allítarlegar upplýsingar um vinnubrögð í þessum málum. Það er hins vegar illmögulegt eða ekki hægt.

Ég verð að segja að sú eldmessa og sú ákæra sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti áðan er að mínu mati í meginatriðum rétt. Og ég vildi mega treysta því að sú nefnd sem fengi þessa till. svæfi ekki á henni þar til þingi verður slitið.