30.01.1984
Efri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2416 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég lét þess getið við 1. umr. um frv. til l. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt á þskj. 230 að tekjuskattsumræðan hér í þinginu væri óneitanlega nokkuð flókin þar sem borist hefðu fimm stjfrv. á þessum vetri frá ríkisstj. um tekju- og eignarskatt auk þeirra mála um sama efni sem stjórnarandstöðumenn hafa flutt, og raunar ekki aðeins stjórnarandstöðuþm. heldur einnig stjórnarþm. Og það er ekki til að gera þessa flækju einfaldari að hér eru á ferðinni tvö frv. um sama málið, þ.e. þetta frv. á þskj. 231, sem nú er til umr., er angi af sama málinu sem var hér á dagskrá s.l. miðvikudag. Það frv. fór þá til nefndar. Satt best að segja er þetta mjög óvenjulegur málatilbúnaður, að ekki sé nú meira sagt, vegna þess að breytingin sem fólgin er í 1. gr. þess frv. sem hér er nú verið að ræða virðist vera nákvæmlega sama breytingin og felst í frv. sem rætt var í seinustu viku, þó þannig að í þessu seinna frv. er vísað í 4. tölul. B-liðs 1. mgr. 30. gr., en ef flett er upp í núgildandi tekjuskattslögum þá er sá liður alls ekki til. Það er greinilegt að hér er í frv. verið að vísa til lagagreinar sem alls ekki er til. Skýringin á því er auðvitað sú, að menn gera sér vonir um að hún verði til vegna ákvæða í einhverju öðru frv. En það er auðvitað ekki mjög skýr og einföld málsmeðferð.

Auk þess má segja að það sé nokkuð óvenjulegt að samþykktar séu tvær lagagreinar sín í hvoru frv. um nákvæmlega sama efnið. Ef einhver munur kynni að reynast á þessum tveimur greinum vegna mismunandi orðalags og upp kæmi lögfræðilegur ágreiningur um hvernig túlka ætti þetta orðalag, þá kynni nú að vandast málið, hvor lagatextinn væri í gildi, sá sem samþykktur hefði verið skv. þskj. 230 eða sá lagatexti sem samþykktur hefði verið skv. þskj. 231. Yfirleitt er reynt að forðast svona tvíverknað með því einfaldlega að hafa textann um sama efnið einungis einn, en að frekari útskýringar séu þá gefnar í meðfylgjandi greinum í sama frv., eða þá í reglugerð eins og oftast mundi vera, ellegar þá í frv. sem alls ekki fjallaði um nákvæmlega sama mál eða í öllu falli ekki um sama efnisatriði.

Ég veit ekki hvort hv. þm. gera sér fullkomlega grein fyrir hvað ég er hér að fara nema þeir kynni sér þennan texta. En ég vek hér athygli á því að þetta er mjög óvenjulegur og í raun og veru einkennilegur málatilbúnaður að vera á ferðinni með tvö frv. um sama málið. Og ekki nóg með það, heldur líka lagatexta um sama efnisatriðið í báðum frumvörpunum, án þess að hann sé nákvæmlega eins orðaður í þeim báðum.

Um þetta mál var fjallað hér ítarlega á seinasta fundi deildarinnar og ræddi ég þá málið í heild. Ég einskorðaði mig ekki við efnisatriði frv. á þskj. 230, heldur fjallaði um málið í heild þannig að ég hef þar ekki miklu við að bæta. Ég held að fyrra frv. sé nú það sem liggur meira á að afgreiða vegna þess að það varðar að öllu leyti skattálagningu þá sem nú á að eiga sér stað á næstu vikum og mánuðum, en frv. sem við erum núna að tala um er hins vegar ekki þess eðlis að því liggi mikið á. Það á ekki að koma til framkvæmda fyrr en á næsta ári og er því nóg að afgreiða það einhvern tíma fyrir þinglok ef það á að taka gildi.

En frá afgreiðslu þessara mála er það helst að segja að á fundi fjh.- og viðskn. í morgun komu fulltrúar frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambandi Íslands og þeir voru þar beðnir um umsögn um málið. Ég lagði tvær spurningar fyrir fulltrúa þessara samtaka. Í fyrsta lagi: ef ríkisstj. telur sig hafa efni á að eyða verulegum fjármunum til lækkunar á tekjuskatti, hvort telja beri þá að þessi lækkun tekjuskatts í þágu fyrirtækja í landinu sé sú brýnasta, sjálfsagðasta og sanngjarnasta, eða hvort ekki kynni að vera að einhverjar lækkanir skatta væru töluvert miklu brýnni að dómi þessara samtaka. Þetta er kjarni málsins og á því vek ég enn athygli.

Hin spurningin sem ég lagði fyrir var sú, hvort þessi samtök teldu ekki eðlilegra, ef út í það væri farið að gefa mönnum kost á að draga frá tekjum sínum fjármuni sem lagðir væru til fjárfestingar í fyrirtækjum eða til fjármunamyndunar, að allt fé sem lagt væri inn í bankakerfið væri frádráttarbært við álagningu tekjuskatts, hvort það væri ekki sanngjarnara gagnvart launafólki í landinu. Ég á von á að svör við þessum spurningum fáist innan tíðar þegar umsagnaraðilar skila áliti sínu.