30.01.1984
Efri deild: 45. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

160. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta frv. mjög mörg orð. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þessar skattalagabreytingar eru orðnar mikill frumskógur og hreint ekki fyrir hvern sem er að átta sig á því án mikillar sérhæfingar, ef svo má að orði komast. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um að þetta sé það sem nú sé brýnast í skattamálum. Ég held að þar geti ýmislegt annað komið til greina og minni þar á tillögur sem við Alþfl.-menn höfum flutt um neikvæðan tekjuskatt handa þeim sem minnst bera úr býtum. Satt best að segja held ég að menn séu gersamlega að renna blint í sjóinn hér. Menn vita nákvæmlega ekkert hvaða afleiðingar þær ráðstafanir sem hér er gert ráð fyrir muni hafa. En eitt sýnist mér þó ljóst, að þetta frv. er enn ein staðfestingin á því að það er skattastefna þessarar ríkisstj. að gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari, að þetta er ríkisstj. fyrirtækjanna fyrst og fremst, ekki fólksins, vegna þess að stöðugt er gengið lengra í að leggja byrðar á einstaklingana samhliða því sem mildandi aðgerðir ýmiss konar koma fyrirtækjum og atvinnurekstri til góða. Það eru auðvitað ýmis ákvæði í þessu sem eru athyglisverð, t.d. eins og með starfsmannasjóði, en ég held að það mál þurfi mjög ítarlegrar athugunar við og mætti hugsa sér ýmislegt annað fyrirkomulag í því sambandi en hér er gert ráð fyrir og ég held að því verði ekki frekar en öðrum atriðum hespað af á skömmum tíma.

Ég hygg að sú nefnd sem fær þetta mál til athugunar þurfi að gefa sér mjög góðan tíma til að fjalla um þessi mál.